Nr. 57/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 7. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 57/2020
Í stjórnsýslumálum nr. KNU19120043 og KNU19120044
Kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar
Þann 18. desember 2019 barst kærunefnd útlendingamála kæra [...] (hér eftir A), f.h. [...], fd. [...], ríkisborgara Indlands (hér eftir B), og [...], fd. [...], ríkisborgara Indlands (hér eftir C), vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar, dags. 11. desember 2019, um að synja B og C um vegabréfsáritun til Íslands.
Í kæru kveðst A gæta hagsmuna B og C en hann lagði ekki fram sérstakt umboð þess efnis með fyrrgreindri stjórnsýslukæru. Þá liggur slíkt umboð ekki fyrir í gögnum málsins. Með tölvupósti kærunefndar útlendingamála til A, dags. 7. janúar 2020, var A leiðbeint um að leggja fram staðfestingu á því að hann hefði umboð til að annast hagsmunagæslu fyrir B og C. Kærunefnd ítrekaði þá beiðni með tölvupósti, dags. 22. janúar sl., en engin svör bárust frá A. Í fyrirliggjandi gögnum málsins liggur því ekki fyrir umboð frá B og C, til handa, A, sem sýnir fram á að A hafi heimild til þess að gæta hagsmuna B og C, í málinu. Ljóst er að A getur ekki talist aðili málsins enda hefur hann ekki lögmætra hagsmuna að gæta varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar, sem líkt og fyrr greinir snýr einungis að B og C. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu.
Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að vísa beri kæru þessari frá nefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá kærunefnd útlendingamála.
The appeal of the decision of the Directorate of Immigration is dismissed.
Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,
Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður