Fósturvísa má nú geyma í tíu ár í stað fimm
Geymslutími fósturvísa er tvöfaldaður samkvæmt reglugerð um tæknifrjóvgun. Hann verður tíu ár í stað fimm, eins og áður var ákveðið í reglugerð sem fellt hefur verið úr gildi. Reglugerðin var sett 11. febrúar sl. Og er hún sett með stoð í lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, með síðari breytingum. Á sama tíma fellur úr gildi eldri reglugerð nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun. Þrennt er athyglisverðast í nýju reglugerðinni. Í fyrsta lagi er hámarksgeymslutíma fósturvísa breytt, eins og áður sagði. Í stað þess að miða við 5 ára hámarksgeymslutíma er mælt fyrir um að hann verði 10 ár. Í öðru lagi eru settar reglur um hámarksfjölda fósturvísa sem að jafnaði skuli heimilt að setja upp við tæknifrjóvgunarmeðferð. Samkvæmt reglugerðinni er óheimilt að setja upp fleiri en einn fósturvísi í senn, þegar um er að ræða konur undir 36 ára aldrei. Heimilt er að víkja frá skilyrðinu og setja upp tvo fósturvísa, ef aðstæður konunnar og læknisfræðileg rök standa til þess. Í þriðja lagi er svo nánar kveðið á um undirbúning væntanlegra foreldra vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar, m.a. um aðgang þeirra að ráðgjöf. Jafnfram er kveðið á um heimild, eða skyldu læknis, til að leita umsagnar félagsráðgjafa eða annarra fagaðila og eftir atvikum barnaverndarnefndar um félagslegar aðstöður parsins eða konunnar.