Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Áhrif loftslagsbreytinga leggjast af meiri þunga á konur og stúlkur

Ljósmynd: UN Women - mynd

Baráttan gegn loftslagsbreytingum er nátengd baráttunni gegn kynbundnum ójöfnuði og fyrir bættum réttindum kvenna og stúlkna, segir í sameiginlegri yfirlýsingu UN Women og skosku heimastjórnarinnar sem birt var á loftslagsráðstefnunni (COP26) í Glasgow í gær. Í yfirlýsingunni eru leiðtogar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna hvattir til þess að beita sér í þágu jafnréttis svo takmarka megi áhrif loftslagsbreytinga á jörðina.

Í yfirlýsingunni segir að áhrif loftslagsbreytinga leggjast af meiri þunga á konur og stúlkur og þá sérstaklega þær sem búa í fátækari ríkjum heims. Viðbragðsáætlanir þurfi því að taka tillit til þátta á borð við kyn, aldur, búsetu og skerðingu eigi þær að skila árangri.

„Þau sem menga minnst verða verst fyrir barði loftslagsbreytinga. Þeirra á meðal eru konur og stúlkur í fátækari ríkjum heims. Stúlkur eru líklegri til að verða teknar úr námi og konur ólíklegri en karlmenn til að finna nýja atvinnu vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Það er gríðarlega mikilvægt verkefni að tryggja að konur og stúlkur séu einnig í forystu hlutverki þegar kemur að lausnum vegna loftslagsbreytinga. Við þurfum að gera meira til að tryggja jöfnuð og jafna þátttöku kvenna og stúlkna,“ sagði Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands.

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, tók undir orð hennar og sagði að markmiðinu um að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráðu verði ekki náð nema konur og stúlkur verði með í ráðum og fái sæti við samningaborðið. 

„Þessi yfirlýsing er mikilvægt tól til að viðhalda þeim meðbyr sem við höfum. Konur og stúlkur þurfa að taka forystu í nýsköpun og viðbragði við loftslagsbreytingum. Ég hvet alla kvenleiðtoga að taka skýra afstöðu og undirrita yfirlýsinguna,“ sagði Bahous.

UN Women á Íslandi hvetur Íslendinga til að taka próf þar sem sértæk áhrif loftslagsbreytinga á líf kvenna og stúlkna koma berlega í ljós.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta