Hoppa yfir valmynd
14. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Grænbók ESB um vinnulöggjöf

Grænbók ESB um vinnulöggjöfFramkvæmdastjórn ESB hefur sent frá sér grænbók um vinnulöggjöf. Markmiðið með grænbókinni er að hefja umræður með aðildarríkjum ESB og öðrum sem málið varðar um ágæti núgildandi löggjafar ESB á þessu sviði og frekari þörf fyrir breytingar á henni, meðal annars með hliðsjón af almennri þróun vinnumarkaðar í Evrópu síðustu árin.

Bent er á að ýmis ný ráðningarform hafi rutt sér til rúms á síðari árum, meðal annars sem afleiðing af tækniþróun og alþjóðavæðingu. Athuganir hafa leitt í ljós að um 25% launþega vinna á grundvelli tímabundinna ráðningarsamninga, eru í hlutastörfum, ráða sig sem verktakar (freelance contracts) eða í gegnum starfsmannaleigur. Jafnframt eykst bilið á milli þeirra sem eru í föstum störfum og þeirra sem eru í ótryggri eða tímabundinni vinnu eða í atvinnuleit.

Í tilefni af útgáfu grænbókarinnar sagði framkvæmdastjóri ESB á sviði vinnu og félagsmála, Vladimir Spidla:

„These more flexible arrangements are vital to confronting the effects of globalisation and demographic ageing in our labour markets. At the same time, it is essential that workers do not lose out in this process and that their call for greater security is heard. We want an open debate on how labour law could be adapted both at EU and national levels to reflect the new reality of work in Europe."

Í þessum orðum endurspeglast áherslan á hið svokallaða „Flexicurity", sem hefur verið einkunnarorð ESB á sviði félags- og vinnumála síðustu misserin. „Flexicurity" felur í sér markmið um annars vegar aukinn sveigjanleika á evrópskum vinnumarkaði þannig að samkeppnishæfni hans aukist, hins vegar markmið um að tryggja að jafnframt sé félagslegt öryggisnet til fyrir einstaklinga sem á þurfa að halda. Oft er í umræðunni vísað til jákvæðrar reynslu Norðurlandaþjóða hvað þetta jafnvægi varðar.

Nánar um grænbókina

Til að greiða fyrir för launþega og skapa samræmdar reglur á sviði vinnumála hefur Evrópusambandið í gegnum tíðina lögleitt fjölda gerða er varða réttindi og skyldur launþega og atvinnurekenda. Allar þessar gerðir hafa verið teknar upp í EES samninginn og þar af leiðandi innleiddar í íslensk lög. Grænbókin er fyrsta skref framkvæmdastjórnarinnar í því að skoða hvort og hvernig umrædda löggjöf beri að þróa í takt við breyttar aðstæður í Evrópu, nýja tækni og þróun mála í alþjóðaviðskipum. Grænbókin beinir 14 spurningum til aðildarríkjanna og aðila vinnumarkaðarins sem allar snúa að þeirri grundvallarspurningu hvernig hægt sé að auka sveigjanleika á vinnumarkaði um leið og félagslegt öryggi er aukið.

Fjórtón spurningar eru settar fram um þessi mál. Annars vegar varða þær sveigjanleika og félagslegt öryggi á vinnumarkaði, hins vegar eru settar fram spurningar er snúa beint að núgildandi vinnulöggjöf ESB.

Spurningar er varða sveigjanlegan vinnumarkað og félagslegt öryggi

1. Hvaða breytingar eru mikilvægastar á vinnulöggjöf ESB?

2. Geta breytingar á vinnulöggjöf annars vegar og kjarasamningum hins vegar leitt til aukins sveigjanleika og félagslegs öryggis um leið og dregið er úr aðskilnaði hópa á vinnumarkaði?

3. Geta gildandi reglur haft hindrandi eða örvandi áhrif, hvort sem um er að ræða löggjöf eða kjarasamninga, á að fyrirtæki nýti sér tækifæri til að auka framleiðni og tileinka sér nýja tækni eða aðlaga sig breytingum sem alþjóðavæðingin hefur í för með sér?

4. Hvernig er hægt, með lögum eða samningum, að tryggja frekar að varanlegar eða tímabundnar ráðningar auki sveigjanleika á vinnumarkaði um leið og fullnægjandi atvinnu- og félagslegt öryggisnet er tryggt?

Spurningar er varða endurskoðun á vinnulöggjöf ESB

5. Væri gagnlegt að tefla saman mjög sveigjanlegri löggjöf um vinnumarkað annars vegar og markvissri aðstoð við atvinnulausa hins vegar?

6. Hvaða hlutverki gætu lög eða samningar milli aðila vinnumarkaðarins gegnt í því að skapa jákvæðar aðstæður fyrir fólk sem tekst á við breytingar á vinnumarkaði?

7. Er þörf á að skilgreina betur hvað felst í því að vera annars vegar launamaður og hins vegar sjálfstætt starfandi meðal annars til að skýra skilin þarna á milli?

8. Væri þörf á samræmdum lágmarksreglum er varða réttindi á vinnumarkaði sem giltu fyrir öll möguleg ráðningarform? Hvaða áhrif hefðu slíkar lágmarksreglur á atvinnusköpun og félagslegt öryggi?

9. Er óljóst hvar ábyrgð liggur gagnvart réttindum launþega þegar um er að ræða margbreytileg ráðningarform? Getur einhvers konar framseld ábyrgð komið til greina þegar um er að ræða undirverktöku eða starfsmannaleigu? Ef ekki, koma aðrar leiðir til greina svo tryggja megi réttindi starfsmanna í slíku umhverfi?

10. Er þörf á því að skýra stöðu, réttindi og skyldur starfsmanna hjá starfsmannaleigum?

11. Hvernig væri hægt að þróa frekar lágmarksákvæði um vinnutíma þannig að þau stuðluðu sem best að sveigjanleika bæði fyrir vinnuveitendur og launafólk án þess að það komi niður á öryggi og hollustuháttum á vinnustöðum? Hvaða efnisatriði ætti framkvæmdastjórnin að skoða sérstaklega í því sambandi?

12. Hvernig er hægt að tryggja sem best réttindi starfsmanna sem starfa í fjölþjóðlegu evrópsku samhengi? Er þörf á að samræma betur skilning á orðinu „launþegi" í reglum ESB hvað slíka starfsmenn varðar þannig að þeir geti notið réttinda sem launaðir starfsmenn óháð því hvar þeir vinna á EES svæðinu? Eða er það komið undir hverju ríki fyrir sig að skilgreina?

13. Er þörf á að auka samstarf milli stjórnvalda til að auka virkni sameiginlegra reglna sem ESB hefur sett á sviði vinnumála? Hvert ætti að vera hlutverk aðila vinnumarkaðarins í slíku samstarfi?

14. Er nauðsynlegt að hrinda í framkvæmd sameiginlegum aðgerðum af hálfu ESB til að styðja aðildarríkin í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi?

Nánari bakgrunnsupplýsingar er að finna í grænbókinni fyrir hverja spurningu fyrir sig.

Frestur til að senda inn athugasemdir við grænbók framkvæmdastjórnarinnar og eftir atvikum svara ofangreindum spurningum er til 31. mars 2007.

Nánari upplýsingar:



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta