Mál nr. 1/1996
Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 1/1996
A
gegn
Kvennaskólanum í Reykjavík
Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 16. ágúst 1996 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
MÁLAVEXTIR
Með kæru dags. 4. janúar 1996 fór A, framhaldsskólakennari og náttúrufræðingur, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík hefði með ráðningu B og C í starf líffræðikennara við skólann brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Kvennaskólanum í Reykjavík um:
- Afstöðu skólans til erindisins.
- Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um starfið.
- Menntun og starfsreynslu þeirra sem ráðnir voru ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda þeir hefðu til að bera, sbr. 8. gr. jafnréttislaga.
Svarbréf skólastjóra Kvennaskólans er dags. 15. febrúar 1996. bréfi dags. 22. febrúar 1996 sendi kærandi athugasemdir sínar við bréf skólastjóra til kærunefndar.
Kærandi málsins, A og D, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, komu á fund kærunefndar þann 21. júní 1996.
Starf líffræðikennara við Kvennaskólann í Reykjavík var auglýst í nóvember 1995.
Umsækjendur um starfið voru sjö, tvær konur og fimm karlar. Skólanefnd Kvennaskólans réði tvo karla til starfsins. Hvorugur þeirra hafði tilskilin kennsluréttindi og var því leitað til undanþágunefndar framhaldsskóla til að fá að ráða þá til líffræðikennslu á vorönn 1995. Þeirri beiðni var synjað með bréfi formanns nefndarinnar dags. 18. desember 1995. Málið fór öðru sinni til undanþágunefndar sem klofnaði í afstöðu sinni og fór málið þá til úrskurðar menntamálaráðherra í samræmi við 5. mgr. 14. gr. 1. 48/1986. Með bréfi dags. 4. janúar 1996 veitti hann skólanefnd heimild til að ráða þá B og C til líffræðikennslu við skólann í barnsburðarleyfi fastráðins kennara.
Kærandi málsins, A, lauk námi í líffræði og örverufræði frá Háskóla Íslands árið 1985 og M.Sc. prófi í matvælaörverufræði árið 1989 frá Readingháskóla í Bretlandi. Auk þess lauk hún námi í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands árið 1994 og fékk leyfi menntamálaráðherra til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari í desember 1995. A starfaði hjá Hollustuvernd ríkisins frá 1983-1993, fyrst með námi og síðan sem sérfræðingur.
B lauk Cand. Mag. prófi frá háskólanum í Bergen árið 1988 í líffræði og efnafræði og stundaði nám í uppeldis- og kennslufræðum árið 1994 en hefur ekki lokið námi. Hann hefur sótt námskeið í námsgagnagerð. Hann starfaði sem líffræðingur við eldi sjávarfiska í Noregi og að náttúrufræðilegum athugunum á Íslandi árið 1993.
C lauk B.Sc. prófi í líffræði og sameindalíffræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og Maitrise prófi í lífeðlisfræði og taugalífeðlisfræði/atferlisfræði við háskóla Paul Sabatier í Toulouse. Þá hefur hann lokið prófi í Leiðsögumannaskólanum og námskeiði í gerð heimildakvikmynda á Iðntæknistofnun. C var fræðslufulltrúi í húsdýragarðinum frá 1991-1993. Þá hefur hann starfað sem leiðsögumaður öll sumur frá árinu 1987.
Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi verið boðuð í viðtal þann 29. nóvember s.l. við aðstoðarskólameistara og deildarstjóra. Á þeim fundi hafi komið fram að hún væri eini umsækjandinn sem hefði kennsluréttindi við framhaldsskóla. Engu að síður hafi henni verið hafnað og til starfsins ráðnir réttindalausir karlmenn enda þótt fyrir hafi legið synjun undanþágunefndar á ósk Kvennaskólans um heimild til að ráða þá. Hafi hún mótmælt þessari ákvörðun við skólameistara símleiðis. Þá hafi hún verið boðuð á fund skólameistara og formanns skólanefndar þann 19. desember 1995 þar sem þau hafi óskað eftir því að hún drægi umsókn sína til baka en því hafi hún neitað. Í viðtali við kærunefnd lagði kærandi áherslu á að hún hefði aflað sér fullra réttinda til kennslu í framhaldsskóla. Þá telji hún ráðninguna vera brot á 6. gr. jafnréttislaga.
Í greinargerð skólameistara Kvennaskólans segir að enginn vafi sé á því að A hafi ein umsækjenda haft öll tilskilin réttindi til starfsins enda hafi hún verið boðuð fyrst í viðtal Að viðtalinu loknu hafi þótt rétt að leita frekari upplýsinga um starfsferil hennar og æfingakennslu. Þær upplýsingar hafi verið á þann veg að hann hafi ekki treyst sér til að mæla með ráðningu hennar við skólanefnd og hún hafi ekki notið stuðnings neins nefndarmanna. D lagði áherslu á að hann efaðist ekki um faglega þekkingu kæranda en við mat á hæfni til kennslu væri jafnframt nauðsynlegt að horfa til ýmissa annarra þátta. Miklu máli skipti að kennari hefði til að bera myndugleika og öryggi í framkomu ekki síst þegar tekið væri við starfi á miðjum vetri í forföllum afburða kennara. Hann lagði áherslu á að persónuleg samskipti væru ríkur þáttur í kennslustörfum og nauðsynlegt væri að kennari gæti tekið þátt í að leysa þau samskiptavandamál er upp kynnu að koma. Það hefði verið mat sitt eftir tvö viðtöl við kæranda að hún byggi ekki yfir þeim eiginleikum sem nauðsynlegir væru og þær upplýsingar sem hann hefði aflað um hana hefðu stutt það mat sitt. Vísaði hann sérstaklega til upplýsinga frá æfingakennara A, sem kærunefnd fékk staðfestar.
NIÐURSTAÐA
Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.
Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.
Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.
Í máli því sem hér er til umfjöllunar er óumdeilt að A hafði ein umsækjenda tilskilin réttindi til kennslu í framhaldsskóla og hafi haft mesta menntun. Skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík taldi hana hins vegar skorta ýmsa nauðsynlega eiginleika til starfsins og staðhæfir að kynferði hafi þar engu um ráðið. Kærunefnd fellst á að slík huglæg atriði geti komið til skoðunar við mat á hæfni einstaklinga til að gegna starfi enda séu þau studd viðhlítandi gögnum. Með hliðsjón af því sem fram hefur komið í málinu fellst kærunefnd á að mat skólameistara eigi við rök að styðjast og að Kvennaskólinn í Reykjavík hafi sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar við ráðningu í starfið.
Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í máli þessu er að skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík hafi með ráðningu í starf líffræðikennara ekki brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991.
Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon