Aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum kynntar
Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra og Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra kynntu í dag nýjan sáttmála um húsnæðismál með 14 aðgerðum til að bregðast við þeim vanda sem er á húsnæðismarkaði. Við sama tækifæri undirrituðu Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri viljayfirlýsingu ríkis og borgar um aukið framboð lóða.
Húsnæðissáttmálinn var unninn af aðgerðahópi fjögurra ráðherra og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem settur var á fót í febrúar síðastliðnum. Hópinn skipuðu ráðherrar félags- og húsnæðismála, umhverfis- og auðlindamála, fjármála- og efnahagsmála og sveitarstjórnarmála auk þriggja aðila frá samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Hópurinn mótaði tillögur að lausnum á þeim húsnæðisvanda sem er í landinu, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Aðgerðirnar sem settar eru fram í tillögum hópsins eru bæði almennar og sértækar og miða að því að:
-
koma í veg fyrir núverandi ástand á húsnæðismarkaði endurtaki sig,
-
leita leiða til að ná sem fyrst jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu,
-
fjölga leiðum til fjármögnunar á eigin húsnæði,
Aðgerðirnar verða reglulega endurskoðaðar og munu eftir atvikum taka breytingum til samræmis við aðstæður hverju sinni. Aðgerðirnar koma fram í fylgiskjali.