Mál nr. 2/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 2/2017
Fimmtudaginn 11. maí 2017
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.
Með kæru, dags. 21. desember 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um útreikning atvinnuleysisbóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 4. janúar 2016 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 1. desember 2016. Á tímabilinu ágúst til nóvember 2016 fékk kærandi verktakagreiðslur fyrir hlutastarf og skilaði afriti af reikningum vegna þeirrar vinnu í lok hvers mánaðar. Í kjölfarið voru atvinnuleysisbætur kæranda endurreiknaðar og kæranda tilkynnt um ofgreiðslu á greiðsluseðlum Vinnumálastofnunar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. janúar 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 19. janúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. janúar 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hún hafi fengið breytilega vinnu sem verktaki og skráð vinnudagana samviskusamlega eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun. Kæranda hafi verið tjáð að ofgreiðsla hafi myndast þar sem hún hafi ekki skráð vinnuna sem verktakavinnu. Kærandi tekur fram að það sé hins vegar ekki rétt og mótmælir því að hafa fengið ofgreitt.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi tilkynnt til Vinnumálastofnunar um tilfallandi vinnu á tímabilinu ágúst til og með nóvember 2016 og í lok hvers mánaðar hafi kærandi skilað afriti af reikningum vegna verktakavinnu. Þar sem skerðing atvinnuleysisbóta vegna tilfallandi vinnu launþega og verktöku sé ekki eins farið hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem eingöngu hafi verið hægt að leiðrétta eftir að reikningar hafi legið fyrir. Ofgreiðslan hafi myndast þar sem kærandi hafi tilkynnt ranglega til Vinnumálastofnunar um tilfallandi vinnu sem launþegi í stað tilfallandi vinnu sem verktaki. Kæranda hafi verið tilkynnt um misræmi, endurútreikning og skuldamyndun við hver mánaðamót með tilkynningum frá greiðslustofu Vinnumálastofnunar og á greiðsluseðlum.
Vinnumálastofnun tekur fram að í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé gerður greinarmunur á launþegum annars vegar og verktökum hins vegar. Verktakar teljist vera sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi 3. gr. laga nr. 54/2006 en samkvæmt f- og g-lið 18. gr. laganna sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum atvinnuleitanda að hann hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu um stöðvun reksturs, sbr. 20. og 21. gr. laganna. Ljóst sé að verktakavinnan sem kærandi hafi tekið að sér falli undir skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingi. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum sé ekki heimilt að stunda verktakavinnu samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta og því hafi Vinnumálastofnun það verklag að afskrá atvinnuleitendur af atvinnuleysisskrá þann dag sem verktakavinna fari fram óháð lengd vinnunnar. Atvinnuleitandi skuli þannig vera afskráður í heilan dag þrátt fyrir að verktakavinna vari skemur en átta klukkustundir og ekki sé heimilt að safna upp tímum. Þá fái atvinnuleitandi sem tilkynni um verktakavinnu greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann dag en að sama skapi eru bætur ekki skertar með hliðsjón af þeim greiðslum sem viðkomandi fær. Annað gildi um atvinnuleitanda sem taki að sér tilfallandi vinnu sem launamaður í skilningi 3. gr. a laga nr. 54/2006. Viðkomandi sé ekki afskráður af atvinnuleysisskrá heldur séu tekjur vegna tilfallandi vinnu dregnar frá atvinnuleysisbótum í samræmi við 36. gr. laganna.
Vinnumálastofnun bendir á að á vefsíðu stofnunarinnar sé að finna nákvæmar upplýsingar um það hvernig skuli haga skráningu verktöku meðan einstaklingur sé á atvinnuleysisskrá. Þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta er skilað sé umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur atvinnuleitanda, þar með talið hvernig skuli tilkynnt um tilfallandi vinnu og skráningu verktakavinnu. Umsækjandi hafi einnig setið starfsleitarfund þar sem sérstaklega hafi verið tekið fram hvernig skuli skrá annars vegar tilfallandi vinnu sem launþegi og hins vegar verktöku. Þá hafi kæranda meðal annars verið tilkynnt símleiðis um verktakavinnu í febrúar, apríl og maí og hafi hún skilað reikningum vegna þeirrar vinnu og fengið aðstoð ráðgjafa við sambærilega skráningu í marsmánuði 2016. Að mati Vinnumálastofnunar hafi kærandi því fengið fullnægjandi leiðbeiningar um hvernig haga skuli slíkri skráningu.
Vinnumálastofnun tekur fram að þar sem endurútreikningur á greiðslum atvinnuleysisbóta í máli kæranda hafi farið fram afturvirkt með hliðsjón af framlögðum reikningum hafi myndast skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar. Kæranda beri í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær sem hafi verið ofgreiddar. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi því ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Meðan kærandi hafi verið skráð í atvinnuleit hjá stofnuninni hafi skuld vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta verið skuldajafnað við síðar tilkomnar bætur. Samtals nemi skuld kæranda 39.140 kr. og það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að útreikningi og skerðingu atvinnuleysisbóta kæranda.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um útreikning atvinnuleysisbóta kæranda.
Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.
Samkvæmt a-lið 3. gr. laga nr. 54/2006 er launamaður hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Samkvæmt b-lið 3. gr. laganna er sjálfstætt starfandi einstaklingur hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.
Kærandi þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árinu 2016. Á tímabilinu ágúst til nóvember 2016 fékk kærandi verktakagreiðslur fyrir hlutastarf og skilaði afriti af reikningum vegna þeirrar vinnu í lok hvers mánaðar. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að kærandi hafi ranglega tilkynnt stofnuninni um tilfallandi vinnu sem launþegi og því hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Verktakar teljist vera sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi 3. gr. laga nr. 54/2006 og ljóst sé að verktakavinna kæranda falli undir þá skilgreiningu.
Í b-lið 3. gr. laga nr. 54/2006 er áhersla lögð á umfang vinnu hins sjálfstætt starfandi einstaklings og skal umfang hennar vera slíkt að honum beri reglulega að standa skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfsins. Ef umfang vinnunnar er á hinn bóginn svo lítið að einstaklingur fái heimild skattyfirvalda til að greiða staðgreiðslu aðeins einu sinni á ári telst hann að mati úrskurðarnefndarinnar ekki vera sjálfstætt starfandi í skilningi laganna. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er samkvæmt þessu sá sem ber skyldu til að greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi. Samkvæmt 2. málsl. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt hvílir slík skylda á öllum þeim sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, en þeim ber skylda til að reikna sér endurgjald sem er eigi lægra en hefði vinnan verið innt af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Til fyllingar framangreindu ákvæði setur Ríkisskattstjóri árlega viðmiðunarreglur um það lágmarks endurgjald sem sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu reikna sér. Skyldan til að reikna sér endurgjald hvílir þannig á öllum sjálfstætt starfandi einstaklingum og endurgjaldið skal að lágmarki vera það sem hinar sérstöku reglur Ríkisskattstjóra tilgreina. Engar upplýsingar liggja fyrir í málinu er staðfesta að verktakavinna kæranda hafi verið það umfangsmikil að henni bæri að standa skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi. Að því virtu verður ekki fallist á að tilgreind verktakavinna kæranda falli undir skilgreiningu b-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 um sjálfstætt starfandi einstakling.
Í 36. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna. Í 1. mgr. 36. gr. segir meðal annars að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða og atvinnuleysisbætur hans eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildi um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum.
Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Vinnumálastofnun á grundvelli fyrirliggjandi gagna að líta svo á að kærandi hafi tekið að sér tilfallandi vinnu sem launamaður og endurreikna atvinnuleysisbætur kæranda í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, um útreikning atvinnuleysisbóta A, er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson