Hoppa yfir valmynd
11. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 78/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 78/2017

Fimmtudaginn 11. maí 2017

AgegnÍbúðalánasjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. febrúar 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 21. desember 2016, um synjun á umsókn hennar um afskrift á skuld.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um afskrift á skuld við Íbúðalánasjóð með umsókn, dags. 2. desember 2016, á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 21. desember 2016, á þeirri forsendu að eignir væru yfir 50% af fjárhæð hins glataða veðs.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 24. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 1. mars 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. mars 2017, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Íbúðalánasjóður hafi við mat á umsókn hennar um niðurfellingu skulda byggt á forsendum úr skattframtali fyrir árið 2015 þegar hún hafi meðal annars verið með inneign á bankareikningi og þrjár bifreiðar skráðar á sig. Kærandi telur að forsendur þær sem Íbúðalánasjóður hafi farið eftir séu bersýnilega rangar og að taka þurfi mál hennar til umfjöllunar út frá núverandi stöðu. Kærandi tekur fram að hún eigi hvorki bifreið né húsnæði og að framfærsla hennar komi frá Vinnumálastofnun í formi atvinnuleysisbóta. Hún hafi því lítið sem ekkert á milli handanna eftir að mánaðarlegar greiðslur hafi verið inntar af hendi. Kærandi fer fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála taki mál hennar fyrir með vísan til breyttra forsendna.

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs kemur fram að kærandi hafi sótt um að skuld hennar við sjóðinn, sem hafi myndast í kjölfar nauðungarsölu á fasteign hennar, yrði afskrifuð á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 35/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Stjórn Íbúðalánasjóðs hafi sett reglur um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða, þar með talið reglur um niðurfellingu glataðra veða, á grundvelli reglugerðar nr. 359/2010. Samkvæmt 11. gr. reglnanna sé niðurfellingu synjað ef eignir umfram skuldir samkvæmt skattframtali séu meiri en sem nemi helmingi eða meira af heildarkröfu sjóðsins og ef mánaðarlegar samanlagðar launatekjur skuldara nemi 25% eða meira af kröfu sjóðsins.

Íbúðalánasjóður tekur fram að samkvæmt skattframtali 2016 hafi eignir kæranda numið 4.752.224 kr. en heildarfjárhæð glataðs veðs kæranda sé 2.111.834 kr. Því sé ljóst að eignir kæranda hafi verið yfir 50% af fjárhæð hins glataða veðs þegar greiðsluaðlögunarnefnd sjóðsins hafi tekið ákvörðun í málinu. Kærandi hafi verið skráður eigandi að þremur bifreiðum í árslok 2015 en leggja verði til grundvallar með hliðsjón af opinberri eignaskráningu að kærandi sé eigandi bifreiðanna. Íbúðalánasjóður bendir á að við meðferð málsins hjá sjóðnum hafi kærandi ekki lagt fram frekari gögn sjónarmiðum sínum til stuðnings. Því verði ákvörðun Íbúðalánasjóðs ekki byggð á öðrum gögnum en þeim sem hafi legið fyrir við ákvörðun sjóðsins.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Íbúðalánasjóðs á umsókn kæranda um afskrift á skuld við sjóðinn.

Um afskriftir veðkrafna Íbúðalánasjóðs fer eftir 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laganna er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu, sem sett var með heimild í 47. og 50. gr. laga nr. 44/1998, er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa slíkar kröfur að liðnum þremur árum frá sölu fasteignar skuldara.

Í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða, sem samþykktar voru á fundi stjórnar þann 16. október 2015 og uppfærðar á fundi stjórnar þann 1. desember 2016, er meðal annars kveðið á um skilyrði fyrir niðurfellingu glataðra veða. Þar segir í grein 11.1 að ef eignir umfram skuldir samkvæmt skattskýrslu nemi helmingi eða meira af kröfu sjóðsins verði beiðni um niðurfellingu synjað. Í grein 11.2 kemur fram að með umsókn skuli fylgja skattskýrslur síðustu þriggja ára og afrit af launaseðli síðustu þriggja mánaða. Heimilt sé að kalla eftir frekari gögnum ef ástæða þyki til. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að eignir hennar væru yfir 50% af fjárhæð hins glataða veðs og byggði sú niðurstaða á fyrirliggjandi skattframtali kæranda ársins 2016 sem sýndi fjárhagstöðu kæranda við lok árs 2015. Kærandi hefur lagt fram nýjar upplýsingar fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála sem sýna fram á að fjárhagsstaða hennar er önnur en framangreind gögn bera með sér.

Endurskoðun æðra stjórnvalds á ákvörðunum lægra setts stjórnvalds á grundvelli stjórnsýslukæru tekur til allra þátta ákvörðunarinnar. Í málinu hafa verið lögð fram ný gögn sem hafa ekki sætt efnisúrlausn hjá Íbúðalánasjóði. Ekki er útilokað að þau geti haft áhrif á niðurstöðu málsins eða gefið sjóðinum tilefni til að kalla eftir frekari gögnum frá kæranda. Í ljósi þess er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun og vísa máli kæranda til nýrrar afgreiðslu Íbúðalánasjóðs.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 21. desember 2016, á umsókn A, um afskrift á skuld er felld úr gildi og málinu vísað til sjóðsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta