Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 712/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. júlí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 712/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24020099

 

Kæra [...]

á ákvörðun

lögreglustjórans á Suðurnesjum

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 13. febrúar 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 3. febrúar 2024, um frávísun frá Íslandi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar), stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til Íslands með flugi frá Mílanó, Ítalíu, 3. febrúar 2024. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 3. febrúar 2024, var kæranda vísað frá landinu.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda hafi verið frávísað frá Íslandi á grundvelli c-, og d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Ákvörðuninni fylgdu þær viðbótarathugasemdir að kærandi hefði ekki sýnt fram á farmiða aftur til heimaríkis, ásamt tilvísunum til lagaákvæða. Í athugasemdum lögreglu, dags. 15. febrúar 2024, kemur fram að lögregla hafi haft afskipti af kæranda við hefðbundið eftirlit á Keflavíkurflugvelli. Þar hafi kærandi greint frá því að hann væri á Íslandi til að hitta systur sína. Hann hafi ekki verið með farmiða aftur frá landinu og hafði ekki ákveðið hversu lengi hann hygðist dvelja hér á landi. Kærandi hafi sýnt fram á [...] evrur og [...] krónur sem hann hafði meðferðis. Við skoðun á vegabréfi hans kom í ljós að frá 2022 hafi kærandi tvívegis dvalið of lengi á Schengen-svæðinu, fyrst frá 9. janúar til 9. október 2022, og síðan frá 3. febrúar til 26. október 2023. Í seinna skiptið hafi kærandi verið allan tímann á Íslandi og því í ólögmætri dvöl. Við komu til landsins 3. febrúar 2024 var það mat lögreglu að tilgangur komu kæranda væri ósannfærandi en auk þess var litið til fyrri hegðunar kæranda gagnvart dvalarheimild á Íslandi með hliðsjón af því að hann hefði ekki bókaðan farmiða úr landi. Var því tekin ákvörðun um að vísa kæranda frá landinu.

Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 13. febrúar 2024. Athugasemdir lögreglu vegna málsins voru lagðar fram 15. febrúar 2024. Í samræmi við 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga var kæranda skipaður talsmaður með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 22. febrúar 2024. Talsmaður kæranda lagði fram greinargerð 27. febrúar 2024. Frekari gögn frá kæranda voru lögð fram með tölvubréfi, dags. 25. júní 2024.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið til landsins til þess að dvelja í skamman tíma til að heimsækja systur sína og fjölskyldu hennar sem séu dvalarleyfishafar hér á landi. Fram kemur að við fyrstu umleitanir hafi lögregla talið að systir kæranda væri stödd hér á landi í ólögmætri dvöl og hugðist vísa kæranda frá á þeim forsendum að tilgangur dvalar hans væri ekki lögmætur, auk þess að kærandi hefði ekki brottfararmiða frá landinu. Honum hafi síðan verið birt ákvörðun um frávísun. Fram kemur að kærandi hafi óskað eftir því að mál hans yrði endurupptekið og lagði fram frekari gögn til staðfestingar á dvalarheimild systur hans, ásamt afriti af brottfararmiða.

Samkvæmt tölvubréfasamskiptum kæranda og lögreglu hafi systir kæranda verið eftirlýst og vísaði lögregla til þess að ef um gamla eftirlýsingu væri að ræða félli c-liðurinn niður en ákvörðuninni var engu að síður haldið til streitu á grundvelli þess að kærandi hefði ekki flugmiða til baka né næga fjármuni og því stæði ákvörðun um frávísun á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að lögregla hafi ekki staðið nægjanlega vel að rannsókn málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Tilgangur dvalar kæranda hér á landi hafi verið að heimsækja systur sína, sem sannarlega er handhafi dvalarleyfis, auk þess sem hann hafi lagt fram afrit af brottfararmiða, dags. 7. febrúar 2024. Að eigin sögn hafi kærandi fullnægjandi fjármuni til dvalar sinnar hér á landi, enda hafi legið fyrir að hann hygðist dvelja hjá systur sinni og hafði því nægt fé til framfærslu. Þrátt fyrir framangreint var kæranda synjað um inngöngu í landið með ákvörðun dags. 3. febrúar 2024, kl. 17:15.

Kærandi kveðst hafa gefið upp tilgang dvalar sinnar, sem sé lögmætur í skilningi ákvæðis c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga komi fram að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi ef hann geti ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn er upp fyrir dvölinni. Þá sé vísað til 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri sem tilgreini m.a. þau gögn sem landamæraverði sé heimilt að krefja útlending um til sönnunar á því að skilyrðum fyrir komu sé fullnægt og geti stutt frásögn útlendings um tilgang dvalar.

Í c-lið 3. mgr. 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri, er heimilt að krefjast tiltekinna gagna vegna ferðalaga af persónulegum ástæðum. Þar séu tiltekin gögn sem sýni fram á tryggt húsnæði, gögn sem staðfesti ferðaáætlun eða varpi ljósi á hana, ásamt gögnum varðandi heimferð. Kærandi byggir málatilbúnað sinn m.a. á því að hann hafi getað sýnt fram á öll fyrrgreind gögn vegna komu sinnar hingað til landsins og hafi hann þar af leiðandi uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Var lögreglu því ekki unnt að byggja frávísunarákvörðun á síðastnefndu lagaákvæði.

Þá framvísaði kærandi brottfararmiða, sem komið var á framfæri við lögreglu í síðasta lagi með tölvubréfi, dags. 3. febrúar 2024, kl. 22:18. Kærandi vísar til þess að jafnvel þó hann hafi ekki verið handhafi brottfararmiða við komu sína til landsins, hafi hann haft fjármuni til kaupa á slíkum miða og gat frávísun því ekki grundvallast á þeim forsendum einum. Að mati kæranda stæðist slík ákvörðun hvorki meðalhófsreglu né leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga, þar sem lögregla hefði í það minnsta getað leiðbeint kæranda um að hann þyrfti að eiga staðfestan brottfararmiða til að hljóta inngöngu í landið. Samkvæmt framansögðu byggir kærandi á því að hann hafi verið handhafi brottfararmiða og haft næga fjármuni fyrir fyrirhugaðri dvöl og því hafi hin kærða ákvörðun ekki getað grundvallast á d-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

Í öllu falli hefði lögregla átt að endurskoða ákvörðun sína í síðasta lagi eftir að framangreindum upplýsingum var komið á framfæri með tölvubréfi, enda hafi þá legið fyrir að kærandi uppfyllti öll skilyrði fyrir inngöngu í landið. Að mati kæranda hafi lögregla áttað sig á því að frávísun m.t.t. dvalar systur kæranda stæðist ekki skoðun og því hafi grundvelli ákvörðunarinnar verið breytt í stað þess að leiðrétta augljós mistök. Þar að auki vísar kærandi til þess að verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð í máli kæranda og þeim forsendum og rökstuðningi sem lagður væri til grundvallar hinni kærðu ákvörðun. Eigi það einkum við dvalarheimild systur kæranda, brottfararmiða, tryggt húsaskjól og fullnægjandi fjármuni. Þá vísar kærandi einnig til þess að lögregla hafi virt að vettugi leiðbeiningarskyldu, rannsóknarskyldu, andmælarétt kæranda sem og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Samkvæmt framangreindu telur kærandi hina kærðu ákvörðun hafa verið ólögmæta og er þess krafist að hún verði felld úr gildi.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda byggir á c-, og d-liðum 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017.

Í 106. gr. laga um útlendinga er kveðið á um frávísun við komu til landsins. Samkvæmt ákvæðinu er m.a. heimilt að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu þegar hann hefur ekki tilskilið leyfi til dvalar eða vinnu eða getur ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn er upp fyrir dvölinni, sbr. c-lið ákvæðisins, og þegar hann getur ekki sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar, sbr. d-lið ákvæðisins. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ákvæði c-liðar mæli fyrir um að heimilt sé að vísa útlendingi frá landi ef hann geti ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn sé upp fyrir dvölinni. Sé ákvæðið efnislega samhljóða c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 562/2006 um för fólks yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar). Þá er í greinargerðinni vísað til 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri nr. 866/2017. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. a. laga um útlendinga tekur lögreglustjóri ákvörðun um frávísun við komu til landsins samkvæmt a-j-liðum 1. mgr. 106. gr. laganna. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt XII. kafla laganna.

Með reglugerð nr. 866/2017 um för yfir landamæri voru innleidd ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/399 um setningu sambandsreglna um för fólks yfir landamæri (e. Schengen borders code) og tók reglugerðin við af áðurnefndri reglugerð nr. 562/2006. Í 5. gr. reglugerðar nr. 866/2017 er mælt fyrir um skilyrði fyrir komu útlendinga til landsins sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar. Kemur þar fram að útlendingur sem hvorki er EES- né EFTA-borgari, sem hyggst dvelja á Schengen-svæðinu, þ.m.t. Íslandi, í allt að 90 daga á 180 daga tímabili verði, auk þeirra skilyrða sem koma fram í 106. gr. laga um útlendinga, að uppfylla þau skilyrði sem fram koma í a-e-liðum ákvæðisins. Eru skilyrðin eftirfarandi: Að framvísa gildum, lögmætum og ófölsuðum ferðaskilríkjum eða öðru kennivottorði sem heimilar honum för yfir landamæri, sbr. viðauka 3. Ferðaskilríki skal vera gefið út á sl. 10 árum til þess að það teljist gilt og gildistími ferðaskilríkis vera í a.m.k. þrjá mánuði umfram brottfarardag, sbr. a-lið. Hafa gilda vegabréfsáritun sé hann ekki undanþeginn áritunarskyldu, nema hann hafi gilt dvalarleyfi eða gilda vegabréfsáritun til langs tíma, sbr. viðeigandi viðauka í reglugerð um vegabréfsáritanir, sbr. b-lið. Má ekki vera skráður í Schengen-upplýsingakerfið í þeim tilgangi að meina honum komu til landsins, sbr. c-lið. Má ekki vera talinn ógna þjóðaröryggi, allsherjarreglu, almannaheilsu eða alþjóðasamskiptum ríkisins eða annars Schengen-ríkis, sbr. d-lið. Loks þarf viðkomandi að geta fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar, og hafa nægt fé sér til framfærslu, á meðan dvöl stendur og vegna ferðar til upprunalands eða gegnumferðar til þriðja lands, eða vera í aðstöðu til að útvega sér slíkt fé á lögmætan hátt, sbr. e-lið. Við mat á því hvort útlendingur samkvæmt 1. mgr. teljist hafa nægileg fjárráð til dvalar hér á landi skuli meðal annars tekið mið af lengd og tilgangi dvalar og mat á fjárráðum megi byggja á reiðufé, ferðatékkum og greiðslukortum sem hann sé handhafi af.

Til sönnunar á að framangreindum skilyrðum 5. gr. reglugerðarinnar fyrir komu sé fullnægt sé landamæraverði m.a. heimilt að krefja útlending samkvæmt 1. mgr. um eftirfarandi gögn vegna ferðalaga af persónulegum ástæðum: Gögn sem sýna fram á tryggt húsnæði, t.d. boðsbréf frá gestgjafa eða önnur gögn sem sýna fram á hvar viðkomandi hyggst búa, gögn sem staðfesta ferðaáætlun, staðfesting bókunar á skipulagðri ferð eða önnur gögn sem varpa ljósi á fyrirhugaða ferðaáætlun og gögn varðandi heimferð, s.s. farmiða.

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi, sem ekki þarf vegabréfsáritun til landgöngu, heimilt að dveljast hér á landi í 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Kærandi er ríkisborgari Albaníu og þarf því ekki vegabréfsáritun til landgöngu hér á landi, enda sé hann handhafi vegabréfs með lífkennum.

Við mat á því hvort skilyrðum c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga sé fullnægt er líkt og áður greinir unnt að líta til 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri, með síðari breytingum, en ákvæðið mælir fyrir um ákveðin hlutlæg skilyrði sem lögreglu er heimilt að krefja þriðja ríkis borgara um á landamærunum. Fyrir liggur að kærandi sem ríkisborgari Albaníu má dvelja hér á landi í 90 daga á hverju 180 daga tímabili. Samkvæmt stimplum í vegabréfi kæranda kom hann inn á Schengen-svæðið 9. janúar 2022, en landamærastöðin er ólæsileg. Hann hafi yfirgefið svæðið að nýju 9. október 2022, þá í gegnum Fiumicino flugvöllinn í Róm. Kærandi hafi komið inn að nýju 3. febrúar 2023 í gegnum Malpensa flugvöll í Mílanó og yfirgefið svæðið aftur 26. október 2023 í gegnum sama flugvöll. Samkvæmt framansögðu hefur kærandi tvívegis dvalið lengur en honum er heimilt samkvæmt lögum, sbr. m.a. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. 

Við komu á Schengen-svæðið að nýju 2. febrúar 2024 hafði kærandi ekki átt bókaðan farmiða aftur út af svæðinu og að teknu tilliti til fyrri hegðunar kæranda lagði lögregla til grundvallar að hann hygðist dvelja of lengi að nýju. Samkvæmt gögnum málsins, m.a. upplýsingum frá lögmanni kæranda, hafi hann bókað sér farmiða eftir töku ákvörðunar um frávísun. Kærandi hafi þó ekki lagt fram sérstakar skýringar á því hvers vegna hann hafi ekki haft bókaðan farmiða við komu til landsins en ljóst er að farmiði hefur áhrif á mat á skilyrðum fyrir komu til landsins, sbr. m.a. 2. mgr., og iii-lið c-liðar 3. mgr. 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri. Í málinu koma einnig fram upplýsingar þess efnis að systir kæranda búi hér á landi og hafi honum staðið til boða að gista hjá henni. Af hinni kærðu ákvörðun má ráða að lögregla hafi ekki fundið að tilhögun kæranda um gistingu en óvissa hafi legið fyrir um dvalarheimild systur kæranda. Úr því hafi verið bætt á kærustigi, þar sem kærandi lagði fram afrit af dvalarleyfisskírteinum systur hans og maka.

Kærandi hefur tvívegis á árunum 2022 og 2023 dvalið á Schengen-svæðinu umfram löglega heimild. Í hvort skipti dvaldi kærandi í um níu mánuði, eða tæplega sex mánuðum lengur en honum er heimilt samkvæmt lögum, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Ekki hafa verið lagðar fram skýringar á því hvers vegna kærandi hafi ekki virt lögbundna dvalarheimild sína í umrædd skipti né hvernig hann hafi varið tíma sínum. Samkvæmt framangreindu telur kærunefnd réttmætt að lögregla hafi litið til þess að hann hafði ekki haft bókaðan farmiða úr landi að nýju að fyrirhugaðri dvöl lokinni. Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki getað leitt líkur að þeim tilgangi sem hann hafi gefið upp fyrir dvöl sinni hér á landi. Voru skilyrði til frávísunar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga því uppfyllt.

Hvað varðar frávísun kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga kemur fram í frumskýrslu, dags. 4. febrúar 2024, að kærandi hafi haft [...] evrur og [...] kr. í reiðufé. Samkvæmt því sem þegar hefur verið rakið verður lagt til grundvallar að kærandi hugðist gista hjá systur sinni en ekki sé ljóst hvenær kærandi hugðist fara af landi brott. Fram kemur í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri að við mat á nægilegum fjárráðum til dvalar hér á landi skuli m.a. tekið mið af lengd og tilgangi dvalar. Þar sem ekki verður slegið föstu um fyrirhugaða lengd dvalar leggur kærunefnd til grundvallar að fyrirhuguð dvöl kæranda miðist við lögbundið hámark, þ.e. 90 daga. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða kærunefndar að fjármunir kæranda hafi ekki verið nægjanlegir til framfærslu á meðan á dvöl hans hér á landi stæði.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun um frávísun kæranda á grundvelli c- og d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er staðfest.

The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta