Hoppa yfir valmynd
23. júní 2004 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 23. júní 2004

Þann 23. júní 2004, var fundur haldinn í Mannanafnanefnd, í húsnæði Orðabókar Háskólans, Nesvegi 16, Reykjavík.

Fundinn sátu Andri Árnason, formaður, Guðrún Kvaran og Margrét Jónsdóttir.

Eftirtalin mál voru tekin til afgreiðslu:

Mál nr. 47/2004

Millinafn: Theophilus (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn skal millinafn dregið af íslenskum orðstofnum en það má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Nafnið Theophilus er ekki dregið af íslenskum orðstofni og hefur auk þess nefnifallsendingu. Beiðni um millinafnið Theophilus er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Theophilus er hafnað.

Mál nr. 48/2004

Eiginnafn: Snævarr (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Með tilliti til fjölda nafnbera telst eiginnafnið Snævarr hafa unnið sér hefð í íslensku máli, sbr. vinnulagsreglur mannanafnanefndar frá 7. september 2000, og uppfyllir því skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Snævarr er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.

Mál nr. 49/2004

Eiginnafn: Patryk (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Nafnið Patryk telst hvorki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls né hefur það unnið sér hefð í íslensku, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Beiðni um eiginnafnið Patryk er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Patryk er hafnað.

Mál nr. 50/2004

Eiginnafn: Aurora (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Með tilliti til fjölda nafnbera telst eiginnafnið Aurora hafa unnið sér hefð í íslensku máli, sbr. vinnulagsreglur mannanafnanefndar frá 7. september 2000, og uppfyllir því skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Verður það fært á mannanafnaskrá sem ritmynd af Áróra.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Aurora er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá sem ritmynd af Áróra.

Mál nr. 51/2004

Millinafn: Liljan

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Millinafnið Liljan telst uppfylla ákvæði 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannnöfn. Beiðni um millinafnið Liljan er því samþykkt.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Liljan er samþykkt og verður það fært á mannanafnaskrá.

Mál nr. 52/2004

Eiginnafn: Natalie (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Með tilliti til fjölda nafnbera telst eiginnafnið Natalie hafa unnið sér hefð í íslensku máli, sbr. vinnulagsreglur mannanafnanefndar frá 7. september 2000, og uppfyllir því skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Natalie er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.

Mál nr. 53/2004

Aðlögun kenninafns: Nicolas verði Nikulásson

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Með bréfi Hagstofu Íslands, þjóðskrár, dags. 24. júní 2004 var óskað úrskurðar mannanafnanefndar um beiðni Halldóru Geirharðsdóttur og Nicolasar Péturs Blin um aðlögun kenninafns sonar þeirra að erlendu eiginnafni föður, Nicolas þannig að kenninafn verði Nikulásson.

Með vísan til heimildar í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, um aðlögun kenninafna sem dregin eru af erlendum eiginnöfnum, er fallist á ofangreinda beiðni.

Úrskurðarorð:

Ofangreind beiðni um aðlögun kenninafns, Nicolas verði Nikulásson er tekin til greina.

Mál nr. 54/2004

Eiginnafn: Marísa (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Marísa tekur eignarfallsendingu (Marísu) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Marísa er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.

Beiðni um endurupptöku máls nr. 79/2001.

Þann xxx sl. kom fram beiðni frá xxxx, um að nefndin endurskoðaði úrskurð sinn frá 29. ágúst 2001 í máli nr. 79/2001, en í þeim úrskurði hafði mannanafnanefnd synjað beiðni um endurupptöku á úrskurði sínum frá 7. júlí 1999, þess efnis að kvenmannsnafnið Isabella væri tekið á mannanafnaskrá. Í erindinu er vísað til upplýsinga úr þjóðskrá og Íslendingabók um að fjölmargar konur fæddar á bilinu 1997-2002 beri nafnið Isabella.

Með vísan til þessa er málið endurupptekið.

Í vinnulagsreglum mannanafnanefndar frá 7. september 2000 kemur fram að nafn telst hefðað í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996:

· Það er nú borið af a.m.k. 15 íslenskum ríkisborgurum

· Það er nú borið af 10-14 íslenskum ríkisborgurum og sá elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri.

· Það er nú borið af 5-9 íslenskum ríkisborgurum og sá elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri.

· Það er nú borið af 1-4 íslenskum ríkisborgurum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910 (eða fyrr).

· Það er ekki borið af neinum íslenskum ríkisborgara nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703-1910.

Í þjóðskrá er að finna 21 konu sem bera nafnið Isabella og er sú elsta fædd árið 1945. Með hliðsjón af ofangreindum viðmiðunarreglum mannanafnanefndar telst því nafnið Isabella hefðað.

Með tilliti til fjölda nafnbera, sbr. ofangreint, telst eiginnafnið Isabella hafa unnið sér hefð í íslensku máli, sbr. vinnulagsreglur mannanafnanefndar frá 7. september 2000, og uppfyllir því skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Isabella er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.

Fleira ekki gert, fundi slitið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta