740/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018
Úrskurður
Hinn 6. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 740/2018 í máli ÚNU 18040004.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 10. apríl 2018, fór A þess á leit að úrskurðarnefnd um upplýsingamál endurskoðaði úrskurð sinn nr. 734/2018 í máli ÚNU 17080002 sem kveðinn var upp þann 6. apríl 2018. Verður beiðni kæranda skilin á þann veg að hann óski endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar var fjallað um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja kæranda um aðgang að minnisblaði frá borgarlögmanni um tiltekna fasteign. Komist var að þeirri niðurstöðu að borginni hafi verið heimilt að synja beiðninni með vísan til þess að minnisblaðið væri vinnugagn skv. 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga nr. 140/2012.
Í beiðni kæranda er vikið að niðurlagi úrskurðarins þar sem því var beint til Reykjavíkurborgar að gæta að því að taka afstöðu til réttar beiðanda til aukins aðgangs í framtíðinni, sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga. Kærandi segir þetta ekki verða skilið öðruvísi en að úrskurðarnefndin hafi metið það svo að Reykjavíkurborg hafi brotið upplýsingalög með ákvörðun sinni. Þrátt fyrir að lög hafi verið brotin við töku ákvörðunarinnar sé hún engu að síður staðfest í úrskurðarorði.
Niðurstaða
1.
Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo: „Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:
1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“
2.
Í 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga er að finna þá málsmeðferðarreglu að taka skuli sérstaka og rökstudda afstöðu til réttar beiðanda til aukins aðgangs að umbeðnum gögnum. Eins og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 734/2018 liggur fyrir að Reykjavíkurborg fór ekki eftir þessari reglu við töku ákvörðunar um beiðni kæranda um aðgang að minnisblaði borgarlögmanns. Beiðni kæranda er reist á því að þessi annmarki á hinni kærðu ákvörðun eigi að leiða til þess að hún teljist ógildanleg.Í stjórnsýslurétti er almennt gengið út frá því að það sé ekki sjálfgefið að ákvörðun teljist ógild enda þó málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar. Til þess að svo sé verður brotið að fela í sér annmarka á meðferð málsins og annmarkinn verður enn fremur að teljast verulegur. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í framkvæmd litið svo á að sá annmarki, að taka ekki sérstaka, rökstudda afstöðu til réttar beiðanda til aukins aðgangs, feli ekki í sér verulegan annmarka í þessum skilningi. Úrskurðarnefndin telur almennt fært að líta svo á að þegar ekki er vikið sérstaklega að auknum aðgangi í ákvörðun felist í því að kærði hafi ákveðið að veita beiðanda ekki slíkan aðgang. Með þessu er ekki dregið úr mikilvægi þess að fylgja ákvæðinu við meðferð beiðna um aðgang að upplýsingum, enda var skyldan sérstaklega áréttuð í úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Eins og atvikum málsins er háttað telur nefndin hins vegar ekki hafa verið til staðar ástæður til frekari aðgerða af hálfu nefndarinnar en þeirrar að finna að málsmeðferð Reykjavíkurborgar.
Samkvæmt framangreindu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að ekki séu skilyrði til endurupptöku máls sem lauk með úrskurði nr. 734/2018, sem kveðinn var upp þann 6. apríl 2018. Jafnframt er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til að afturkalla úrskurðinn að frumkvæði nefndarinnar, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga.
Úrskurðarorð:
Beiðni A um endurupptöku máls sem lauk með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 734/2018 í máli nr. ÚNU 17080002 frá 6. apríl 2018 er hafnað.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson