Skipan starfshóps um leiðir til að sporna við ólögmætri búsetu í atvinnuhúsnæði
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hefur skipað starfshóp sem gera á tillögur um leiðir til að sporna við ólögmætri búsetu í atvinnuhúsnæði.
Í starfshópnum eiga sæti Ellý K. Guðmundsdóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, Björn Karlsson brunamálastjóri og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, sem verður formaður starfshópsins.
Hlutverk starfshópsins er að safna upplýsingum um umfang ólögmætrar búsetu í atvinnuhúsnæði, kanna hvort ákvæði laga veiti stjórnvöldum nægilegar heimildir til að hafa eftirlit með slíkri búsetu og meta, í samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld, hvort úrræði þeirra séu nægileg til að bregðast við þegar þess er þörf. Sérstök áhersla skal lögð á að afla upplýsinga um hvort algengt sé að fólk búi við ófullnægjandi eða hættulegar húsnæðisaðstæður og gera tillögur til úrbóta.
Starfshópurinn skal skila tillögum til félagsmálaráðherra um nauðsynlegar aðgerðir og hugsanlegar laga- eða reglugerðarbreytingar fyrir lok janúarmánaðar 2007.