Hoppa yfir valmynd
8. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 18/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 18/2017

Mánudaginn 8. maí 2017

A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags, 11. janúar 2017, kærir B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. október 2016, um synjun á yfirfærslu réttinda.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 7. apríl 2016, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barnsfæðingar X.

Þann 27. október 2016 sótti kærandi um yfirfærslu réttinda föðurs þar sem barnið hefði ekki verið feðrað. Kærandi óskaði eftir að fá allt fæðingarorlofið greitt eða níu mánuði. Með umsókn fylgdi endurrit úr sifjamálabók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kom að kæranda hefði ekki tekist að feðra barnið.

Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. október 2016, var umsókn kæranda um yfirfærslu réttinda synjað á þeirri forsendu að skilyrði 4., 8. og 9. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) hafi ekki verið uppfyllt.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi, dags. 11. janúar 2017. Með bréfi, dags. 16. janúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins sem barst 30. janúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. febrúar 2017, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð/snúið við og henni gert kleift að njóta níu mánaða fæðingarorlofs með barni sínu með greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi kveðst hafa óskað eftir yfirfærslu réttinda vegna dóttur sinnar sem reynt hefði verið að feðra en án árangurs. Með umsókn hafi fylgt vottorð frá sýslumanni um árangurslausa feðrun. Í hinni kærðu ákvörðun hafi verið vísað í 4., 8. og 9. mgr. 8. gr. ffl. og var yfirfærslu réttinda hafnað þar sem innsend gögn þóttu ekki uppfylla skilyrði 8. gr. ffl.

Kærandi telji það skjóta skökku við og vera mótsagnarkennt að þessar tvær stofnanir, Fæðingarorlofssjóður og Tryggingastofnun, hafi ekki tekið gilt sama vottorðið til hagsbóta fyrir ungbörnin og betri möguleika til umönnunar þeirra.

Barn kæranda sé föðurlaust og eigi rétt á barnalífeyri frá Tryggingarstofnun en hafi samkvæmt þessu ekki sama rétt og önnur börn einstæðra foreldra sem geta óskað eftir níu mánaða fæðingarorlofi með yfirfærslu réttinda.

Einnig sé mótsögn í þessari lagagrein að einstæðir foreldrar barna sem fæðast eftir tæknifrjóvgun eða ættleiðingu hljóti rétt til níu mánaða fæðingarorlofs en ekki mæður barna sem fæðast „faðernislaus“ eftir „slysafrjóvgun“. Tekið sé tillit til andláts, veikinda eða sjúkdóms annars foreldris, sem þó sé/hafi verið að einhverju leyti til staðar og afplánunar fangelsisvistar. Þarna sé klár mismunun á réttindum nýfæddra einstaklinga.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barnsfæðingar X.

Með umsókn 27. október 2016 hafi kærandi óskað eftir yfirfærslu réttinda á sjálfstæðum þriggja mánaða rétti fæðingarorlofs föður til móður á þeim forsendum á barn hennar yrði ekki feðrað. Með umsókninni hafi fylgt útprentun úr sifjabók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 9. maí 2016. Þar segi meðal annars að kæranda hafi ekki verið unnt að feðra barn sitt þar sem faðirinn sé erlendur og hún hafi reynt eins og mögulegt var að hafa upp á honum án árangurs.

Í 1. mgr. 8. gr. ffl. segir meðal annars að foreldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr., eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar. Þessi réttur sé ekki framseljanlegur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Frá framangreindri meginreglu 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. ffl. sé að finna nokkrar undanþágur í 8. gr. ffl. Þar séu einnig tæmandi talin þau tilvik sem geta leitt til þess að foreldri öðlist rétt til fæðingarorlofs í allt að níu mánuði. Þannig segi í 4. mgr. ákvæðisins að foreldri skuli öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að níu mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi. Hið sama gildi um einhleypa móður sem hafi gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hafi ættleitt barn eða tekið í varanlegt fóstur. Þá segi í 8. mgr. ákvæðisins að ef annað foreldrið andast áður en barn nær 24 mánaða aldri færist réttur til fæðingarorlofs, sem hinn látni hefur ekki þegar nýtt sér, yfir til eftirlifandi foreldris. Loks segi í 9. mgr. ákvæðisins að foreldri sem sé ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu þess sé heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs, sem það hafi ekki þegar nýtt sér, til hins foreldrisins, að hluta eða öllu leyti.

Í máli þessu hafi kærandi lýst því fyrir Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að barn hennar verði ekki feðrað þar sem reynt hafi verið að hafa upp á erlendum föður þess en án árangurs. Þrátt fyrir að ekki sé ástæða til að efast um lýsingu kæranda heimila ffl. hvorki yfirfærslu á sjálfstæðum rétti fæðingarorlofs föður til kæranda eins og málsatvikum sé háttað, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. ffl., né heldur hafi verið séð að aðstæður kæranda falli undir þær heimildir sem kveðið sé á um í 4., 8. og 9. mgr. 8. gr. ffl. og geti veitt rétt til fæðingarorlofs í allt að níu mánuði.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um níu mánaða fæðingarorlof.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 28. október 2016, um að synja umsókn kæranda um yfirfærslu réttinda föður til móður.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl. eiga foreldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr. ffl., sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Undantekningar á þessari meginreglu ffl. eru í 4., 8. og 9. mgr. 8. gr. ffl.

Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til allt að níu mánaða fæðingarorlofs hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi. Hið sama gildir um einstæða móður sem gengist hefur undir tæknifrjóvegun eða einhleypt foreldri sem hefur ættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur. Samkvæmt 8. mgr. 8. gr. ffl. færist réttur til fæðingarorlofs eftirlifandi foreldris ef annað foreldri andast áður en barn nær 24 mánaða aldri. Að lokum er foreldri samkvæmt 9. mgr. 8. gr. ffl. heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs sé það ófært um að annast barn sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar.

Samkvæmt gögnum málsins hefur ekki tekist að feðra barn kæranda. Kærandi hefur óskað eftir yfirfærslu sjálfstæðs réttar föður til fæðingarorlofs og að hún geti þá notið þess í níu mánuði. Eins og fram hefur komið er sjálfstæður réttur foreldris að meginreglu til ekki framseljanlegur, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. ffl. Undantekningar frá þessu er að finna í 4., 8. og 9. mgr. 8. gr. ffl. Aðstæður kæranda falla ekki að þeim undantekningum sem þar eru tilgreindar og því verður fallist á með Fæðingarorlofssjóði að ekki hafi verið heimilt að færa sjálfstæðan rétt föður til fæðingarorlofs yfir til kæranda.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. október 2016, um að synja A, um yfirfærslu réttinda föður er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta