Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 188/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 26. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 188/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19020075

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. febrúar 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. febrúar 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 3. maí 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 22. janúar 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 14. febrúar 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 26. febrúar 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 13. mars 2019. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 4. apríl 2019 ásamt talsmanni sínum og túlki. Þann 5. apríl 2019 barst kærunefnd viðbótargreinargerð ásamt fylgigögnum og þann 16. apríl 2019 bárust kærunefnd frekari gögn.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki vegna manns sem vilji giftast kærustu kæranda og hafi hann tengsl við valdamikla einstaklinga í heimaríki kæranda.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í […]. […]. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi kynnst stúlku, að nafni […], í júní 2017 og að þau hafi þróað með sér ástarsamband. Þau hafi ekki verið mikið saman á almannafæri en kærandi hafi t.a.m. haldið upp á afmæli stúlkunnar í lokuðum sal á fámennum veitingastað. Í ágúst 2017 hafi kærandi beðið fjölskyldu […] um hönd hennar og hafi fjölskyldan óskað eftir tíma til að hugsa málið. Í kjölfarið hafi frændi […], […] að nafni, hringt í kæranda og sagt að kærandi megi ekki kvænast stúlkunni. Þegar kærandi hafi sagt […] frá símtalinu hafi hún sagt að […] hafi sjálfur viljað kvænast henni, en að hún vilji það ekki. Þar sem faðir […] sé látin og hún eigi enga bræður þá skipti álit […] miklu máli. Þann 10. október 2017 hafi […] komið á heimili […] og […]. Í framhaldinu hafi […] þurft að undirgangast aðgerðir og hafi kærandi stutt hana í gegnum þær. Frásögn sinni til stuðnings hefur kærandi lagt fram staðfestingu frá lækni auk mynda af áverkum […]. Stuttu eftir […] hafi […] skotið að húsi kæranda og síðar sama dag hafi […] hringt í kæranda og hótaði honum lífláti. Í kjölfarið hafi kærandi lagt fram kæru á hendur […] hjá lögreglunni en það hafi ekki orðið til neins þar sem […] njóti stuðnings háttsettra manna í […] og […] sem séu valdameiri heldur en almenn lögregla í […]. Frásögn sinni til stuðnings hefur kærandi lagt fram myndir af […] með mönnum í valdastöðum í […], t.a.m. með manni að nafni […] en hann sé bróðir […] sem sé yfirmaður sérsveita í […]. Kærandi hafi einnig lagt fram myndir af […] og manni sem nefnist […] og sé yfirmaður […] á svæðinu. Þá starfi […] fyrir háttsetta einstaklinga innan […] flokksins, hann taki þátt í átökum fyrir þá og taki fólk jafnvel af lífi. Skömmu eftir skotárásina hafi […] í annað sinn skotið að húsi kæranda og á svipuðum tíma hafi […] hringt í þriðja sinn í kæranda og hótað honum lífláti. Nokkru síðar eða í kringum 17. eða 18. mars 2018, hafi kærandi og […] farið út saman en eftir að […] hafi verið komin heim hafi […] hringt í hana og hótað kæranda lífláti. Í kjölfarið hafi kærandi flúið til […] til ættingja föður síns og hafi hann dvalið þar í um 15 daga. Á þeim tíma hafi […] haft samband við kæranda og sagt að […] hafi komið heim til hennar og beitt hana líkamlegu ofbeldi og pyndingum auk þess sem hann hafi þvingað hana til að segja sér hvar kærandi hafi verið niður kominn. Í kjölfarið hafi kærandi flúið […] og hafi þetta verið í síðasta skipti sem kærandi hafi talað við […] en samfélagsmiðlar hennar og símanúmer virðist nú lokuð. Ættingjar kæranda í […] hafi sagt kæranda að […] hafi komið þangað í leit að kæranda.

Kærandi kveðst óttast […] og hið valdamikla fólk sem tengist honum. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis muni hann verða tekinn af lífi, en kærandi kveður sig ekki vera öruggan innan yfirráðasvæðis […] enda hafi […] tengslanet til að hafa uppi á kæranda í […]. Kærandi geti ekki dvalið öruggur á yfirráðasvæði […] enda muni yfirvöld þar framselja kæranda til […]. Kærandi geti ekki leitað verndar annarra einstaklinga enda ráði […] og […] lögum og lofum í […]. Kærandi hefur lagt fram skilaboð, þ. á m. hljóðupptökur, sem honum hafi borist frá […] í gegnum samfélagsmiðla, Facebook og Instagram, allt til dagsins í dag. Um sé að ræða líflátshótanir og niðrandi ummæli […] í garð kæranda. Kærandi kveður föður sinn hafa tvívegis séð […] og hans fólk fylgjast með heimili kæranda eftir að kærandi hafi flúið […]. Eftir birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar hefur kærandi aflað enn frekari gagna. Systir kæranda hafi farið heim til […] og athugað með hana þótt það hafi lagt fjölskyldu kæranda í gríðarlega hættu. Systir kæranda hafi tekið mynd af persónuskilríkjum hennar. Þá hafi bróðir kæranda sent myndbandsupptöku úr öryggismyndavél fyrir utan heimili hans þar sem þrír vopnaðir menn, einn þeirra […], sitji fyrir og ráðist að bróður kæranda.

Í greinargerð er fjallað almennt um stöðu mannréttindamála í […]. Þá er fjallað um aðstæður á yfirráðasvæði […] í […] og heldur kærandi því fram að heimildir beri með sér að […] yfirvöld hafi möguleika á því að veita skilvirkt öryggi á þeim svæðum sem þau stjórni en að sama skapi geti yfirvöld einnig gengið mjög hart fram um að neita fólki um vernd. Hvort yfirvöld […] veiti vernd fari eftir því hver það sé sem standi að ofsóknum, yfirvöld veiti t.a.m. ekki vernd hafi einstaklingur átt í deilum við […] stjórnmálamann. Þá er einnig fjallað um heiðursmorð á yfirráðasvæði […] og heldur kærandi því fram að heiðurstengt ofbeldi hafi aukist töluvert á meðal […] á undanförnum árum. Heiðurstengt ofbeldi gegn karlmönnum sé viðkvæmt og því sé sérstaklega erfitt að finna heimildir um það, en karlmenn eigi jafnt á við konur hættu á að vera þolendur heiðurstengds ofbeldis. Kærandi bendir á að karlmenn séu oft beittir ofbeldi í því skyni að endurvekja heiður fjölskyldu og litla eða enga aðstoð sé að finna í […] fyrir karlkyns þolendur heiðurstengds ofbeldis. Kærandi vísar til skýrslna máli sínu til stuðnings.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir þar sem hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi tilheyri hópi einstaklinga sem hafi, eða séu taldir hafa, tekið þátt í athæfi sem sé fordæmt af samfélaginu og verði ekki tekið til baka. Kærandi óttist heiðursmorð vegna ástarsambands sem hann hafi átt við stúlku utan hjúskapar. Með tilliti til þess að frændi stúlkunnar njóti stuðnings háttsettra manna í […] séu meiri líkur á því að kærandi eigi á hættu slíkt ofbeldi og að lögreglan muni ekki veita honum vernd. Kærandi hafi greint frá alvarlegum hótunum sem kæranda hafi borist símleiðis sem og í skilaboðum. Þá hafi […] skotið að heimili kæranda í tvígang. […] hafi jafnframt […] stúlkuna sem og beitt hana líkamlegu og andlegu ofbeldi. Þá hafi hann nýlega ráðist á bróður kæranda fyrir utan heimili hans og ógnað honum með skotvopnum. Í ljósi þess hafi kærandi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hendi […] og aðila tengdum honum og sé kærandi viss um að hann verði myrtur verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Um þá sem séu valdir að ofsóknunum vísar kærandi til a- og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og þess að einstaklingurinn sem hann óttist tengist valdamiklum einstaklingum í […]. Þá séu engin úrræði í boði fyrir karlkyns þolendur heiðurtengds ofbeldis af hálfu stjórnvalda þar í landi.

Til vara kveðst kærandi uppfylla skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Með vísan til framangreinds telji kærandi ljóst að raunhæf ástæða sé til að ætlast að hann eigi á hættu pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. […]. Kærandi telji að með endursendingu hans til […] yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, vísar kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu þar sem m.a. komi fram að grundvöllur mannúðardvalarleyfis geti verið alvarlegar aðstæður í heimaríki, s.s. viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá geti útlendingur einnig þurft á vernd að halda vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Vísar kærandi í þessu sambandi til aðstæðna í heimaríki sínu svo og persónulegra aðstæðna sinna, en kærandi standi frammi fyrir útskúfun vegna ágreinings síns og heiðursdeilu við […] sem hafi sterk tengsl við háttsetta einstaklinga innan […]. Kærandi hafi því ekki möguleika á að leita verndar stjórnvalda gegn […].

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar, heimildarvinnu stofnunarinnar sem og hvernig skýrslur séu túlkaðar. Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að framburður kæranda fái ekki fullnægjandi stoð í gögnum málsins þrátt fyrir að kærandi hafi lagt fram fjöldann allan af gögnum. Samkvæmt handbók um réttarstöðu flóttamanna beri, í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem kærandi sé í, og hversu erfitt geti reynst að leggja fram sannanir, að gera minni kröfur til sönnunarfærslu en ella. Þá kemur einnig fram að illmögulegt sé fyrir flóttamenn að sanna öll atriði máls síns, og því þurfi oft að láta umsækjandann njóta vafans. Kærandi mótmælir mati Útlendingastofnunar um að frásögn hans sé ótrúverðug og vísar í einstaka hluta frásagnar sinnar með skýringum máli sínu til stuðnings.

Þann 5. apríl 2019 skilaði kærandi inn viðbótargreinargerð í kjölfar viðtals hjá kærunefnd útlendingamála sem fór fram þann 4. apríl 2019. Þar bendir kærandi í fyrsta lagi á að mjög algengt sé að ungar konur liti á sér hárið í […] sem og annarsstaðar í heiminum. Kærandi vilji taka fram að […] hafi sett strípur í hárið og því sé ekki nákvæmt að segja að liturinn sé vaxinn úr við töku myndanna og megi sjá rót. Rótina megi vel sjá strax eftir litun þar sem einungis hafi verið um strípur að ræða. Kærandi telji ekki óeðlilegt að á tveimur myndum í sama mánuði hafi […] verið með mismunandi hárlit, en hún kunni betur við svarta hárlitinn og litaði hárið því aftur svart eftir að hafa verið með strípur í einhvern tíma. Í viðtali kæranda hjá kærunefnd hafi kærandi misskilið spurningu nefndarinnar um það hvort hann hafi verið búinn að skipuleggja ferð til Evrópu. En kærandi hafi haldið að kærunefnd hafi verið að spyrja hvort þau […] hafi verið að skipuleggja ferð til Evrópu vegna vandamála sinna. Kærandi svaraði spurningunni neitandi þar sem á þessum tíma hafi hann ekki verið búinn að ákveða að flýja […]. Kærandi hafi verið þriðja árs laganemi og hafi hann hugsað sér að afla sér frekari menntunar í Hollandi eða Póllandi. Kærandi hafi ætlað sér að fara til Hollands og kanna aðstæður þar áður en hann myndi taka ákvörðun, en af þeirri ástæðu hafi hann sótt um ferðaskilríki til Hollands þann 24. ágúst 2017 í gegnum fyrirtæki föður síns. Kærandi var einnig spurður í viðtali út í fyrirtæki er nefnist […] og kvaðst kærandi ekkert kannast við það nafn. Eftir viðtalið hafi kærandi kannað málið og komist að því að um sé að ræða fyrirtæki staðsett í Hollandi sem fyrirtæki föður hans hafi notað til að auðvelda umsókn kæranda um ferðaheimild.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til. AuðkenniÍ ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til að sanna á sér deili. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri og því yrði leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari […]. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé […] ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[…]

Ráða má af framangreindum gögnum að spilling sé mikið vandamál í […], þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi […] stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. […].

[…]

Í skýrslu dönsku útlendingastofnunar frá árinu 2018 kemur fram að samskipti á milli ógiftra einstaklinga af gagnstæðu kyni sé almennt óviðunandi í […] menningu. Þá sé það á allra vitorði þ. á m. á vitorði unga fólksins í […] að mikil áhætta felist í því að fara á stefnumót á almannafæri. Þær fjölskyldur sem samanstanda af menntuðum einstaklingum séu þó frjálslyndari og séu dæmi um að meðlimir slíkra fjölskyldna fái sjálfir að velja tilvonandi maka sinn. Dæmi séu um að ung pör sem hafi umgengist utan hjónabands hafi komist upp með það svo lengi sem hjónaband sé í vændum. Einstaklingar sem búa á þéttbýlum svæðum í […] séu mun umburðarlyndari fyrir evrópskum áhrifum hvað samskipti kynjanna varðar heldur en fólk af dreifbýlissvæðum.

Í framangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að heiðurstengt ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í menningu […]. Heiðursmorð sé yfirleitt morð á kvenkyns ættingja sem framið sé í því skyni að endurheimta heiður fjölskyldunnar þar sem þolandinn hafi á einhvern hátt vanvirt fjölskylduna. […] tilheyri mismunandi ættbálkum og lifi eftir fornum ættbálkasiðum, venjum og lögum, en hefðbundin fjölskyldugildi séu rótgróin í menningunni. Séu konur í miklum meirihluta þeirra sem verði þolendur heiðursglæpa og þá yfirleitt fyrir að hafa, að mati fjölskyldna þeirra, fært skömm yfir fjölskylduna með einhverjum hætti. Einnig séu heimildir um að karlmenn eigi á hættu að verða þolendur heiðursglæpa en ástæður fyrir því séu einkum þegar karlmenn neiti að ganga í skipulagðan hjúskap, séu opinberlega samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir eða neiti að taka þátt í heiðurstengdu ofbeldi gegn öðrum. Í skýrslu dönsku útlendingastofnunarinnar frá nóvember 2018 segir m.a. að karlmenn sem eigi í samböndum utan hjúskapar séu ekki taldir smána heiður fjölskyldunnar og að karlmenn í slíkum aðstæðum eigi oft auðvelt með að komast hjá deilum. Hins vegar séu karlmenn undir þrýstingi um að giftast og dæmi séu um að menn hafi verið drepnir. Þá segir að þegar karlmaður sé myrtur í heiðursdeilu eigi það frekar rætur að rekja til hefndar eða blóðhefndar en heiðurs fjölskyldunnar. Í slíkum málum séu báðar fjölskyldurnar vanalega samþykkar morðinu. Í gögnunum kemur fram að heiðursglæpir séu algengari á dreifbýlli svæðum en í stærri borgum í […]. Árið […] hafi […] yfirvöld breytt […] hegningarlögum á þann veg að heiðursmorð séu skilgreind sem manndráp og gerendur því saksóttir á þeim grundvelli. Þá hafi verið samþykkt lög árið […] sem banni mildun refsinga fyrir heiðursglæpi. Hins vegar séu heimildir um að […] stjórnvöld hafi látið hjá líða að saksækja gerendur ofbeldisglæpa gegn konum, þar á meðal heiðursglæpa.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann óttist heiðursmorð vegna ástarsambands sem hann hafi átt við stúlku að nafni […] utan hjúskapar. Kærandi hafi ætlað að giftast […] en frændi hennar að nafni […] hafi verið mótfallinn hjónabandinu. […] njóti stuðnings háttsettra manna í […] og hafi hótað kæranda símleiðis sem og með skilaboðum jafnframt sem hann hafi skotið að heimili kæranda í tvígang. Þá hafi […] sem og beitt hana líkamlegu og andlegu ofbeldi. Eftir að kærandi flúði heimaríki hafi […] ráðist á bróður kæranda fyrir utan heimili hans og ógnað honum með skotvopnum. Kærandi kveðst ekki getað leitað til lögreglu vegna tengsla […] við háttsetta einstaklinga í […]. Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á viðtali við kæranda hjá kærunefnd, endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Í viðtali hjá kærunefnd, þann 4. apríl 2019, var kærandi spurður um það hvenær hann og […] hefðu hist fyrst og þá hvar. Kærandi kvaðst hafa kynnst […] þann 7. júní 2017 í verslunarmiðstöð. Kvað kærandi að þau hafi verið í símasambandi um tvisvar sinnum í viku og að þau hafi hist tvö á kaffihúsi, veitingastöðum og keyrt um í bifreið. Aðspurður hvort kærandi hefði ekki haft áhyggjur af heiðri […] og fjölskyldu hennar með því að hitta hana opinberlega á kaffihúsum og veitingastöðum svaraði kærandi að samband þeirra hafi verið eðlilegt þar sem hún hafi stundað nám í háskóla og eigi því karlkyns vini. Þá hafi samband þeirra verið í samræmi við að þau hafi haft í hyggju að ganga í hjónaband. Aðspurður hvort fjölskyldur þeirra […] hefðu vitað af sambandi þeirra kvað kærandi svo vera og að einungis þessi eini frændi […], […], hafi verið mótfallinn sambandinu.

Til stuðnings framburði sínum lagði kærandi fram myndir af konu sem hann kveður vera […] og hafa verið teknar í kjölfar þess að umræddur […] réðst á hana […]. Myndirnar eru af konu sem sýnir líkama sem er að hluta án klæða og virðist hafa orðið fyrir […]. Aðspurður um hvenær […] hefði orðið fyrir […] svaraði kærandi að það hafi verið 10. október 2017. Aðspurður um hver hefði tekið myndirnar sem hann lagði fram svaraði kærandi því að hann hafi tekið myndirnar á farsíma sínum. Aðspurður hvort fjölskylda […] hefði verið mótfallin því að kærandi, sem ekki var kvæntur […], hefði verið inni á læknastofunni með […] þar sem hún var að hluta til án klæða svaraði kærandi að fjölskylda […] hafi ekki verið viðstödd en móðir […] hafi líkað vel við kæranda.

Eins og að framan hefur verið rakið benda skýrslur til þess að samskipti á milli ógiftra einstaklinga af gagnstæðu kyni séu almennt óviðunandi í […] menningu. Að þessu leyti er frásögn kæranda af því að hann hafi verið opinberlega í sambandi með umræddri konu og hafi fengið að taka myndir af henni fáklæddri ekki í samræmi við skýrslur um aðstæður hans í heimaríki. Þá byggir frásögn kæranda á því að hann hafi í kjölfar opinbers sambands við umrædda konu viljað giftast henni en eigi nú á hættu ofsóknir af hálfu tiltekins fjölskyldumeðlims hennar sem vilji koma í veg fyrir að þau gangi í hjúskap. Þessi frásögn er ekki í samræmi við skýrslur um heiðurstengt ofbeldi í […] sem benda til þess að karlmenn sem eigi í samböndum utan hjúskapar séu, ólíkt konum, almennt ekki taldir smána heiður fjölskyldunnar en verði fyrir þrýstingi um að giftast í kjölfar slíkra sambanda.

Samkvæmt framansögðu er það því mat kærunefndar að gögn um aðstæður í heimaríki kæranda dragi nokkuð úr trúverðugleika frásagnar kæranda og leiði til þess að framburður hans einn og sér verður ekki lagður til grundvallar við úrlausn málsins.

Til stuðnings málsástæðum sínum hefur kærandi jafnframt lagt fram nokkuð magn af gögnum.

Í fylgigögnum sem bárust kærunefndinni ásamt greinargerð kæranda eru myndir af útidyrahurð og þaki á húsi sem hafi orðið fyrir skotárás. Í viðtali hjá kærunefnd greindi kærandi frá því að fyrrnefndur […] hafi tvívegis skotið á hús kæranda og að myndirnar séu af slíkri árás. Af myndunum er ekki unnt að staðfesta að um hús kæranda sé að ræða og hafa þær því að mati kærunefndar takmarkað gildi við úrlausn máls kæranda.

Kærandi hefur jafnframt lagt fram skjáskot sem hann kveður vera hótanir sem honum hafi borist á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram frá einstaklingi sem kallar sig […]. Skjáskotin bera með sér að kæranda hafi fyrst verið hótað af umræddum […] í gegnum Instagram þann 19. desember 2018. Samkvæmt rannsókn kærunefndar á umræddum Instagram aðgangi var fyrsta myndin birt á aðganginum þann sama dag, þ.e. 19. desember 2018. Í viðtali hjá kærunefnd kvað kærandi að […] hlyti að hafa búið til aðganginn í þeim tilgangi að senda kæranda hótanir. Þar sem reikningar á samfélagsmiðlum eru upplýsingar sem auðvelt er að búa til og breyta er það mat kærunefnda að slíkar upplýsingar séu ekki vel til þess fallnar að sýna fram á tengsl aðila nema önnur gögn, m.a. ljósmyndir, styðji við þau tengsl. Kærandi lagði einnig fram myndir af manni sem hann kveður að sé […] með mönnum sem kærandi kveður vera valdamikla í […]. Að mati kærunefndar veður ekki talið að þær myndir styðja við upplýsingarnar á samfélagsmiðlum á þann hátt að kæranda hafi tekist að sýna fram á með framlögðum gögnum tengsl sín við […] eða tengsl […] við […].

Frásögn sinni til stuðnings lagði kærandi jafnframt fram læknisvottorð, dags. 27. október 2018, útgefið af Dr. […] þar sem fram kemur að […] hafi lent í alvarlegri […]. […] hafi þurft að undirgangast fjölda lýtaaðgerða og muni hún þurfa að undirgangast fleiri. Aðspurður hvernig kærandi hafi komist yfir umrætt læknisvottorð svaraði kærandi að eldri bróðir hans sem búi í […] hafi aflað vottorðsins hjá lækninum. Aðspurður hvort […] hafi aðstoðað bróður kæranda við að afla gagnsins svaraði kærandi því neitandi. Þann 5. apríl 2019 sendi kærunefnd umræddum lækni, Dr. […], tölvupóst þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvenær […] hafi lent í […] og hafa engin svör borist nefndinni. Verður það að teljast ólíklegt að bróðir kæranda sem ekki sé nánasti aðstandandi […] hafi getað fengið vottorð frá lækni hennar um heilsu hennar án aðkomu hennar á nokkurn hátt. Er það mat nefndarinnar að ofangreint sé til þess fallið að draga úr trúverðugleika umrædds læknisvottorðs.

Í viðtali hjá kærunefnd svaraði kærandi jafnframt öðrum spurningum sem að mati nefndarinnar draga enn úr trúverðugleika frásagnar hans. Í því sambandi bendir kærunefnd á að kærandi fullyrti fyrst í viðtalinu að hann hafi ekki haft nein áform um að yfirgefa heimaríki eftir að hann kynnist […] þar sem hann hafi haft í hyggju að kvænast henni. Þegar hann var í kjölfarið spurður af hverju hann hefði lagt fram umsókn um vegabréfsáritun til Hollands þann 24. ágúst 2017 viðurkenndi hann að hafa sótt um vegabréfsáritunina en að sú umsókn hafi verið óviðkomandi ástæðum flótta kæranda frá heimaríki. Ástæða umsóknarinnar hafi verið að kærandi hafi viljað fara til Hollands í nám eftir að þau […] hafi gengið í hjónaband. Aðspurður um hvort sú skýring kærandi passaði við að á umsókninni kemur fram að hún er vegna viðskiptaferðar í september og október 2017 svaraði kærandi að fyrirtæki föður hans hafi sótt um vegabréfsáritun fyrir hann. Þá kemur fram í viðbótarathugasemdum kæranda að hann hafi sjálfur sótt um áritunina í ágúst 2017 en henni hafi verið synjað en fyrirtæki föður hans hafi sótt um í annað skiptið án hans vitneskju. Eins og að framan greinir var því nokkuð ósamræmi milli svara kæranda og fyrirliggjandi gagna varðandi umsókn hans um vegabréfsáritun og eru skýringar hans hvað þetta varðar að mati kærunefndar ótrúverðugar.

Þá telur kærunefnd enn draga úr trúverðugleika kæranda að hann lagði fram myndir sem hann kvað vera úr afmælisveislu […] en sagðist aðspurður ekki muna afmælisdag hennar.

Að mati kærunefndar er ekki tilefni til að draga í efa að kærandi hafi átt í sambandi við konu í heimaríki sem er á myndum sem kærandi hefur lagt fram hjá stjórnvöldum. Í ljósi umræddra mynda telur kærunefnd heldur ekki tilefni til að draga í efa að hún hafi á einhverjum tímapunkti orðið fyrir […] og telur ekki útilokað að […] sé kominn til vegna þess að […]. Aftur á móti telur kærunefnd að frásögn kæranda af því að frændi umræddrar konu hafi ráðist á hana með sýrunni vegna sambands við kæranda árið 2017 og að kærandi eigi á hættu heiðurstengt ofbeldi af hálfu frændans vegna þess að hann vilji giftast konunni sé að öllu leyti ótrúverðug. Verður hún því ekki lögð til grundvallar í þessu máli. Kærunefnd telur gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærandi eigi á hættu ofsóknir af þeim toga eða alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

[…]

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir eindregið til þess að […] sé almennt talið öruggt. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, á heimasvæði sínu í […], á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur þangað. Jafnframt er það mat kærunefndar, með vísan til skýrslna um aðstæður í heimaríki kæranda, að honum standi til boða vernd og aðstoð lögreglu í […] telji hann sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Langvarandi stríðstástand hafi ríkt í heimaríki kæranda og heldur kærandi því fram að yfirvöld í […] geti ekki veitt honum þá vernd sem hann þarfnist. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má draga þá ályktun að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá teljist svæðið þar sem kærandi hafði búsetu öruggt svæði. […] sé jafnframt með virkt refsivörslukerfi sem geti veitt kæranda viðeigandi vernd.

Af gögnum málsins verður ekki séð annað en að kærandi sé heilsuhraustur. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar, heimildarvinnu stofnunarinnar sem og hvernig skýrslur séu túlkaðar. Má af greinargerð ráða að kærandi telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Það er mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands 4. maí 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Anna Tryggvadóttir

Hilmar Magnússon                                                                                    Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta