Hoppa yfir valmynd
9. október 2018 Utanríkisráðuneytið

Fertugasti árgangur Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifaður

Útskriftarnemar 2018 og kennarar skólans. Ljósmynd: Jarðhitaskólinn - mynd

Í síðustu viku útskrifuðust 24 nemendur úr Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, níu konur og fimmtán karlar, frá fjórtán löndum. Þetta er í fertugasta sinn sem skólinn útskrifar nemendur úr sex mánaða námi á Íslandi, en skólinn hóf starfsemi árið 1979.

Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu lagði ríka áherslu á mikilvægi jarðhitanýtingar fyrir framfarir og betri lífskjör í þróunarríkjum í ávarpi sínu við útskriftina. Hann greindi frá þeirri áherslu sem íslensk stjórnvöld hafa lagt á endurnýjanlega orku þegar kemur að sjálfbærri þróun, en nýting jarðhita er eitt af áherslusviðum íslenskrar þróunarsamvinnu. Þá undirstrikaði hann mikilvægi kynjajafnréttis í þróunarsamvinnu Íslands og samþættingu kynjasjónarmiða í verkefnum á sviði orkumála.

Frá upphafi hafa alls 694 nemendur frá 61 landi útskrifast úr Jarðhitaskólanum. Um 39% nemenda hafa komið frá Afríku og 35% frá Asíu, 14% frá Rómönsku Ameríku, 11% frá Evrópu og 1% frá Eyjaálfu. Þá hafa 158 konur útskrifast frá upphafi eða rúmlega 22%, en undanfarin tíu ár hefur hlutfallið hækkað og verið um 31%.

Á þessu ári hafa þar að auki sextán nemendur stundað meistaranám við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og fjórir nemendur stundað doktorsnám við HÍ á styrk frá Jarðhitaskólanum.

Auk þjálfunar jarðhitasérfræðinga hér á landi hefur skólinn um árabil haldið styttri námskeið í Austur-Afríku, Rómönsku Ameríku og á Karíbahafseyjum þar sem fleiri sérfræðingum gefst færi á þjálfun. Námskeiðin hafa sterka tengingu við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Lykillinn að góðum árangri starfsemi Jarðhitaskólans er sá sterki bakhjarl sem skólinn hefur notið í fjárlögum íslenska ríkisins en skólinn er hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta