Hoppa yfir valmynd
8. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 10/2017

Mánudaginn 8. maí 2017

A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags, 11. janúar 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. janúar 2017, um synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn 6. desember 2016 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar X. Í umsókn kæranda kemur fram að upphafsdagur fæðingarorlofs skyldi vera 30. desember 2016.

Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. janúar 2017, var umsókn kæranda um greiðslur úr sjóðnum synjað á þeirri forsendu að hún hafi ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði tímabilið 13. til 23. október 2016 og uppfyllti því ekki skilyrði fyrir að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Barn kæranda fæddist þann X.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 11. janúar 2017. Með bréfi, dags. 13. janúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs, ásamt gögnum málsins, sem barst 29. janúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. febrúar 2017, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst hafa verið ráðin til starfs hjá vinnuveitanda sínum 12. október 2016 en ekki fengið fyrstu vaktina fyrr en 23. október sama ár. Þrátt fyrir að hún hafi verið tekjulaus þessa tíu daga hafi hún verið að fylgjast með og kanna hvernig og hvort starfið myndi henta henni, þá komin x. vikur á leið. Auk þess hafi hún verið að læra á […].

Kærandi kveðst hafa sýnt fram á ráðningarsamning og samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) telst það til þátttöku á vinnumarkaði sé ráðningarsamningur til staðar þótt starf sé ólaunað að hluta til eða öllu leyti.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur úr sjóðnum í sex mánuði vegna barnsfæðingar X. Auk umsóknar kæranda hafi Fæðingarorlofssjóði borist tilkynning um fæðingarorlof, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, launaseðill frá vinnuveitanda fyrir október og nóvember 2016, beiðni um nýtingu persónuafsláttar, ráðningarsamningur, tölvupóstur frá vinnuveitanda, dags. 22. desember 2016, yfirlit vinnutíma í október og nóvember 2016 og gögn frá Vinnumálastofnun vegna atvinnuleysisbóta, auk upplýsinga úr skrám Ríkisskattstjóra og Þjóðskrár Íslands.

Við vinnslu málsins voru kæranda send bréf 22. og 27. desember 2016 og 3. og 10. janúar 2017. Þá hafi á kærustigi málsins verið aflað upplýsinga um vinnu kæranda á tímabilinu 24. nóvember til og með 31. desember 2016 en upplýsingar um tekjur á því tímabili hafi ekki legið fyrir í skrám Ríkisskattstjóra fyrr en eftir að hin kærða ákvörðun var tekin 10. janúar 2017. Samhliða því hafi verið óskað frekari skýringa frá vinnuveitanda kæranda á tímabilinu 13. til 23. október 2016. Í framhaldinu barst launaseðill fyrir desember 2016 og yfirlit tímaskráningar fyrir þann mánuð, ásamt skýringum vinnuveitanda kæranda á tímabilinu 13. til 23. október 2016.

Í 1. mgr. 13. gr. ffl. komi fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. meðal annars 2. mgr. 8. gr. ffl., skal þó miða við þann dag er foreldrið byrjar í fæðingarorlofi að því er það foreldri varðar.

Í 2. mgr. 7. gr. ffl. sé að finna orðskýringu á því hvað felst í að vera starfsmaður en samkvæmt ákvæðinu telst starfsmaður samkvæmt lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. kemur fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla laganna feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. 13. gr. ffl. sé síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist til þátttöku á vinnumarkaði.

Fæðingardagur barns kæranda var X. Kærandi óskaði eftir að hefja fæðingarorlof fyrir þann tíma eða frá 30. desember 2016 í samræmi við 2. mgr. 8. gr. ffl. Ávinnslutímabil kæranda sem starfsmanns hafi því verið frá 30. júní 2016 og fram að upphafsdegi fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl.. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi, samkvæmt framangreindu, þurft að hafa verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á tímabilinu, sbr. 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Samkvæmt skrám Ríkisskattstjóra og gögnum frá Vinnumálastofnun fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur á framangreindu ávinnslutímabili til 13. október 2016 en þá hafi bótatímabili hennar lokið. Kærandi hafði síðan laun frá vinnuveitanda í nóvember og desember 2016 en samkvæmt gögnum málsins hafi laun fyrir nóvember verið fyrir tímabilið 24. október til 23. nóvember 2016.

Komið hafi til skoðunar tímabilið 13. til 24. október 2016 en bótatímabili atvinnuleysisbóta hjá kæranda lauk 13. október og laun frá vinnuveitanda voru greidd frá 24. október 2016. Samkvæmt tölvupósti frá vinnuveitanda kæranda, dags. 22. desember 2016, og yfirliti tímaskráningar fyrir október og nóvember 2016, hóf kærandi störf þann 24. október 2016. Í ráðningarsamningi kæranda og vinnuveitanda sem barst þann 2. janúar 2017 segir síðan að kærandi sé ráðinn tímabundið frá 12. október 2016 til 15. janúar 2017 en fyrsti starfsdagur sé 24. október 2016.

Samkvæmt framangreindu sé óumdeilt að kærandi hóf ekki störf hjá vinnuveitanda fyrr en 24. október 2016 og þáði laun frá þeim tíma. Í samræmi við það hafi kæranda verið sent synjunarbréf þar sem ekki yrði séð að hún uppfyllti meginreglu 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 13. gr. a. ffl. um að hafa verið samfellt í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns tímabilið 13. til 23. október 2016.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að á kærustigi hafi verið aflað upplýsinga um vinnu kæranda tímabilið 24. nóvember til og með 31. desember 2016 en upplýsingar um tekjur kæranda á því tímabili lágu ekki fyrir í skrám Ríkisskattstjóra fyrr en eftir að hin kærða ákvörðun var tekin 10. janúar 2017. Samhliða því var ákveðið að leita frekari skýringa hjá vinnuveitanda kæranda á tímabilinu 13. til 23. október 2016. Í skýringum vinnuveitanda sem bárust 18. og 20. janúar 2017 komi meðal annars fram að ástæðan fyrir því að kærandi tók engar vaktir á framangreindu tímabili hafi verið vegna þess að hún hafi verið ráðin til þess að fylla upp í vaktir ef einhver myndi losna. Hún hafi óskað eftir því að fá að fylgjast með starfinu og athuga hvort þetta myndi henta henni. Hins vegar hafi engin vakt verið laus á þessum tíma og tók kærandi því ekki fyrstu vaktina fyrr en 24. október 2016.

Að mati Fæðingarorlofssjóðs liggi það skýrt fyrir að á tímabilinu 14. til 23. október 2016 vann kærandi ekki launuð störf sem starfsmaður í þjónustu vinnuveitanda í skilningi 2. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 1. mgr. 13. gr. a. ffl. og 1. mgr. 13. gr. ffl. Þá hafi ekki verið séð af fyrirliggjandi gögnum að stafliðir 2. mgr. 13. gr. a. ffl. geti átt við í tilviki kæranda á framangreindu tímabili, sbr. bréf til hennar, dags. 27. desember 2016. Þegar af þeim ástæðum hafði kærandi ekki rétt á því að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður.

Með vísan til alls framangreinds hafi Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóður talið að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til að fá greitt úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. ffl.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 10. janúar 2017, um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeirri forsendu að hún hafi ekki verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til þátttöku á innlendum vinnumarkaði telst meðal annars orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags, enda hafi foreldrið látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, sbr. 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Barn kæranda fæddist þann X en kærandi óskaði þess að hefja fæðingarorlof 30. desember 2016. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 8. gr. ffl., er því frá 30. júní 2016 til 30. desember 2016. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. þarf kærandi að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði á því tímabili til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu frá 13. október 2016 til og með 23. október sama ár en óumdeilt er að kærandi var á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. á öðrum tíma ávinnslutímabilsins.

Í málinu liggur fyrir ráðningarsamningur á milli vinnuveitanda kæranda þar sem fram kemur að ráðningartími hennar væri frá 12. október 2016 en að fyrsti starfsdagur hennar væri 24. október sama ár. Samkvæmt þesssu liggur fyrir að kærandi var ekki starfandi sem starfsmaður í skilningi 2. mgr. 7. gr. ffl. á tímabilinu frá 12. október 2016 til 24. október sama ár. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið á samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs sem var 30. desember 2016, sbr. 2. mgr. 8. gr. ffl.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. janúar 2017, um synjun á kröfu A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta