Hoppa yfir valmynd
9. maí 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 59/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 59/2018

Miðvikudaginn 9. maí 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. febrúar 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. febrúar 2018 á beiðni kæranda um breytingu á upphafstíma ellilífeyrisgreiðslna til hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn 6. maí 2017 sótti kærandi um greiðslu ellilífeyris. Í umsókninni kom fram að sótt væri um frá 1. júní 2017. Umsókn kæranda var samþykkt með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. júní 2017. Með tölvubréfum 29. og 30. nóvember 2017 óskaði kærandi eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að greiðslurnar til hennar yrðu leiðréttar á þann veg að upphafstími greiðslna ellilífeyris væri frá 1. júlí 2017 í stað 1. júní 2017. Með tölvubréfi 2. febrúar 2018 synjaði stofnunin beiðni kæranda á þeim grundvelli að ósk um breytingu hafi borist of seint.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 27. mars 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. apríl 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að dagsetningin 1. júlí 2017 komi í stað 1. júní 2017 við upphaf töku lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins.

Í kæru segir að í umsókn um töku lífeyris sé bent á að kærandi láti af störfum 31. maí 2017 og að hún eigi eftir að fá uppgjör frá vinnuveitanda. Í júní mánuði hafi komið eingreiðslur frá þremur lífeyrissjóðum sem kærandi hafi ekki vitað að ættu eftir að koma. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir skerðingunni fyrr en hún hafi fengið kröfu 11. ágúst 2017 um að endurgreiða X kr. Hún hafi haft samband við Þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar símleiðis og fengið þau svör að ekkert væri hægt að gera. Í október 2017 hafi hún flutt í B. Hún hafi haft samband við útibú Tryggingastofnunar á C og þar hafi henni verið sagt að svona mál hafi verið leiðrétt.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að í 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um það að sækja skuli um allar bætur og greiðslur samkvæmt almannatryggingalögum. Þó þurfi þeir sem fái greiddan örorkulífeyri ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri samkvæmt 17. gr. þegar þeir ná ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr.

Umsóknir skuli vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti sem stofnunin telji fullnægjandi. Við afgreiðslu umsóknar skuli þess gætt að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir, sbr. 38. gr., svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Sérstaklega skuli þess gætt að umsækjandi, sem áunnið hafi sér rétt hjá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, hafi lagt fram umsókn um áunnin réttindi hjá viðkomandi lífeyrissjóðum og sé Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til upplýsingar um það liggi fyrir, sbr. 41. gr.

Í 17. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að rétt til ellilífeyris öðlist þeir sem náð hafi 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, í að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt sé þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem eigi lengri réttindatíma.

Í 2. mgr. 17. gr. komi fram að heimilt sé að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins, sbr. 2. mgr. 23. gr. Heimildin sé bundin því skilyrði að viðkomandi hafi ekki fengið greiddan ellilífeyri frá almannatryggingum eða skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. þó 4. mgr. Umsækjanda skuli þó vera heimilt að draga umsókn sína til baka innan 30 daga frá afgreiðslu umsóknar án þess að það hafi áhrif á rétt til hækkunar lífeyris. Hafi greiðsla lífeyris átt sér stað sé full endurgreiðsla forsenda afturköllunar.

Kærandi hafi sótt um ellilífeyri samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar með umsókn 6. maí 2017 og hafi kærandi skilað inn tekjuáætlun á sama tíma. Skýrt hafi verið tekið fram á umsókn að sótt væri um frá 1. júní 2017.

Umsóknin hafi verið samþykkt með bréfi Tryggingastofnunar 28. júní 2017 og kærandi notið greiðslna ellilífeyris og tengdra greiðslna frá 1. júní 2017 til 31. desember 2017.

Þann 29. og 30. nóvember 2017 hafi Tryggingastofnun borist tölvupóstar þar sem óskað hafi verið eftir því að ellilífeyristímabil kæranda yrði breytt þannig að í stað þess að það hæfist 1. júní 2017 þá myndi það hefjast 1. júlí 2017.

Með tölvupósti Tryggingastofnunar 2. febrúar 2018 og bréfi Tryggingastofnunar, dags. 20. sama mánaðar, hafi erindinu verið synjað.

Kærandi hafi sótt um ellilífeyri með rafrænni umsókn 5. maí 2017. Í umsókninni hafi verið tekið fram á skýran og greinilegan hátt að kærandi hafi viljað að greiðslur myndu hefjast 1. júní 2017.

Á vefsíðu Tryggingastofnunar standi meðal annars: „Hægt er að draga umsókn um ellilífeyri til baka innan 30 daga eftir að niðurstaða um réttindi hjá TR liggur fyrir. Ef greiðsla hefur átt sér stað þarf að endurgreiða að fullu ef umsókn er dregin til baka.”

Við rafræna umsókn kæranda hafi kærandi þurft að samþykkja skilmála þar sem sambærilegt skilyrði hafi komið fram.

Kærandi hafi óskað eftir því að upphafstíma ellilífeyris hennar yrði breytt með tölvupóstum 29. og 30. nóvember 2017. Þá hafi 30 dagar verið liðnir. Tryggingastofnun hafi því ekki verið heimilt að breyta upphafstíma ellilífeyris kæranda og erindinu hafi því verið synjað.

Rétt sé að taka fram að í kæru komi fram að kærandi hafi haft samband eftir að hún hafi fengið bréf Tryggingastofnunar, dags. 11. ágúst 2017, þar sem henni hafi verið tilkynnt um áætlaða ofgreiðslu. Tryggingastofnun vilji taka það fram að ekki sé hægt að sjá í kerfum stofnunarinnar að kærandi hafi haft samband við stofnunina á þeim tíma. En hafi hún gert það þá hefði það engu máli skipt þar sem að 30 daga fresturinn til afturköllunar umsóknar hafi þá þegar verið liðinn.

Tryggingastofnun hafi skoðað gögn málsins en telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni um synjun á ósk kæranda um afturköllun á umsókn um ellilífeyri. Hún sé í samræmi við þau lög og reglur sem gildi um ellilífeyri og sé einnig í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar í máli nr. 219/2017.

Að lokum sé rétt að taka fram að ekki liggi ennþá fyrir endanlegt uppgjör vegna tekjuársins 2017, en það fari fram þegar að skattframtal kæranda 2018 liggi fyrir. Allar kröfur á hendur kæranda séu áætlaðar þar til að það liggi fyrir.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um breytingu á upphafstíma ellilífeyrisgreiðslna til hennar.

Í 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er fjallað um ellilífeyri. Þar segir í 1. mgr. að rétt til ellilífeyris öðlist þeir sem náð hafi 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi í að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar skal sækja um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögunum. Í 1. málsl. 2. mgr. ákvæðis er kveðið á um að umsóknir skuli vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti sem stofnunin telji fullnægjandi.

Í 2. mgr. 17. gr. laganna er kveðið á um heimild til að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins. Heimildin er bundin því skilyrði að viðkomandi hafi ekki fengið greiddan ellilífeyri frá almannatryggingum eða skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Þá segir í 3. málsl. 2. mgr. 17. gr. að umsækjanda skuli vera heimilt að draga umsókn sína til baka innan 30 daga frá afgreiðslu umsóknar án þess að það hafi áhrif á rétt til hækkunar lífeyris. Hafi greiðsla lífeyris átt sér stað sé full endurgreiðsla forsenda afturköllunar.

Með rafrænni umsókn 6. maí 2017 sótti kærandi um greiðslu ellilífeyris. Í umsókninni kom fram að sótt væri um frá 1. júní 2017. Umsókn kæranda var samþykkt með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. júní 2017. Í bréfinu kemur fram að greiðslur hafi verið samþykktar frá 1. júní 2017. Með tölvubréfum kæranda frá 29. og 30. nóvember 2017 óskaði hún eftir því að greiðslurnar yrðu leiðréttar þannig að upphafstími greiðslna ellilífeyris væri frá 1. júlí 2017 í stað 1. júní 2017. Með tölvubréfi 2. febrúar 2018 synjaði stofnunin beiðni kæranda á þeim grundvelli að ósk um breytingu hafi borist of seint.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að samþykki Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. júní 2017 á umsókn kæranda sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin hefur því bindandi réttaráhrif frá því að hún var tilkynnt kæranda. Henni verður þar af leiðandi ekki breytt nema með nýrri stjórnvaldsákvörðun. Það eru ýmsar leiðir færar til þess að freista þess að fá stjórnvaldsákvörðun breytt, aðili máls getur til að mynda óskað eftir endurupptöku ákvörðunar. Þá er sérstök heimild í 3. málsl. 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar til þess að draga umsókn um ellilífeyri til baka innan 30 daga frá afgreiðslu umsóknar án þess að það hafi áhrif á rétt til hækkunar lífeyris.

Ljóst er að 30 daga frestur til að draga umsókn um ellilífeyri til baka án þess að það hafi áhrif á rétt til hækkunar lífeyris samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar var liðinn þegar kærandi óskaði eftir breytingu á upphafstíma með tölvubréfum frá 29. og 30. nóvember 2017. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á kröfu kæranda um breytingu með vísan til þessa ákvæðis. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur aftur á móti að í fyrrgreindum tölvubréfum felist beiðni um endurupptöku á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. júní 2017. Úrskurðarnefnd telur að hin sérstaka heimild til afturköllunar umsóknar sem kveðið er á um í 2. málsl. 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar takmarki ekki rétt kæranda til að óska eftir endurupptöku.

Af gögnum málsins verður ráðið að Tryggingastofnun ríkisins synjaði beiðni kæranda um breytingu þegar af þeirri ástæðu að skilyrði 3. málsl. 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar væru ekki uppfyllt. Stofnunin hefur því ekki tekið afstöðu til þess hvort tilefni sé til þess að endurupptaka ákvörðun stofnunarinnar frá 28. júní 2017. Bent er á að stofnunin hefur víðtækar heimildir til þess að endurupptaka eigin ákvarðanir. Úrskurðarnefndin telur því rétt að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar til mats á því hvort tilefni sé til þess að endurupptaka ákvörðun stofnunarinnar frá 28. júní 2017.

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. febrúar 2018 um breytingu á upphafstíma ellilífeyrisgreiðslna til kæranda er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni A, um breytingu á upphafstíma ellilífeyrisgreiðslna, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta