Mál nr. 7/2007
Álit kærunefndar jafnréttismála
í mál nr. 7/2007:
A
gegn
Fimleikafélaginu Björk
Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 15. janúar 2008 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
I.
Inngangur
Með kæru, dags. 23. júlí 2007, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Fimleikafélagið Björk hefði með ráðningu í starf framkvæmdastjóra félagsins brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Fimleikafélaginu Björk með bréfi, dags. 1. ágúst 2007, og var óskað eftir því að umsögn félagsins um kæruna bærist fyrir 15. ágúst 2007. Með tölvubréfi, dags. 15. ágúst 2007, óskaði Fimleikafélagið Björk eftir viðbótarfresti til 22. ágúst 2007 til þess að skila inn umsögninni og var sá viðbótarfrestur veittur. Umsögn Fimleikafélagsins Bjarkar barst með tölvubréfi þann 21. ágúst 2007 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi, dags. 30. ágúst 2007.
Athugasemdir kæranda við umsögn Fimleikafélagsins Bjarkar bárust með bréfi, dags. 20. september 2007, eftir að kæranda hafði verið veittur viku viðbótarfrestur til að koma athugasemdunum að. Athugasemdirnar voru sendar Fimleikafélaginu Björk til kynningar með bréfi, dags. 25. september 2007. Athugasemdir Fimleikafélagsins Bjarkar bárust með bréfi, dags. 16. október 2007, eftir félaginu hafði verið veittur viku viðbótarfrestur til að koma þeim að. Athugasemdirnar voru sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 18. október 2007.
Með tölvubréfi til Fimleikafélagsins Bjarkar, dags. 20. nóvember 2007, óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir frekari upplýsingum og gögnum sem lágu til grundvallar þeirri ákvörðun að ráða karlmanninn G í starf framkvæmdastjóra félagsins. Umbeðnar upplýsingar og gögn bárust með tölvubréfi, dags. 26. nóvember 2007, og voru þau send kæranda til kynningar með tölvubréfi, dags. 28. nóvember 2007.
Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
II.
Málavaxtalýsing
Málavextir eru þeir að Fimleikafélagið Björk í Hafnarfirði auglýsti í febrúar 2007 laust til umsóknar starf framkvæmdastjóra félagsins. Í auglýsingunni kemur fram að framkvæmdastjóri skuli byggja upp og stjórna starfsemi félagsins. Hlutverk framkvæmdastjóra sé meðal annars að hafa umsjón með daglegum rekstri, móta framtíðarstefnu í samvinnu við stjórn, sjá um markaðsmál, upplýsingagjöf, bera ábyrgð á fjárhagslegum rekstri og áætlanagerð. Jafnframt kemur fram í auglýsingunni að umsækjandi þurfi að hafa reynslu af stjórnun og rekstri, hafa frumkvæði, vera jákvæður og hafa hæfni í mannlegum samskiptum.
Tvær umsóknir bárust um starfið og komst stjórn Fimleikafélagsins Bjarkar að þeirri niðurstöðu að ráða karlmanninn G í starf framkvæmdastjóra félagsins.
Kærandi telur að Fimleikafélagið Björk hafi með ráðningu í starf framkvæmdastjóra félagsins brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem sá karlkyns umsækjandi sem ráðinn hafi verið í starfið hafi mun minni menntun og reynslu en kærandi.
Fimleikafélagið Björk mótmælir því að félagið hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það hafi aldrei verið markmið félagsins að ráða frekar karl en konu í starf framkvæmdastjóra þess. Stjórnin hafi einungis haft hag félagsins að leiðarljósi við ákvörðun um ráðningu í starfið.
III.
Sjónarmið kæranda
Í kærunni segir að kærandi hafi sótt um starf framkvæmdastjóra Fimleikafélagsins Bjarkar ásamt einum öðrum umsækjanda. Kærandi hafi ekki fengið starfið þrátt fyrir að hún hafi leyst fyrrverandi framkvæmdastjóra af og hafi þá menntun og reynslu sem krafist hafi verið í atvinnuauglýsingunni. Sá umsækjandi sem hafi fengið starfið hafi hvorki lokið háskólaprófi né hafi hann nokkra starfsreynslu sem heitið geti. Kærandi telur að brotið hafi verið stórlega á sér, þar sem hún hafi bæði meiri menntun og reynslu en sá umsækjandi sem hafi verið ráðinn.
Haustið 2006 hafi þáverandi framkvæmdastjóra boðið kæranda að koma til starfa hjá Fimleikafélaginu Björk í Hafnarfirði, en kærandi hafi þá verið að koma úr veikindafríi. Kærandi hafi hafið skrifstofustörf þann 15. október 2006 sem hlutastarf. Fljótlega eftir áramót hafi viðvera kæranda aukist og frá því í byrjun mars 2007 hafi hún verið í 100% starfi hjá félaginu. Kærandi hafi leyst fyrrverandi framkvæmdastjóra af samfleytt í hálfan mánuð í mars 2007 og svo tekið að sér flest hennar verk frá 1. apríl 2007 þegar hún hætti starfi sem framkvæmdastjóri. Það hafi verið ljóst í lok febrúar 2007 að fyrrverandi framkvæmdastjóri myndi hætta 1. apríl og hafi starfið því verið auglýst. Kærandi hafi sótt um ásamt einum öðrum umsækjanda, karlmanninum G. Hann sé innanfélagsmaður og yfirþjálfari einnar deildar félagsins.
Kærandi vekur athygli á því að í umsögn Fimleikafélagsins Bjarkar sé vísað til samtala formanns félagins við fyrrverandi formann stjórnar félagsins og fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins. Jafnframt sé vitnað í samræður á stjórnarfundum. Ekki sé vitnað í fundargerðir eða staðfestingu umræddra aðila á þessum samskiptum. Kærandi telur að þessi samskipti séu aukaatriði og ummælin marklaus ef engin staðfesting sé til.
Kærandi telur að hafi stjórn Fimleikafélagsins Bjarkar viljað hreinsa algjörlega til, svo sem hún hafi vísað til, og byrja upp á nýtt með ráðningunni, hafi hún átt að líta til þess að G hafi verið búinn að vera starfsmaður félagsins í mun lengri tíma en kærandi. Þessi röksemdarfærsla félagsins falli því um sjálfa sig.
Í starfsviðtalinu sem kærandi fór í hjá formanni og gjaldkera núverandi stjórnar Fimleikafélagsins Bjarkar hafi aldrei verið rætt við hana um laun. Í umsókn kæranda hafi heldur ekki verið minnst á launakröfur þannig að hugleiðingar um að hún myndi hugsanlega setja fram háar launakröfur séu tilhæfulausar. Þegar kærandi hafi sótt um starfið hafi hún eingöngu hugsað um að hún uppfyllti öll skilyrði auglýsingarinnar um starfið. Þegar hún hafi svo komist að því að umsækjandinn sem var ráðinn uppfyllti engan veginn umrædd skilyrði, hvorki varðandi menntun né reynslu, hafi henni fundist stórlega á sér brotið og kært fyrst og fremst á þeim forsendum.
Kæran snúist ekki um hvort G sé hæfur í mannlegum samskiptum eða ekki. Hún snúist um að kærandi uppfylli fleiri af þeim skilyrðum sem sett voru fram í auglýsingunni um starf framkvæmdastjóra Fimleikafélagsins Bjarkar. Kærandi vísar í þessu sambandi til ferilskrár sinnar varðandi menntun og reynslu. Jafnframt vísar kærandi til skriflegs frammistöðumats varðandi mannleg samskipti, jákvæðni og frumkvæði sem hafi verið framkvæmt af yfirmanni kæranda þegar hún starfaði fyrir S hf.
IV.
Sjónarmið Fimleikafélagsins Bjarkar
Í umsögn Fimleikafélagsins Bjarkar kemur fram að í apríl 2007 hafi ný aðalstjórn tekið við hjá félaginu. Á þeim tíma hafi eitt af forgangsverkefnum félagsins verið að finna starfsfólk í stöðu íþróttafulltrúa og framkvæmdastjóra en störfin hafi verið auglýst í febrúar 2007. Hin nýja stjórn hafi leitast við að eldri stjórn og fyrrverandi framkvæmdastjóri myndu klára ráðningar í umrædd störf þar sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hafi unnið hjá félaginu þar til 1. maí 2007. Bæði fyrrverandi aðalstjórn og framkvæmdastjóri hafi ekki viljað það og því hafi verkefnið verið falið nýrri stjórn sem hafi haft undir höndum umsóknirnar sem bárust í kjölfar auglýsingarinnar sem send var út í febrúar 2007.
Fimleikafélagið Björk hafi haft tvo aðila til skoðunar við ráðningu í starf framkvæmdastjóra félagsins, kæranda og karlmanninn G. Bæði fyrrverandi formaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri hafi talið að í raun kæmi hvorugur þessara aðila til greina en það væri þó hin nýja stjórn sem skyldi taka ákvörðun um ráðningu. Hin nýja stjórn hafi tekið þá ákvörðun að ráða G.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri hafi sent núverandi stjórn bréf þar sem hún hafi lýst yfir stuðningi við kæranda en hún hafi einnig tekið fram í bréfinu að þegar rætt hafi verið við hana um ráðningamál í apríl þá hafi hún ekki talið kæranda tilbúna í starf framkvæmdastjóra. Einungis þegar ráðning G hafi verið vel á veg komin hafi fyrrum framkvæmdastjóri brugðist við og sagt kæranda vera tilbúna í starf framkvæmdastjóra og að velja hefði átt hana í starfið. Fyrrum framkvæmdastjóri hafi hins vegar í raun lagt línurnar fyrir Fimleikafélagið Björk um ráðningu í starf framkvæmdastjóra þegar rætt hafi verið við hana í apríl.
Mikið hafi verið rætt á stjórnarfundi Fimleikafélagsins Bjarkar um hvort ráða ætti kæranda eða G sem framkvæmdastjóra félagins. Ákveðið hafi verið að hreinsa algjörlega til og byrja upp á nýtt með umræddri ráðningu. þ.e. að hin nýja stjórn vildi nýjan framkvæmdastjóra og nýjan íþróttafulltrúa. Stjórnin hafi talið að það væri félaginu fyrir bestu að breytingar yrðu gerðar á skrifstofu félagsins þar sem stjórnin hefði verið óánægð með stöðu félagsins og hvernig það hafði verið rekið. Eitt af því sem hafi haft áhrif á ákvörðun stjórnarinnar um ráðningu hafi verið fjárhagsleg staða félagsins sem var slæm. Félagið hafi átt við mikla manneklu að stríða og hafi í raun verið illa rekið sökum þess undanfarið ár. Stjórnin hafi því þurft að taka tillit til launakrafna og hafi mat hennar verið að kærandi myndi gera mun hærri launakröfur þar sem laun hennar sem aðstoðarmaður hafi verið sambærileg og framkvæmdastjóri sé með í dag.
Í aðalstjórn Fimleikafélagsins Bjarkar sé fimm stjórnarmenn, fjórar konur og einn karl. Á skrifstofu félagsins hafi eingöngu verið konur og sé félagið því í raun mikið kvennafélag. Það hafi aldrei verið markmið stjórnarinnar að ráða frekar karlmann en konu í starf framkvæmdastjóra félagsins. Þetta sé áréttað þar sem kæran hafi í raun komið félaginu í opna skjöldu. Um sé að ræða íþróttafélag sem sé mestmegnis rekið með velvild foreldra, styrkjum og ársgjöldum. Stjórnin hafi ætíð hugsað um hag félagsins við ráðningu í starf framkvæmdastjóra. Félagið hafi orðið fyrirmyndarfélag innan Íþróttasambands Íslands árið 2005 og sé stefna félagsins varðandi jafnrétti tíunduð í 8. kafla gæðahandbókar. Jafnréttisstefna félagsins sé í hávegum höfð líkt og gæðahandbókin öll. Allir formenn deilda félagsins séu konur og konur séu í meirihluta í öllum stjórnum félagsins.
Í auglýsingunni um starf framkvæmdastjóra Fimleikafélagsins Bjarkar segi að litið sé til hæfni umsækjanda í mannlegum samskiptum, jákvæðni og frumkvæði. Stjórn félagsins hafi talið G mjög hæfan hvað þessi atriði varðar. Upplifun stjórnarinnar af G og hans störfum fyrir félagið hafi verið góð. Hann hafi ætíð sýnt nemendum sínum gríðarlega hollustu, ótrúlega þolinmæði og jákvæðni. Þetta hafi vegið þungt hjá stjórninni þar sem þetta starf sé mjög pólitískt innan íþróttanna en á því hafi G mikinn skilning enda sé hann innanhússmaður og afreksmaður í íþróttum.
Í athugasemdum frá Fimleikafélaginu Björk kemur fram að orðalagið í umsögn félagsins um að hreinsa algjörlega til og byrja upp á nýtt með umræddri ráðningu hafi beinst að skrifstofu félagsins. Núverandi framkvæmdastjóri, G, hafi einungis verið tengdur þjálfun innan félagsins og ekki komið að rekstri félagsins á annan hátt en að vera gjaldkeri stjórnar tae kwon do deildarinnar í sjálfboðastarfi.
Það sé rétt hjá kæranda að launamál hafi ekki verið rædd heldur hafi þau verið byggð á mati stjórnarinnar. Stjórnin standi við það sem fram komi í umsögn hennar um að það hafi þurft að taka tillit til launakrafna og að mat hennar í því sambandi hafi verið að kærandi myndi gera mun hærri launakröfur enda hafi laun hennar sem aðstoðarmaður verið sambærileg launum núverandi framkvæmdastjóra.
V.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.
Af hálfu kæranda er þess óskað að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna við ráðningu í starf framkvæmdastjóra Fimleikafélagsins Bjarkar í maí 2007 er karlmaður var ráðinn í stöðuna.
Starf það sem hér um ræðir var auglýst laust til umsóknar í febrúar 2007. Í auglýsingunni kom fram að félagið óskaði eftir að ráða framkvæmdastjóra til að byggja upp og stjórna starfsemi félagsins. Tilgreint var að starfssvið framkvæmdastjóra væri umsjón með daglegum rekstri, mótun framtíðarstefnu í samvinnu við stjórn, markaðsmál, upplýsingagjöf, ábyrgð á fjárhagslegum rekstri og áætlunargerð. Tekið var fram að umsækjendur þyrftu að hafa reynslu af stjórnun og rekstri, hafa frumkvæði, vera jákvæðir og hafa hæfni í mannlegum samskiptum.
Af hálfu kæranda er til þess vísað í kæru og umsögnum til nefndarinnar að kærandi hafi ekki hlotið umrætt starf þrátt fyrir að hafa uppfyllt menntunar- og reynslukröfur sem gerðar voru í auglýsingunni. Sá sem ráðinn var hafi hvorki lokið háskólaprófi né hafi haft nokkra starfsreynslu svo sem áskilið hafi verið. Vísaði kærandi meðal annars til þess að hún hafi í kjölfar veikindaleyfis tekið að sér hlutastarf á skrifstofu félagins í októbermánuði 2006 en frá marsmánuði 2007 hafi hún gegnt fullu starfi hjá félaginu, meðal annars leyst framkvæmdastjóra af og sinnt þeim verkefnum eftir að framkvæmdastjóri lét af störfum 1. apríl 2007.
Af hálfu Fimleikafélagsins Bjarkar er til þess vísað í umsögn til nefndarinnar að við val á nýjum framkvæmdastjóra hafi ný stjórn, sem tók við um svipað leyti, meðal annars haft í huga að æskilegt væri að gera verulegar breytingar og hreinsa til í starfsemi félagsins, eins og það er orðað í umsögn til nefndarinnar, þ.e. að ný stjórn hafi meðal annars talið æskilegt að ráða nýjan framkvæmdastjóra. Taldi stjórnin það samræmast best hag félagsins en stjórnarmenn hafi þá verið óánægðir með stöðu og rekstur félagsins. Að því er varðar rökstuðning fyrir ráðningu karlmannsins sérstaklega var vísað meðal annars til þeirra krafna í auglýsingunni sem viku að mannlegum samskiptum, jákvæðni og frumkvæði. Hafi stjórnin talið að sá sem ráðinn var hafi uppfyllt þessi skilyrði vel, en reynsla hefði verið góð af störfum hans fyrir félagið, bæði sem gjaldkera deildar innan félagsins og sem þjálfara. Hafi hann sýnt í störfum með nemendum sínum þolinmæði og jákvæðni, en þess atriði hafi meðal annars vegið þungt á þessu sviði, að auki hafi hann haft þekkingu á starfsemi félagsins og verið afreksmaður í íþrótt sem félagið láti til sín taka.
Svo sem tilgreint er í auglýsingu vegna starfsins leitaði Fimleikafélagið Björk eftir framkvæmdastjóra til að byggja upp og stjórna starfsemi félagsins. Í því sambandi var leitað eftir aðila sem ætlað var að hafa umsjón með daglegum rekstri, mótun framtíðarstefnu o.fl. Tekið var fram að umsækjendur skyldu hafa reynslu af rekstri og stjórnun, hafa frumkvæði og vera jákvæðir og hafa færni í mannlegum samskiptum.
Að mati kærunefndar jafnréttismála er litið svo á, með tilliti til þeirra gagna sem fyrir nefndinni liggja, að kærandi teljist hafa haft meiri reynslu af tilteknum þáttum sem leitað var eftir og tilgreindir voru í auglýsingunni, einkum varðandi markaðsmál, og hafi að því leyti til mátt teljast hæfari en sá sem ráðinn var. Við ákvörðun um ráðningu í starfið leit stjórn félagsins hins vegar ekki sérstaklega til þeirra þátta að því er virðist, heldur lagði áherslu á aðra þætti sem tilgreindir voru í auglýsingunni.
Af hálfu kærunefndar er talið, eins og hér stendur á, að játa beri stjórn Fimleikafélagsins Bjarkar allnokkurt svigrúm við mat á kostum umsækjenda við ráðningu sem þessa, meðal annars með tilliti til þess að um er að ræða íþróttafélag með sérhæfða starfsemi. Í því felst svigrúm við mat á forsendum sem lagðar eru til grundvallar við ákvörðun um ráðningu í starfið, að teknu tilliti til þeirra markmiða sem stjórnin setur sér í þessu sambandi.
Af hálfu Fimleikafélagsins Bjarkar var, svo sem að framan er rakið, m.a. vísað til þess að ný stjórn í félaginu hafi viljað gera breytingar á starfsemi félagsins og byggja hana upp. Það var álit stjórnarinnar, með tilliti til reynslu sem var af störfum þess sem ráðinn var innan félagsins og kosta hans sem hún þekkti til, m.a. varðandi samskipti við nemendur og vegna reynslu hans á sviði íþróttarinnar, að líta hafi mátt á hann sem hæfastan til starfsins, en það athugast að viðkomandi hafði við ráðningu að mestu lokið háskólanámi sínu í hagfræði.
Þegar svo stendur á sem hér greinir og með tilliti til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin, er það álit kærunefndar jafnréttismála, að þó svo að telja megi að kærandi hafi í tilteknum atriðum staðið þeim sem ráðinn var framar, verði ekki fallist á að við endanlegt mat sitt á þeim kostum, sem mestu voru taldir skipta við val á umsækjanda, hafi stjórnin beitt fyrir sig ómálefnalegum sjónarmiðum og að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 við ráðningu í starfið.
Það er álit kærunefndar jafnréttismála, að ekki teljist hafa verið brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.
Andri Árnason
Ragna Árnadóttir
Ása Ólafsdóttir