Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 291/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 291/2017

Miðvikudaginn 17. janúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 10. ágúst 2017, kærði B f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. júlí 2017 á umsókn um framlengingu bóta þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi eða stofnun fyrir aldraða.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. ágúst 2016, var kæranda tilkynnt um fyrirhugaða stöðvun lífeyrisgreiðslna frá 1. september 2016 vegna dvalar á hjúkrunarheimili. Umboðsmaður kæranda sótti um framlengingu lífeyrisgreiðslna með umsókn, dags. 14. júlí 2017. Með ákvörðun, dags. 17. júlí 2017, var umsókn kæranda synjað þar sem meira en sex mánuðir höfðu liðið frá því að greiðslur voru stöðvaðar vegna dvalar á hjúkrunarheimili.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. ágúst 2017. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. október 2017, barst úrskurðarnefnd greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn um framlengingu bóta vegna dvalar á dvalarheimili verði felld úr gildi og tekin til efnislegrar skoðunar.

Í kæru kemur fram að kærandi sé X ára gamall með skert minni. Fljótlega eftir síðustu áramót hafi umboðsmaður kæranda haft samband við Tryggingastofnun til að athuga með framlengingu lífeyrisgreiðslna til hans vegna rekstrarkostnaðar við íbúð hans. Umboðsmaður hafi fengið þær upplýsingar að hún þyrfti að sækja um á þar til gerðu eyðublaði en ekki hafi verið minnst á að sækja þyrfti um framlengingu innan sex mánaða frá stöðvun bóta. Umboðsmaður kæranda hafi farið yfir þær tilkynningar sem settar hafi verið inn á “Mínar síður“ Tryggingastofnunar eftir að hún gerðist umboðsmaður og hafi ekki fundið neitt þar um þennan frest. Í kjölfarið hafi umboðsmaður haft samband við Tryggingastofnun til að kvarta yfir því og þá hafi hún verið upplýst um að stofnunin hafi á sínum tíma sent bréf til kæranda. Í ljósi þess sé beðið um að tekið verði tillit til aldurs kæranda. Hann sé X ára gamall og hafi ekki lesið bréf sem honum hafi borist. Sé því farið fram á að úrskurðarnefndin endurskoði afgreiðslu Tryggingastofnunar.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun Tryggingastofnunar á framlengingu ellilífeyris vegna dvalar á dvalarrými.

Kæranda hafi með bréfi, dags. 24. ágúst 2016, verið tilkynnt um stöðvun ellilífeyris frá 1. september 2016 vegna dvalar á dvalarheimili frá X 2016.

Í 5. mgr. [48]. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar komi fram að lífeyrisgreiðslur falli niður vegna varanlegrar dvalar á öldrunarstofnun frá fyrsta degi næsta mánaðar. Í sama ákvæði sé einnig mælt fyrir um heimild til framlengingar á greiðslum ef sérstaklega stendur á.

Um heimild til framlengingu bóta þrátt fyrir dvöl á hjúkrunar- eða dvalarheimili fyrir aldraða eða á sjúkrahúsi sé kveðið á um í reglugerð nr. 1250/2016 (áður reglugerð nr. 357/2005, sbr. reglugerð nr. 296/2008). Í 5. gr. reglugerðarinnar komi fram að sækja skuli um framlengingu samkvæmt reglugerðinni innan sex mánaða frá því að greiðslur bóta féllu niður.

Sótt hafi verið um framlengingu bóta með umsókn dagsettri og móttekinni 14. júlí 2017. Umsókninni hafi verið synjað með bréfi, dags. 17. júlí 2017, á grundvelli þess að sótt hafi verið um meira en sex mánuðum eftir að bætur féllu niður. Þar sem synjunin hafi byggst á því að sótt hafi verið of seint um hafi umsóknin og þau gögn sem fylgdu henni ekki verið skoðuð efnislega.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um framlengingu bóta þrátt fyrir dvöl á dvalarheimili þar sem umsóknin hafi komið of seint fram.

Í 5. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er mælt fyrir um heimild til að greiða lífeyri þrátt fyrir dvöl á dvalarrými. Í ákvæðinu segir:

„Ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum fellur lífeyrir hans og bætur honum tengdar niður ef dvölin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Heimilt er þó að víkja frá tímamörkum í 1. málsl. þessarar málsgreinar ef sérstaklega stendur á og skal við mat á framlengingu á greiðslu lífeyris og bótum honum tengdum höfð hliðsjón af tekjum skv. 16. gr.“

Með stoð í 10. mgr. 48. gr., sbr. 70. gr laga nr. 100/2017 um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 29. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingu, hefur verið sett reglugerð nr. 1250/2016 um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að framlengja bótagreiðslur þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi eða stofnun fyrir aldraða. Svohljóðandi er 5. gr. reglugerðarinnar sem varðar umsóknir um framlengingu bótagreiðslna:

„Sækja skal um framlengingu bóta samkvæmt reglugerð þessari innan sex mánaða frá því að greiðslur bóta falla niður, sbr. 1. gr. Í umsókn skal gerð grein fyrir áætluðum dvalartíma, aðstæðum umsækjanda og eftir atvikum maka hans, sbr. 3. gr., sem og öðrum atriðum sem máli geta skipt varðandi afgreiðslu umsóknar.“

Í framangreindu ákvæði laga um almannatryggingar er kveðið skýrt á um það að greiðslur lífeyris skuli stöðvaðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 24. ágúst 2016, um fyrirhugaða stöðvun greiðslna vegna dvalar á hjúkrunarheimili frá og með 1. september 2016. Með bréfi Tryggingastofnunar fylgdu nánari upplýsingar og leiðbeiningar, meðal annars um að einstaklingar hafi sex mánaða frest frá því að greiðslur falli niður til að sækja um framlengingu bóta. Tæplega ári eftir að lífeyrisgreiðslur kæranda voru felldar niður sótti umboðsmaður hans um framlengingu bóta.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess að lífeyrisgreiðslur til kæranda voru felldar niður á grundvelli 2. málsl. 5. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar þar sem um varanlega búsetu á hjúkrunarheimili var að ræða. Í lögum um almannatryggingar er ekki kveðið á um heimild til þess að framlengja lífeyrisgreiðslur í slíkum tilvikum heldur einungis þegar lífeyrisgreiðslur eru felldar niður á grundvelli 1. málsl. 5. mgr. 48. gr. laganna. Í reglugerð nr. 1250/2016 er aftur á móti kveðið á um heimild til þess að framlengja lífeyrisgreiðslur sem hafa verið felldar niður á grundvelli 2. málsl. 5. mgr. 48. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 2. gr. reglugerðarinnar. Í 5. gr. reglugerðarinnar er skýrt kveðið á um það að sækja skuli um framlengingu bóta innan sex mánaða frá því að greiðslur bóta falli niður. Fyrir liggur að kærandi sótti ekki um framlengingu bóta innan framangreinds tímamarks.

Í kæru er farið fram á að tekið verði tillit til þess hve aldraður kærandi sé og að hann hafi ekki lesið bréf Tryggingastofnunar. Í reglugerð nr. 1250/2016 er hvergi kveðið á um heimild til þess að víkja frá því skilyrði 5. gr. að sækja skuli um innan sex mánaða. Í ljósi þess er ekki heimilt að taka tillit til framangreindrar málsástæðu kæranda við úrlausn máls þessa.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að synja umsókn um framlengingu bótagreiðslna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. júlí 2017, um að synja A, um framlengingu bóta vegna dvalar á stofnun, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta