Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2021 Utanríkisráðuneytið

Borgaraþjónustan aðstoðaði 33 við að komast frá Afganistan

Frá móttökutjaldi á Kastrup-flugvelli - myndUtanríkisráðuneytið

33 einstaklingar hafa undanfarna daga notið aðstoðar borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins við að komast frá Afganistan hingað til lands. Íslensk stjórnvöld taka undir áskorun fjölmargra ríkja til nýrra valdahafa í Afganistan um að heimila fólki frjálsa för úr landi.

Vegna ástandsins í Afganistan hafa tugþúsundir landsmanna yfirgefið landið að undanförnu. Fljótlega eftir valdatöku talibana kom til kasta borgaraþjónustu utanríkisþjónustu við að aðstoða íslenska ríkisborgara í landinu heim. Með góðri samvinnu við borgaraþjónustustofnanir í Finnlandi og Danmörku tókst að koma öllum íslenskum ríkisborgum sem óskuðu eftir aðstoð úr landi og til Íslands og lauk þeim heimflutningi fyrir viku. 

Um leið og ríkisstjórn Íslands samþykkti tillögur flóttamannanefndar um viðbrögð við því neyðarástandi sem er í Afganistan hófst borgaraþjónustan svo handa staðsetja og hafa samband við annars vegar einstaklinga sem eru með dvalarleyfi hér á landi og hins vegar fyrrverandi nemendur Alþjóðlega jafnréttisskólanna á Íslandi (GRÓ-GEST).

Tíu úr þessum tveimur hópum eru nú komnir til Íslands. Tvær fjölskyldur komu á föstudagskvöld í gegnum Islamabad og Kaupmannahöfn og í fyrrakvöld kom fjögurra manna fjölskylda frá Afganistan til landsins, með viðkomu í Dúbaí og London.

Nú þegar loftbrúin frá Kabúl hefur lagst af með brotthvarfi samstarfsþjóða frá Afganistan eru möguleikar borgaraþjónustu við að aðstoða fólk við að komast úr landi ekki lengur fyrir hendi. Alls hafa 33 einstaklingar notið aðstoð borgaraþjónustunnar við að komast þaðan að undanförnu og eru þá íslensku ríkisborgararnir meðtaldir. Auk borgaraþjónustu hafa sendiráðin í Kaupmannahöfn, Helsinki og London og fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu tekið þátt í þessu verkefni.

Talibanar hafa lýst því yfir að þeir ætli að heimila erlendum ríkisborgurum og Afgönum sem geta framvísað yfirlýsingum frá stjórnvöldum í ríkjum sem ætla að taka á móti þeim frjálsa för úr landi. Ísland hefur tekið undir áskorun hátt í eitt hundrað ríkja um að talibanar standi við gefin fyrirheit í þessum efnum.

Utanríkisráðuneytinu hafa borist fjölmörg erindi frá almenning með ósk um aðstoð við einstaklinga á grundvelli fjölskyldusameiningar, vegna tengsla við Ísland eða vegna einstaklinga sem eru í sérstökum áhættuhópum. Öllum slíkum erindum er beint til flóttamannanefndar og Útlendingastofnunar sem hafa þessi erindi til úrlausnar.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins mun áfram aðstoða íslenska ríkisborgara, dvalarleyfishafa og þá einstaklinga sem flóttamannanefnd eða Útlendingastofnun óskar sérstaklega eftir að verði aðstoðaðir en sem fyrr segir eru möguleikarnir á því afar takmarkaðir við núverandi aðstæður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta