Hoppa yfir valmynd
14. desember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 136/2011

Miðvikudaginn 14. desember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 136/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 16. september 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, frá 16. september 2011 vegna synjunar á umsókn um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði ákvörðun um synjun á endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni að B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 16. september 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B 14.200.000 kr. Verðmat íbúðarinnar var 16.000.000 kr. samkvæmt mati löggilts fasteignasala frá fasteignasölunni Fjárfestingu sem fram fór þann 31. ágúst 2011. Áhvílandi á íbúðinni voru 16.208.401 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 29. september 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 11. október 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 13. október 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir synjun Íbúðalánasjóðs um leiðréttingu lána í 110% leiðinni. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 16. september 2011, segir kærandi að hún telji sig geta fært rök fyrir því að fasteignasali á vegum Íbúðalánasjóðs hafi ofmetið verðmæti íbúðar hennar. Telur kærandi ólíklegt að söluverð kjallaraíbúðar hennar að B 16.000.000 kr., en miðað við þá tölu yrði meðalverð á fermetra 213.333 kr.

Kærandi vísar til þess að í sama stigagangi og íbúð hennar tilheyri, hafi nýlega selst íbúð, en söluverð umræddrar íbúðar hafi verið 21.500.000 kr. Sú fasteign sé 110 fermetrar, auk bílskúrs. Kærandi segir að ef reiknað sé með viðmiðunarverði bílskúrs sem 2.000.000 kr., sé fermetraverð umræddrar íbúðar 177.273 kr. Þá vísar kærandi til þess að önnur íbúð í sama stigagangi hafi selst fyrir nokkrum mánuðum síðan á svipuðu verði. Kærandi bendir á að hún hafi ekki aðgang að umræddum kaupsamningum, en að hún hafi enga ástæðu til þess að véfengja þessar upplýsingar sem hún hafi fengið frá fyrri eigendum umræddra íbúða.

Þá segir kærandi að eftirtektarvert hafi verið hversu lauslega fasteignasalinn hafi skoðað umrædda íbúð í hennar eigu og bendir á að við umrædda skoðun hafi viðkomandi fasteignasali ekki spurst fyrir um ástand glugga, lagna eða þaks íbúðar.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að sjóðurinn hafi aflað verðmats í samræmi við 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Kærði vísar til svarbréfs Íbúðalánasjóðs, dags. 16. september 2011, en þar kom fram að áhvílandi veðskuldir séu undir 110% verðmæti eignarinnar þannig að ekki hafi komið til niðurfærslu. Íbúðalánasjóður telur ekki ástæðu til að bera brigður á verðmat það sem sjóðurinn óskaði eftir.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Í máli þessu er ágreiningur um verðmat íbúðar kærenda í tengslum við umsókn hennar um niðurfærslu lána Íbúðalánasjóðs sem hvíla á fasteign hennar. Kærandi telur verðmat fasteignar hennar ekki gefa rétt mat af raunvirði hennar. Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 kemur fram að við verðmat fasteigna samkvæmt ákvæðinu skuli miða við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem er hærra. Telji Íbúðalánasjóður skráð fasteignamat fyrir 2011 ekki gefa rétta mynd af verðmæti eignar skuli hann á eigin kostnað afla verðmats löggilts fasteignasala. Sama regla kemur fram í lið 1.3 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011.

Eins og fram hefur komið hefur við mat fasteignar kæranda verið byggt á mati löggilts fasteignasala sem aflað var af hálfu kærða svo sem heimilt er samkvæmt framangreindum reglum, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 um breytingu á lögum nr. 44/1998. Verður því að fallast á þá málsmeðferð sem viðhöfð var í máli kæranda þegar metið var verðmæti fasteignar kæranda, en samkvæmt framangreindu ákvæði 3. mgr. 1. gr. laganna hefur vottorði löggilts fasteignasala verið gefið aukið vægi við mat á fasteign umsækjenda um niðurfærslu lána. Hefur ekkert komið fram um að verðmatinu hafi verið áfátt, en fram kemur í gögnum málsins að það hafi verið byggt á skoðun fasteignarinnar, dags. 31. ágúst 2011.

Kærða ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum lögum og þar er ekki að finna undanþágur. Þar kemur skýrt fram að miða skuli við skráð fasteignamat eða markaðsverð fasteigna, hvort sem er hærra.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum laga nr. 29/2011 og lið 1.3 í 1. gr í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um synjun á endurútreikningi á lánum A, áhvílandi á fasteigninni að B, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta