Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 130/2011

Miðvikudaginn 11. janúar 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 130/2011:

A

gegn

félagsmálaráði Kópavogs

og kveðinn upp svohljóðandi 

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi A,  mótteknu 13. september 2011, er kærð ákvörðun félagsmálaráðs Kópavogs frá 6. september 2011, um synjun á umsókn kæranda um námsstyrk.  

 

I. Málavextir.

Kærandi er einstæð móðir ungs drengs. Hún fékk námsstyrk hjá Félagsþjónustu Kópavogs á haustönn 2011. Hún varð að hætta námi vegna veikinda sonar síns og fór þá út á vinnumarkaðinn. Hún sótti aftur um námsstyrk síðar á sömu önn og sagði starfi sínu lausu. Umsókninni var synjað á teymisfundi þann 24. ágúst 2011 þar sem kærandi átti rétt á atvinnuleysisbótum. Sú ákvörðun var staðfest á fundi félagsmálaráðs Kópavogs þann 6. september 2011 og hefur kærandi nú skotið henni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála eins og fram hefur komið.

Kærandi er skráð á haustönn í nám á B í Fjölbrautaskólanum C. 

 

II. Málsástæður kæranda.

Í ódagsettri kæru kæranda, en móttekinni 13. september 2011, kemur fram að hún búi ein með þriggja ára syni sínum. Hún sé í fullu B námi. Hún óskar aðstoðar á meðan hún sé í skóla og reikni hún með að útskrifast um jólin 2013. Það skipti hana máli að mennta sig, sérstaklega til þess að geta gefið barninu gott líf og til þess að vera fyrirmynd um það hvaða máli menntun skipti. Hún óskar aðstoðar til þess að þurfa ekki að hætta í skólanum því að hún sé strax farin að fá himinháar einkunnir. 

 

III. Málsástæður kærða.

Félagsþjónusta Kópavogs vísar til 25. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Bent er á að í 25. gr. komi fram að heimild til veitingar námsstyrks verði aðeins beitt í tengslum við umsókn viðkomandi um fjárhagsaðstoð og að tekjur umsækjanda verði að vera undir grunnfjárhæð samkvæmt reglunum. Þá segi að við ákvörðun um beitingu heimildar til að veita fjárhagsaðstoð vegna náms beri að taka mið af því fjármagni sem ætlað sé til slíkrar aðstoðar í fjárhagsáætlun hverju sinni. Samkvæmt nefndu ákvæði beri starfsmönnum félagsþjónustu að afgreiða umsókn kæranda um námsstyrk í tengslum við umsókn hans um fjárhagsaðstoð. Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga sé skv. 1. gr. laga um félagsþjónustu að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Þá segi í 19. gr. sömu laga að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Kærandi sé í þeirri aðstöðu að hún njóti fulls bótaréttar frá Vinnumálastofnun og teljist því ekki búa við fjárhagslegt óöryggi. Fullar bætur Vinnumálastofnunar séu hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sem sé í sveitarfélaginu 135.000 kr. Þá er bent á að eitt af vinnumarkaðsúrræðum Vinnumálastofnunar séu námsstyrkir, til að mynda til iðn- og verknáms í framhaldsskólum.

Ávallt sé litið til þess við mat á umsókn um fjárhagsaðstoð hvort umsækjandi eigi rétt til framfærslu hjá til dæmis Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun eða Fæðingarorlofssjóði. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga komi ekki til fyrr en önnur úrræði hafi verið tæmd eða sem uppbót ef umsækjandi eigi ekki fullan bótarétt annars staðar. Kærandi uppfylli jafnframt ekki það skilyrði 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð að þeir sem sæki um aðstoð sé skylt að leita sér atvinnu og taka þeirri atvinnu er bjóðist nema veikindi, örorka, aldur eða aðrar gildar vottfestar ástæðu hamli því.

Félagsþjónusta Kópavogs krefst þess að ákvörðun félagsmálaráðs Kópavogs verði staðfest. 

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 3. tölul. 64. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort félagsmálaráði Kópavogs hafi borið að veita kæranda aðstoð til náms við B í Fjölbrautaskólanum C á haustönn 2011. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin í máli kæranda átti hún rétt til atvinnuleysisbóta. Hún sótti um námsaðstoð hjá Félagsþjónustu Kópavogs en fékk synjun. Í 25. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð sem samþykktar voru í bæjarráði 30. desember 2003 og með breytingum síðast 3. febrúar 2011, er fjallað um námsaðstoð. Í greininni kemur fram að í samræmi við það markmið laga um félagsþjónustu sveitarfélaga að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og styrkja hann til sjálfshjálpar sé félagsþjónustunni heimilt að veita þeim aðstoð til náms, sem eigi við erfiðar félagslegar aðstæður að etja. Heimild þessari verði aðeins beitt í tengslum við umsókn viðkomandi um fjárhagsaðstoð og að umsækjandi sé með tekjur undir grunnfjárhæð samkvæmt reglunum. Fram kemur að heimilt sé að veita lán eða styrk vegna náms til fólks sem er á aldrinum 18–30 ára gamalt og hefur ekki lokið grunnskóla eða framhaldsskóla vegna félagslegra erfiðleika, er atvinnulaust eða þiggur fjárhagsaðstoð og hefur ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni. Aðstoð vegna náms skal miðast við grunnfjárhæð, eftir aðstæðum og eða bókakostnað og skólagjöld.

Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi rétt á atvinnuleysisbótum en þær bætur eru hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar. Hún uppfyllti því ekki það skilyrði 25. gr. framangreindra reglna um fjárhagsaðstoð að vera með tekjur undir grunnfjárhæð. Við meðferð framangreinds máls hefur af hálfu úrskurðarnefndar einnig verið litið til þess hvort framangreindar reglur stangist á við reglur laga nr. 40/1991 og þá meginreglu að einstaklingar skuli eiga rétt til fjárhagsaðstoðar geti þeir ekki séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára. Fram hefur komið að við afgreiðslu umsókna um fjárhagsaðstoð sé við mat á umsókn um fjárhagsaðstoð fyrst litið til þess hvort umsækjandi eigi rétt til framfærslu annars staðar, svo sem hjá Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun eða Fæðingarorlofssjóði. Komi slík aðstoð ekki til fyrr en önnur úrræði hafi verið tæmd eða sem uppbót ef umsækjandi eigi ekki fullan bótarétt annars staðar. Þá hefur jafnframt komið fram að skv. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Kópavogsbæjar sé þeim sem sæki um fjárhagsaðstoð skylt að leita sér atvinnu og taka þeirri atvinnu er bjóðist nema veikindi, örorka, aldur eða aðrar gildar vottfestar ástæðu hamli því. Verður ekki talið að í framangreindum reglum teljist, eins og hér stendur á, ómálefnalegar eða í andstöðu við lög að öðru leyti en upplýst er að kærandi átti kost á greiðslu atvinnuleysisbóta auk þess sem hann uppfyllti ekki ákvæði 3. gr. framangreindra reglna. Með framangreindum athugasemdum er hin kærða ákvörðun því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Gunnar Eydal og Margrét Gunnlaugsdóttir, meðnefndarmenn.
 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun velferðarráðs Kópavogs, frá 6. september 2011, varðandi umsókn A um námsstyrk, er staðfest.

 

 

 

Ása Ólafsdóttir

 

 

 

Gunnar Eydal                                               Margrét Gunnlaugsdóttir

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta