Hoppa yfir valmynd
8. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 50/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 50/2017

Mánudaginn 8. maí 2017

AgegnVinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags., 31. janúar 2017, kærir B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. nóvember 2016, um synjun á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 7. september 2016, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar. Í umsókn kæranda kemur fram að upphafsdagur fæðingarorlofs miðist við fæðingardag barns sem áætlaður var X 2016.

Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. nóvember 2016, var umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði synjað á þeirri forsendu að hann hafi ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði tímabilið 12. til 17. apríl 2016 og uppfyllti því ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Barn kæranda fæddist þann X 2016.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 3. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 6. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins sem barst með bréfi, dags. 20. febrúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. febrúar 2017, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Athugasemdir hans bárust með bréfi, dags. 7. mars 2017, og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi, dags. 14. mars 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að atvik málsins hafi verið þau að kærandi og maki hans hafi eignast dóttur sem fæddist andvana þann X 2015. Þá hafi kærandi verið starfsmaður í B. Hann hafi ákveðið að segja starfi sínu lausu fljótlega eftir áramótin 2016. Um vorið 2016 réð kærandi sig síðan til vinnu á C og hóf þar störf í apríl 2016.

Í tilefni þess að maki kæranda varð aftur ófrísk sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði síðsumars 2016. Þá hafi fæðingardagur verið áætlaður X 2016. Með bréfi 21. september 2016 hafi kæranda verið tilkynnt að hann uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum úr sjóðnum. Barn kæranda fæddist síðan X 2016.

Fæðingarorlofssjóður tilkynnti kæranda með bréfi 28. október 2016 að hann uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. þar sem engar tekjur hafi verið skráðar á hann á tímabilinu 12. apríl til og með 17. apríl 2016. Kæranda var gefinn kostur á að leggja fram gögn til staðfestingar á því að hafa verið þátttakandi á vinnumarkaði á framangreindu tímabil.

Kærandi hafi síðan lagt fram gögn sem sýna það að hann hafi vissulega verið byrjaður að starfa á C þann 11. apríl 2016. Þessu til sönnunar liggja bæði fyrir vottorð [...] og endurrit úr vaktaskrá C. Sömuleiðis liggja fyrir tölvupóstsamskipti kæranda og yfirmanns í tengslum við upphaf starfa hans í aprílmánuði. Þá hafi launafulltrúi atvinnurekanda staðfest með tölvupósti, dags. 3. janúar 2017, að kærandi hafi hafið störf 11. apríl, en þar sem um fyrstu vaktina hefði verið að ræða þann dag þá hefði kærandi ekki verið kominn inn í formlegt stimpilklukku- eða viðverukerfi. Kærandi hafi hins vegar verið færður inn í kerfið síðar meir. Í ráðningarsamningi, sem var undirritaður 26. Júní, er miðað við þetta síðara tímamark þar sem segir að byrjunardagur sé 18. apríl 2016.

Þrátt fyrir að allir hlutaðeigandi hafi staðfest að kærandi hafi verið ráðinn til starfa þann 11. apríl, og að það styðjist fyllilega við framlögð gögn í málinu, taldi Fæðingarorlofssjóður ekki sýnt fram á þátttöku á innlendum vinnumarkaði á framangreindu tímabili.

Kærandi telur fyllilega sannað að hann uppfylli öll skilyrði til að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður á innlendum vinnumarkaði, sbr. 13. gr. og 13. gr. a ffl., þar sem hann hafi verið kominn í starf í annarra þjónustu frá og með 11. apríl 2016, meira en sex mánuðum fyrir fæðingardag barns. Þetta sýni framlögð vaktaskrá, tölvupóstar og vottorð yfirmanna hjá vinnuveitanda.

Þá megi ekki líta fram hjá því að fæðingardegi barns kæranda hafi verið flýtt undir lok meðgöngu af læknisfræðilegum ástæðum. Í 13. gr. sé vikið að viðmiðunartíma við mat á ávinnslu réttinda. Í ákvæðinu sé gert ráð fyrir að miða verði við áætlaðan fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr. ffl., sbr. ummæli í greinargerð með 4. gr. frumvarps til laga nr. 90/2004 um breyting á lögum nr. 95/2000. Áætlaður fæðingardagur barns var sem fyrr segir X 2016. Kærandi telur að það standist ekki meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins að synja honum um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með vísan til þess að fæðingardagur barnsins, sem var meira en þremur vikum fyrir áætlaða dagsetningu, hafi verið minna en sex mánuðum fyrir tilgreindan ráðningardag í ráðningarsamningi, sér í lagi þegar fjöldi fyrirliggjandi gagna sýni að kærandi hóf störf fyrir þann tíma.

Þá telji kærandi að útreikningur sem fram komi í bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. nóvember, og miði að því að reikna út vinnutímabil í apríl með hlutfallsreikningum af heildarlaunum útborguðum í lok maí 2016, standist ekki sem rök fyrir því að synja honum um greiðslur úr sjóðnum, gegn framlögðum gögnum í málinu.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að því hafi verið haldið fram að hann hafi ekki sýnt fram á að hafa verið í launuðu starfi hjá vinnuveitanda þann 1. apríl 2016. Vísað hafi verið til þess að hvorki yrði séð af skráningum Ríkisskattstjóra að kærandi hefði fengið þann dag greiddan né hafi slíkt verið ráðið af tímaskráningum eða launaseðlum. Kærandi kveður að færðar hafi verið fram fullnægjandi skýringar á því að vaktarinnar hafi ekki verið getið í tímaskráningum né launaseðli fyrir aprílmánuð 2016. Þannig hafi kærandi ekki verið færður inn í viðverukerfi á vinnustaðnum fyrr en síðar. Þá hafi laun fyrir aprílmánuð verið greidd með launaseðli fyrir maímánuð 2016. Kærandi bendir á að Ríkisskattstjóri haldi ekki skrá yfir launagreiðslur frá degi til dags, enda séu laun kæranda greidd á mánaðargrundvelli eins og gildi um meginþorra launþega á Íslandi.

Að síðustu sé því mótmælt að sú staðreynd að kærandi hafi þegið laun í 123,84% starfi fyrir maí 2016 sé notuð til að rökstyðja að hann hafi ekki hafið störf fyrr en 18. apríl það ár, sér í lagi þegar fyrir liggja fullyrðingar yfirmanns og staðfesting launafulltrúa um hið gagnstæða.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar X 2016. Barn kæranda fæddist hins vegar X 2016 og við það varð breyting á ávinnslutímabili hans. Auk umsóknar kæranda hafi Fæðingarorlofssjóði borist tilkynning um fæðingarorlof, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, launaseðlar frá C fyrir júlí og ágúst 2016, vottorð vinnuveitanda, dags. 15. nóvember 2016, tölvupóstsamskipti við kæranda 28. október til 6. desember 2016 og tölvupóstsamskipti við vinnuveitanda kæranda, dags. 20. desember 2016 til 18. janúar 2017. Einnig lágu fyrir upplýsingar úr skrám Ríkisskattstjóra og Þjóðskrá Íslands.

Við vinnslu málsins voru kæranda send bréf 21. september, 28. október, 17. nóvember 2016 og 20. janúar 2017. Kærandi fékk fyrst sent bréf um væntanlegar greiðslur miðað við að fæðingardagur barnsins yrði X 2016. Barn kæranda fæddist hins vegar X 2016 og við það hafi orðið breyting á ávinnslutímabili kæranda.

Í 2. mgr. 7. gr. ffl. sé að finna orðskýringu á starfsmanni en samkvæmt ákvæðinu telst starfsmaður samkvæmt lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Í 1. mgr. 13. gr. ffl. komi fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. meðal annars 2. mgr. 8. gr. ffl., skal þó miða við þann dag er foreldrið byrjar í fæðingarorlofi að því er það foreldri varðar.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. kemur fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla laganna feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf. Í 2. mgr. 13. gr. a. ffl. sé síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist til þátttöku á vinnumarkaði.

Fæðingardagur barns kæranda var X 2016 eins og áður hefur komið fram og var ávinnslutímabil kæranda því frá X 2016 og fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi, samkvæmt framangreindu, að hafa unnið launað starf í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á tímabilinu, sbr. 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 13. gr. ffl. og 1. mgr. 13. gr. a. ffl., eða verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Samkvæmt skrám Ríkisskattstjóra hafði kærandi laun frá C í maí og fram að fæðingu barnsins en engin laun eru hins vegar gefin upp í apríl 2016. Þrátt fyrir að það sé óumdeilt að kærandi vann launuð störf sem starfsmaður í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli hjá C frá 18. apríl 2016, sbr. ráðningarsamning kæranda við félagið, tímaskráningar fyrir apríl 2016, vottorð vinnuveitanda og tölvupóst frá kæranda, dags. 28. október 2016, standi eftir tímabilið 12. til 17. apríl 2016 sem ágreiningur þessa máls snúist um.

Í kjölfar bréfs til kæranda þar sem athygli hans var vakin á launaleysi í apríl 2016 og leiðbeiningum um hvað annað teldist jafnframt til þátttöku á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. mgr. 13. gr. a. ffl., barst tölvupóstur frá honum, dags. 28. október 2016, þar sem fram kom að hann hefði unnið 41 tíma í apríl og komi það einnig fram á tímaskráningu frá vinnuveitanda sem fylgdi póstinum. Þar hafi jafnframt mátt sjá að starfstímabil kæranda í apríl 2016 hefjist 18. apríl. Síðar barst vottorð frá vinnuveitanda, dags. 15. nóvember 2016, þar sem fram komi að starfstímabil 1. til 31. maí 2016 hafi verið 123,84% og passi það við að kærandi hafi starfað 41 tíma í apríl 2016 sem sé 23,84% af 172 vinnustundum á mánuði, sbr. 1. mgr. 13. gr. a. ffl., og síðan verið í fullu starfi í maí. Þá hafi komið skýrt fram í ráðningarsamningi, dags. 26. júní 2016, að kærandi hafi verið ráðinn í 100% starfshlutfall frá 18. apríl 2016 til 1. maí 2017.

Eftir að kæranda var sent synjunarbréf þar sem hann hefði hvorki sýnt fram á að hafa unnið launuð störf sem starfsmaður í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á tímabilinu 12. til 17. apríl 2016 né heldur hafa verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. mgr. 13. gr. a. ffl., barst tölvupóstur frá kæranda, dags. 6. desember 2016, þar sem hann sagðist hafa unnið vakt þann 11. apríl sem síðar hafi leitt til fastráðningar. Vaktin hafi verið fjórir tímar og hann hafi fengið greitt fyrir hana. Þá barst tölvupóstur frá vinnuveitanda kæranda, dags. 20. desember 2016, þar sem greint var frá því að kærandi hefði fengið greidd laun frá byrjun apríl 2016. Í framhaldinu hafi verið óskað tímaskráningar fyrir tímabilið 1. til 17. apríl ásamt launaseðlil sem gæti staðfest framangreint. Í kjölfarið barst tölvupóstur frá vinnuveitanda kæranda, dags. 3. janúar 2017, þar sem fram kom að kærandi hafi hafið störf þann 11. apríl. Hann hafi hins vegar ekki verið kominn inn í stimpilklukku- eða viðverukerfið og hafi því fengið daginn greiddan síðar. Það komi hins vegar ekki fram í viðverukerfinu og sjáist ekki sérstaklega á launaseðli. Í síðari tölvupóstum frá vinnuveitanda kæranda komi meðal annars fram að um hafi verið að ræða prufuvakt 11. apríl. Þá megi sjá af samskiptum kæranda við vinnuveitanda á tímabilinu 8. til 11. apríl 2016 að ákveðið hafi verið að hann mætti til atvinnuviðtals mánudaginn 11. apríl kl. 14:00.

Að öllu framangreindu virtu hafi það verið mat Fæðingarorlofssjóðs að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hafa unnið launuð störf sem starfsmaður í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli tímabilið 12. til 17. apríl 2016, sbr. 2. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 1. mgr. 13. gr. a. ffl. og 1. mgr. 13. gr. ffl. Þannig hafi ráðningarsamningur kæranda borið með sér að launað starf hans hafi hafist 18. apríl 2016. Það hafi tímaskráning fyrir apríl 2016 einnig gert sem og vottorð vinnuveitanda og tölvupóstur kæranda, dags. 28. október 2016. Þrátt fyrir fullyrðingar kæranda og vinnuveitanda hans um að hann hafi unnið launaða vakt 11. apríl og launað starf kæranda hafi í raun hafist þá, hafi ekki verið hægt að sýna fram á það. Þannig hafi ekki verið séð af skrám Ríkisskattstjóra að kærandi hefði fengið þennan dag greiddan. Það hafi ekki heldur verið ráðið af tímaskráningum eða launaseðlum. Hafi kærandi unnið launalausa prufuvakt 11. apríl í kjölfar þess að hann mætti í atvinnuviðtal kl. 14:00, sem síðar hafi leitt til fastráðningar, telst það ekki til launaðs starfs í skilningi 2. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 1. mgr. 13. gr. a. ffl. og 1. mgr. 13. gr. ffl.

Í málinu hafi kærandi ekki haldið því fram eða lagt fram nein gögn því til staðfestingar að hann hafi verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 2. mgr. 13. gr. a. ffl. tímabilið 12. til 17. apríl [2016] þrátt fyrir að hafa verið leiðbeint um [þann] möguleika. Samkvæmt því hafi ekki verið séð að stafliðir 2. mgr. 13. gr. a. ffl. geti átt við í tilviki kæranda á umræddu tímabili.

Í kæru virðist gæta þess misskilnings að ávinnslutímabil 1. mgr. 13. gr. miðist við áætlaðan fæðingardag en ekki fæðingardag barns eins og skýrt komi fram í ákvæðinu sjálfu.

Með vísan til alls framangreind telji Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki skilyrði til að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. ffl.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 17. nóvember 2017, um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeirri forsendu að hann hafi ekki verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Byrji foreldri í fæðingarorlofi fyrir fæðingardag skal þó miða við þann dag er foreldrið hefur fæðingarorlof. Til þátttöku á innlendum vinnumarkaði telst meðal annars orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og slysatryggingar almannatrygginga eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags, enda hafi foreldrið látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, sbr. 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a. felur þátttaka á innlendum vinnumarkaði í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr. ffl., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. ffl.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. ffl. er starfsmaður í lögum þessum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Fæðingardagur barns kæranda var X 2016 en hafði verið áætlaður X 2016. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldrar rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barns. Heimilt er þó að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag, sbr. 2. mgr. 8. gr. ffl. Fæðingarorlofssjóði ber því að reikna sex mánaða ávinnslutímabil frá fæðingardegi barns nema foreldrar hafi ákveðið að hefja töku orlofs fyrr. Fæðingarorlofssjóður hefur samkvæmt framangreindu ekki lagaheimild til að reikna ávinnslutímabil foreldra út frá öðrum forsendum en að framan greinir. Ávinnslutímabil kæranda var því réttilega miðað við fæðingardag barnsins.

Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu frá 12. til og með 17. apríl 2016 en óumdeilt er að kærandi var á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. á öðrum tíma ávinnslutímabilsins.

Í málinu liggur fyrir ráðningarsamningur, sem undirritaður var 26. júní 2016, þar sem fram kemur að fyrsti dagur kæranda hafi verið 18. apríl 2016. Einnig liggur fyrir tímaskráning kæranda fyrir aprílmánuð þar sem fram kemur að heildarvinnutími hafi verið 41 vinnustund. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir, sbr. 1. mgr. 13. gr. a., og var starfshlutfall kæranda því 23,84% í aprílmánuði. Þetta staðfestir vottorð vinnuveitanda þar sem fram kemur að starfshlutfall kæranda í maí hafi verið 123,84%.

Kærandi byggir á því að hann hafi hafið störf fyrir vinnuveitanda sinn 11. apríl 2016 en það hafi verið prufuvakt. Hann hafi því ekki verið kominn inn í stimpilklukku- eða viðverukerfi á þeim tíma. Þessu til staðfestingar hefur kærandi lagt fram vottorð [...] og endurrit úr vaktaskrá C. Þá hafi launafulltrúi vinnuveitanda staðfest með tölvupósti að kærandi hóf störf 11. apríl en hann hafi fengið þann dag greiddan síðar, án þess að það komi fram í viðverukerfi eða sjáist sérstaklega á launaseðli.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að gera þær kröfur til kæranda að hann sýni með fullnægjandi hætti fram á að hann hafi byrjað störf þann 11. apríl 2016. Framangreindar yfirlýsingar eru að mati nefndarinnar ekki viðhlítandi gögn sem hægt er að byggja á í ljósi þess að önnur gögn málsins eins og ráðningarsamningur, tímaskráning og vottorð vinnuveitanda, sem nefndin telur vera fullnægjandi gögn, bera með sér að hann hafi ekki hafið störf fyrr en 18. apríl 2016 og sýna einungis fram á 23,84% starfshlutfall kæranda í aprílmánuði það ár. Af þeim sökum þykir sýnt að kærandi uppfyllir ekki framangreind skilyrði 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 13. gr. a ffl., sbr. og 2. mgr. 7. gr. laganna, um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði og að minnsta kosti í 25% starfi á því tímabili.

Kærandi telur að það standist ekki meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að synja honum um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði með vísan til þess að fæðingardagur barnsins hafi verið minna en sex mánuðum fyrir tilgreindan ráðningardag í ráðningarsamningi. Í ljósi þess að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs byggði ekki á mati stjórnvaldsins heldur fortakslausum ákvæðum ffl. verður ekki fallist á þessa málsástæðu kæranda.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. nóvember 2016, um synjun á kröfu A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta