Styðja uppbyggingu sveitarfélaga á húsnæði fyrir fatlað fólk
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og formaður og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa undirritað viljayfirlýsingu um framlög úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna fasteigna í þágu fatlaðs fólks.
Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var komið á fót í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011. Sjóðurinn tók þá yfir fasteignir í eigu ríkisins sem nýttar höfðu verið í þjónustu við fatlað fólk og hefur hlutverk hans verið að tryggja sem jafnasta aðstöðu sveitarfélaga með því að leigja eða selja þeim fasteignirnar til slíkra afnota.
Samkvæmt viljayfirlýsingunni verður fasteignasjóðnum nú falið varanlegt hlutverk til jöfnunar á aðstöðu sveitarfélaga á þessu sviði með greiðslu framlaga til uppbyggingar fasteigna sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk með miklar og sértækar stuðningsþarfir.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mun í upphafi þings í haust leggja fram frumvarp til laga sem felur í sér nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að styðja breytt hlutverk fasteignasjóðsins. Kemur fram í viljayfirlýsingunni að nái lagabreytingarnar fram að ganga muni fasteignasjóður veita allt að 325 milljónum króna til verkefna á þessu sviði þegar á þessu ári.
Eru aðilar sammála um það að framangreindar breytingar feli í sér mikilvægan stuðning við uppbyggingu sveitarfélaga á húsnæði í þjónustu við fatlað fólk og muni hafa mjög jákvæð áhrif á þessu sviði.