Ávarp á málþingi Samtaka félagsmálastjóra
Góðir gestir.
Ég vil byrja á því að flytja ykkur kveðju félagsmálaráðherra sem því miður gat ekki verið með okkur hér í dag vegna embættisverka sem hann þurfti að sinna erlendis.
Það er mér hins vegar sönn ánægja að eiga þess kost að ávarpa ykkur hér í dag á málþingi samtaka félagsmálastjóra þar sem fjalla á um þá auknu áherslu sem hefur verið lögð á nærþjónustu hjá ríki og sveitarfélögum á undanförnum misserum og leita svara við spurningunni ER HEIMA BEST?
Til þess að gera flestum kleift að búa heima og eiga kost á að fá þjónustu eða aðstoð inn á heimili sitt þurfum við öflugt nærþjónustukerfi sem miðar að því að nýta og samþætta þá þjónustu sem er þegar til staðar. Þó er ekki nóg að byggja á fyrirliggjandi þjónustu heldur þarf að setja fram ný markmið til að öflug nærþjónusta verði að veruleika. Það verður ekki gert nema að ríki og sveitarfélög verði sammála um grundvallar áherslur, það er hvaða markmið skuli sett og hvernig skuli staðið að því að koma þeim í framkvæmd. Hér er þá einkum átt við málefni aldraða, félagsþjónustu sveitarfélaga og þjónustu er heyrir undir málaflokk fatlaðra.
Unnið hefur verið að því í ráðuneytinu hvernig skuli staðið að því að sett verði skilvirk markmið um þjónustu er heyrir undir ráðuneytið. Ráðherra kynnti nýlega nýja stefnumótun um þjónustu við fötluð börn og fullorðna til ársins 2016 sem ég kem nánar að hér á eftir. Síðan er upplýsingaöflun um framkvæmd félagsþjónustu sveitarfélaga til gagngerrar athugunar í ráðuneytinu og einnig má greina frá því að nýlega var tekinn í notkun notendagrunnur í málefnum fatlaðra.
Í þessu sambandi langar mig til að segja ykkur frá nefnd með fulltrúum ráðuneyta og Landssambands eldri borgara er forsætisráðherra skipaði til að fjalla um aðbúnað og afkomu ellilífeyrisþega og skilaði tillögum sínum til ráðherra í júlí síðastliðnum.
Ein af tillögum nefndarinnar snýr að því að heimaþjónusta verði stóraukin og áhersla færð frá stofnanaþjónustu. Jafnframt að verulega auknu fjármagni verði varið til framkvæmda og reksturs til átaks vegna biðlista eftir hjúkrunarrými og að aukin áhersla verði lögð á fullnægjandi framboð þjónustu- og öryggisíbúða. Það má greina frá því hér að ríkisstjórnin samþykkti að beita sér fyrir framkvæmd tillagna nefndarinnar.
Í tillögum nefndarinnar er þannig lagt til að félagsmálaráðuneytið fylgi eftir ákvæðum laga um félagsþjónustu sveitarfélaga varðandi framboð á húsnæði sé framfylgt og að sveitarfélögin séu á hverjum tíma með markvissar áætlanir og aðgerðir til að tryggja fullnægjandi framboð íbúða fyrir aldraða. Ætlun okkar er að byrja á því að leita samráðs og samvinnu við þá aðila er málið snertir.
Önnur tillaga nefndarinnar snýr að félagslegri heimaþjónustu og annarri þjónustu, sem sveitarfélögum ber að veita öldruðum samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þjónustan verði stórefld og félagsmálaráðuneytið setji leiðbeinandi reglur um hana þannig að fyrir liggi skýr viðmið um það hvað sé eðlileg þjónusta.
Ráðuneytið er nú með þessa tillögu til skoðunar, til að mynda hvort eigi að setja leiðbeinandi reglur um félagsþjónustu sveitarfélaga er sérstaklega snýr að öldruðum. Þetta gæti til að mynda verið gert með skipun starfshóps er væri falið að semja slíkar leiðbeinandi reglur en ráðuneytið telur að þörf sá á að endurskoða þær grundvallarhugmyndir sem félagslega heimaþjónustan byggir á.
Það er skoðun margra að þörf sé á því að samþætta heimhjúkrun er ríkið rekur og félagslega heimaþjónustu sem sveitafélögin sjá um. Ráðherra þykir einsýnt að skýra þurfi megináherslur þjónustunnar, samþætta hana til að gera hana skilvirkari. Samfélagið okkar er í mikilli þróun og hin almenna velferðarþjónusta þarf að aðlagast þeim breytingum.
Mig langar líka til að fá tækifæri til að segja ykkur frá stefnumótun um þjónustu við fötluð börn og fullorðna til ársins 2016 er ráðherra kynnti nýlega.
Ég vil draga fram þrjú almenn markmið sem stefnudrögin fela í sér:
Fyrir árið 2016 njóti allt fatlað fólk á Íslandi sambærilegra lífskjara og lífsgæða og aðrir þegnar þjóðfélagsins.
Fyrir árið 2016 verði fagleg þekking og færni starfsfólks á við það sem best gerist í Evrópu.
Fyrir árið 2016 verði verklag og gæði þjónustunnar á við það sem best gerist í Evrópu.
Þetta eru háleit markmið og í þeim felst mikil áskorun fyrir okkur öll; stjórnvöld, hagsmunasamtök og síðast en ekki síst einstaklingana sjálfa. En ráðherra er þess fullviss að með sameiginlegu átaki munum við ná þeim í fyllingu tímans.
Á næstunni mun ráðuneytið kynna þessi stefnudrög víða um land meðal sveitarstjórnarmanna, starfsfólks sveitarfélaga, hagsmunasamtaka og annarra þeirra sem málið varðar. Að lokinni þeirri yfirferð er gert ráð fyrir að stefnan verði fullbúin snemma næsta ár.
Í þessum nýju stefnudrögum er lögð áhersla á að fötlun felst ekki einungis í þeirri skerðingu á færni eða sjúkdómi sem einstaklingur kann að búa við. Mikilvægt er að hafa hugfast að fyrir því eru einnig félagslegar ástæður að fólk með skerta færni eigi þess ekki kost að taka fullan þátt í samfélaginu til jafns við aðra.
Hvað varðar fötluð börn 0 til 17 ára og fjölskyldur þeirra leggur ráðuneytið megináherslu á að þjónustan sé sniðin að þörfum notenda hverju sinni samkvæmt mati í kjölfar greiningar. Hún byggi því á heildstæðri, einstaklingsmiðaðri þjónustuáætlun sem sé endurskoðuð reglulega. Með því móti verði sveigjanleiki tryggður sem og réttur barna til að alast upp hjá fjölskyldum sínum. Stuðningur við fjölskyldur miðist enn fremur við að foreldrar geti stundað nám eða gegnt starfi og notið frístunda til jafns við aðra. Ábyrgð á þjónustunni sé samhæfð hjá einum þjónustuaðila í heimabyggð í samráði við fjölskylduna. Það nýmæli er í stefnunni að þegar þroskaröskun barns verður ljós hafi þjónustuaðili frumkvæði að því að gera aðstandendum ljóst hvaða þjónusta og stuðningur þeim býðst.
Í allri stoðþjónustu við þá fatlaða sem eru 18 ára og eldri er lögð áhersla á þá meginreglu að fatlað fólk njóti almennrar félags- og heilbrigðisþjónustu en að jafnframt sé í boði öflug sértæk stoðþjónusta á borð við skammtímavistun, sálfræðilega ráðgjöf og félagsráðgjöf, þroska- og iðjuþjálfun og aðra sérfræðiráðgjöf eða þjálfun ef þörf krefur. Þá verði svonefnd notendastýrð þjónusta þróuð áfram og verði valkostur þegar við á. Kostur sé enn fremur á fjárhagslegum stuðningi til náms og til þess að fólk geti skapað sér sjálfstætt starf. Jafnframt sé í boði liðveisla til heimilishalds og frístunda og fjölbreytileg ferðaþjónusta í því skyni að stuðla að sem sjálfstæðastri búsetu og innihaldsríku lífi.
Hvað búsetu áhrærir er áhersla lögð á þá meginreglu að fatlað fólk velji sjálft búsetuhætti sína og að þeir séu hliðstæðir því sem almennt gerist. Stuðningur til búsetu sé þannig sniðinn að einstaklingsbundnum þörfum íbúans með hliðsjón af óskum hans og/eða aðstandenda hans. Hvatt sé til eins sjálfstæðs heimilishalds og kostur er. Húsnæðið sé almenn eignar- eða leiguíbúð eða sérstök þjónustuíbúð í almennu íbúðahverfi. Sé íbúðarhúsnæði með sameiginlegu rými eigi hver íbúi þess kost að halda sjálfstætt heimili með nægilegu einkarými. Sé húsnæði ætlað fleirum en einum eigi íbúar val um sambýlisfólk.
Ágætu málþingsgestir.
Ég hef hér í stuttu máli kynnt helstu grundvallaratriði í nýjum stefnudrögum félagsmálaráðuneytisins í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna næsta áratuginn sem og greint frá áherslum ráðuneytisins varðandi félagslega heimaþjónustu.
Ráðuneytið er nú með til skoðunar hvernig megi samþætta þá nærþjónustu sem heyrir undir ráðuneytið ennfrekar, í því felst hugsanlegur flutningur verkefna til sveitarfélaga. Jafnframt því hvernig megi samþætta þjónustuna við þá þjónustu er heyrir undir önnur ráðuneyti. Ætlun okkar er að byrja á því að leita samráðs og samvinnu við þá aðila sem málið snertir og að sjálfsögðu þar með talda fulltrúa Samtaka félagsmálastjóra.
Ég þakka ykkur fyrir að fá tækifæri til að koma hér og ávarpa málþingið og óska ykkur ánægjulegs þings.
(Björg Kjartansdóttir, deildarsérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, flutti erindið í fjarveru ráðherra).