Mál nr. 4/1996
Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 4/1996:
Beiðni Sýslumannsins í Keflavík um endurupptöku máls nr. 10/1994:
A
gegn
Sýslumanninum í Keflavík
Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 16. ágúst 1996 var samþykkt eftirfarandi niðurstaða í máli þessu:
Með bréfi dags. 14. maí 1996 óskaði Sýslumaðurinn í Keflavík eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún tæki til skoðunar á ný mál kærunefndar jafnréttismála nr. 10/1994: A gegn Sýslumanninum í Keflavík og breytti áliti sínu frá 7. apríl 1995 á kæruatriðum 1 og 3. Jafnframt var óskað breytingar á tiltekinni setningu í álitsgerðinni og endurskoðunar á málinu í heild með vísun til dóms Evrópudómstólsins frá október 1995.
Málavextir.
Með bréfi dags. 21. ágúst 1994 fór A lögreglumaður, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála, að hún kannaði og tæki afstöðu til þess, hvort synjun Sýslumannsins í Keflavík á umsóknum hennar um fastráðningu, annars vegar í stöðu lögreglumanns (kæruatriði 1) og hins vegar í stöðu rannsóknarlögreglumanns við embættið (kæruatriði 2), bryti á bága við 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá óskaði hún einnig eftir áliti nefndarinnar á því hvort jafnréttislög hefðu verið brotin þegar hún leitaði eftir afleysingastöðu lögreglumanns við embættið haustið 1993 en var synjað og boðið starf við ræstingar samtímis því sem karlkyns lögreglumanni var boðin afleysingastaðan (kæruatriði 3).
Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála var að embætti Sýslumannsins í Keflavík hefði brotið ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að því er varðaði kæruatriði 1 og 3.
Með bréfum dags. 18. júlí og 30. ágúst 1995 lagði Sýslumaðurinn í Keflavík fram stjórnsýslukærur til félagsmálaráðuneytisins vegna álits kærunefndar. Með bréfi dags. 3. maí 1996 vísaði félagsmálaráðuneytið erindinu frá á þeirri forsendu að kærunefnd væri sjálfstæð stjórnsýslunefnd.
Kæruatriði 1: Ráðning í störf tveggja lögreglumanna hjá embætti Sýslumannsins í Keflavík sumarið 1994.
Beiðni Sýslumannsins í Keflavík um endurupptöku byggir á því að samkvæmt 3. tl. 1. gr. reglugerðar um veitingu lögreglustarfs, lögregluskóla o.fl. nr. 660/1981 skuli umsækjendur hafa lokið grunnskóla og tveggja ára almennu námi í framhaldsskóla eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri. Í gögnum þeim sem sýslumaður sendi kærunefnd með beiðni um endurupptöku málsins kemur fram að báðir karlarnir hafi haft meiri menntun en A annar lokið stúdentsprófi en hinn sveinsprófi í húsasmíði. Þeir hafi því uppfyllt skilyrði framangreindrar reglugerðar en A ekki. Hún hafi verið ráðin í starf lögreglumanns á sínum tíma á grundvelli undanþáguákvæðis 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Þeir sem ráðnir voru hafi því verið hæfari en hún og ráðningarnar því ekki brotið í bága við ákvæði jafnréttislaga.
Í áliti kærunefndar jafnréttismála frá 7. apríl 1995 var rakinn aðdragandi þess að A leitaði til nefndarinnar en hún taldi að sér hefði verið hafnað í starf lögreglumanns hjá embættinu vegna kynferðis. Í álitsgerðinni kom fram að haustið 1992 hefðu losnað tvær stöður hjá embættinu. Þær hefðu ekki verið auglýstar þá en tveir karlar sem þá störfuðu tímabundið hjá embættinu verið sendir í Lögregluskóla ríkisins. Lausu störfin hafi ekki verið auglýst fyrr en vorið 1994 og þeir þá ráðnir.
Starfsferli A var lýst svo að hún hefði hinn 1. október 1986 hafið störf hjá lögreglunni í Keflavík, lokið námi frá Lögregluskóla ríkisins í maí 1989 og verið fastráðin hjá embættinu frá 1. júlí sama ár. Hún hafi sagt stöðu sinni lausri haustið 1991 í framhaldi af barnsburðarleyfi en unnið við afleysingar eftir það. Starfsaldur hennar hafi verið 76 mánuðir en karlanna 44 og 36 mánuðir.
Um menntun sagði í álitsgerðinni að annar karlanna hefði lokið námi í húsasmíði en að hinn stundaði nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. A hefði lokið landsprófi. Þar sem stöðurnar hefðu ekki verið auglýstar þegar þær losnuðu á árinu 1992, hefðu ekki legið fyrir upplýsingar um hvort þá væri völ umsækjenda sem lokið hefðu réttindanámi. A fullyrti að hún hefði þá þegar óskað eftir föstu starfi hjá embættinu. Af hálfu embættisins var því hins vegar haldið fram að engum lögregluskólagengnum mönnum hefði verið til að dreifa.
Rök kærunefndar jafnréttismála fyrir því áliti sínu að ráðningarnar brytu gegn ákvæðum jafnréttislaga, byggðu á því að þau hefðu öll lokið námi frá Lögregluskóla ríkisins og því öll verið hæf. Jafnframt hefði starfsaldur A verið umtalsvert lengri en þeirra karla er stöðurnar hlutu og engin kona verið fastráðinn lögreglumaður við embættið. Þá hefði hæfni A til að gegna starfi lögreglumanns ekki verið dregin í efa.
Kæruatriði 3: Ráðning í afleysingastöðu lögreglumanns hjá embætti Sýslumannsins í Keflavík haustið 1993.
Beiðni embættisins um endurupptöku byggir á því að í þeim gögnum sem það sendi kærunefnd við meðferð málsins hefði komið fram að karlinn hefði lokið þremur önnum á málaraiðnbraut Iðnskólans á Ísafirði og tveimur önnum á íþróttabraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann hefði því haft meiri menntun en hún.
Í álitsgerð kærunefndar kom fram að A hefði óskað afstöðu kærunefndar jafnréttismála til þess hvort ákvæði jafnréttislaga hefðu verið brotin haustið 1993 þegar hún og samstarfsmaður hennar, karl, sem bæði höfðu verið á tímabundnum ráðningasamningum sem voru að renna út, hefðu óskað eftir afleysingastöðu lögreglumanns hjá embættinu. Karlinum hefði verið veitt staðan en A boðið afleysingastarf við ræstingar. Starfsaldur hennar var lengri en hans og bæði höfðu lokið námi frá Lögregluskóla ríkisins.
Niðurstaða kærunefndar var að ákvæði jafnréttislaga hefðu verið brotin.
Dómur Evrópudómsins í málinu nr. C-450/93 frá 17. október 1995.
Í erindi sýslumanns til kærunefndar er þess jafnframt „sérstaklega óskað að nefndin skoði málið í ljósi dóms Evrópudómstólsins frá því í október 1995“ eins og þar segir orðrétt. Erindinu fylgir ljósrit af grein í Morgunblaðinu frá því í október 1995 þar sem fjallað er um dóm Evrópudómstólsins í málinu nr. C-450/93 en hann byggir á tilskipun 76/207 EBE.
Dómur þessi var kveðinn upp eftir að niðurstaða kærunefndar lá fyrir.
Beiðni um leiðréttingu á orðalagi í álitsgerð kærunefndar.
Að lokum óskar sýslumaður að strikuð verði út eða leiðrétt eftirfarandi setning í áliti kærunefndar: „Aðspurður hvort auglýsingin í júní 1994 hefði þá verið til málamynda, játti hann því“. Endurriti af viðtali verði jafnframt breytt til samræmis þessu.
Sýslumaður vísar til hljóðupptöku frá viðtali við C, yfirlögregluþjón, þar sem sagði:
Kærunefnd: Þannig að auglýsingin er bara til málamynda?
C: Já auglýsingin er til þess að sýslumaðurinn uppfylli sínar skyldur að auglýsa stöður.
Sýslumaður mótmælir þeirri túlkun kærunefndar að hér sé verið að játa að um málamyndaauglýsingu hafi verið að ræða. Í bréfi hans til kærunefndar segir m.a. „… þjálfaður ritari hefði getað greint og ritað setninguna rétta svona: Auglýsingin var til þess að sýslumaður ... o.s.frv.“
Afstaða kærunefndar jafnréttismála.
Um endurupptöku stjórnsýsluákvörðunar er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir:
Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:
-
ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
- íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin.
Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim, sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.
Erindi sýslumanns til kærunefndar jafnréttismála er dags. 14. maí 1996 og því meira en ár liðið frá því að embættinu var tilkynnt um álitið, sem var póstlagt 3. maí 1995. Ekki verður litið svo á að stjórnsýslukærur embættisins til félagsmálaráðuneytisins dags. 18. júlí og 30. ágúst 1995, hafi falið í sér eða teljist jafngilda beiðni um endurupptöku málsins hjá kærunefnd jafnréttismála. Frestur skv. 24. gr. stjórnsýslulaga var því liðinn. Ber því að líta til þess hvort 1. mgr. 24. gr. eigi við og hvort veigamiklar ástæður mæli með því að málið sé tekið upp að nýju, sbr. niðurlagsákvæði 2. mgr.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald taka upp mál innan tilskilinna tímamarka, sbr. 2. mgr., hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.
Við meðferð málsins hjá kærunefnd lágu fyrir þær upplýsingar frá embætti sýslumanns, að einn umsækjandi stundaði nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Nú hefur sýslumaður upplýst að umræddur umsækjandi hafði þá þegar lokið stúdentsprófi. Um aðrar nýjar upplýsingar er ekki að ræða.
Samkvæmt gögnum málsins fékk A inngöngu í Lögregluskóla ríkisins og lauk þaðan prófi. Hún uppfyllti því öll skilyrði til þess að fá fasta stöðu lögreglumanns, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 56/1972 um lögreglumenn. Breytir engu þar um þótt innganga hennar í Lögregluskóla ríkisins hafi byggst á undanþáguákvæði 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 660/1981. Álit kærunefndar frá 7. apríl 1995 byggði fyrst og fremst á því að A hafði umtalsvert lengri starfsaldur auk þess sem engin kona var þá í föstu starfi lögreglumanns við embættið. Þykja þær upplýsingar, sem embættið byggir beiðni sína um endurupptöku á, ekki það veigamiklar að ástæða þyki til endurupptöku málsins, sbr. niðurlagsákvæði 2. mgr. 24. gr. 1. 37/1993.
Þar sem kærunefnd jafnréttismála er einungis álitsgefandi stjórnsýslunefnd á 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga ekki við.
Sýslumaður óskar ennfremur eftir endurupptöku málsins í ljósi dóms Evrópudómstólsins frá október 1995; máli Evrópudómstólsins nr. C - 450/93: Eckhard Kalanke gegn Freie Hansestadt Bremen. Í málinu vísar Vinnumáladómstóll Þýska Sambandsríkisins spurningu til Evrópudómstólsins um túlkun á 1. og 4. mgr. 2. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 76/207/EBE, sem oft er nefnd jafnréttistilskipun ESB.
1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar hljóðar svo:
Í eftirfarandi ákvæðum skal það felast í meginreglunni um jafnrétti að óheimilt sé að mismuna einstaklingum vegna kynferðis þeirra, hvort heldur beint eða óbeint, einkum með tilvísun til hjúskapar- og fjölskyldustöðu.
4. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar hljóðar svo:
Tilskipun þessi kemur ekki í veg fyrir ráðstafanir sem ætlað er að stuðla að því að karlar og konur hafi sömu tækifæri, einkum með því að afnema það misrétti sem er nú við lýði og hefur áhrif á tækifæri kvenna á þeim sviðum sem um getur í 1. tölul. 1. gr.
Dómstólinn var spurður álits á því hvort ákvæði í jafnréttislögum Brimaborgar (Bremen) um stöðuhækkanir gangi lengra framangreindum ákvæðum jafnréttistilskipunar ESB. Samkvæmt lögum Brimaborgar skyldu konur hafa forgang til stöðuhækkana þegar um væri að ræða jafnhæfa umsækjendur af gagnstæðu kyni, að því tilskildu að þær væru í minnihluta. Samkvæmt lögunum töldust konur í minnihluta væru þær færri en helmingur starfsmanna í tilteknum launahópi hjá viðkomandi deild eða innan starfsgreinar samkvæmt skipuriti stofnunar.
Niðurstaða dómstólsins var sú að lög eða reglur aðildarríkis, sem tryggðu konum algjöran og skilyrðislausan forgang umfram karla til starfs eða stöðuhækkunar, fælu í sér ráðstafanir sem gengju lengra en rúmaðist innan ákvæðis 4. mgr. 2. gr. jafnréttistilskipunarinnar og væru því andstæðar 1. mgr. og 4. mgr. 2. gr. hennar.
Kærunefnd jafnréttismála lítur svo á að þegar tveir umsækjendur af gagnstæðu kyni teljast jafnhæfir til að gegna starfi, skuli atvinnurekandi ráða það kynið sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Sú túlkun byggir á ákvæðum 1. og 5. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. dóm Hæstaréttar 1993 bls. 2230 í málinu nr. 339/1990. Það er álit kærunefndar að þessi túlkun sé í samræmi við 69. gr. EES - samningsins.
Sýslumaður óskar breytinga á tiltekinni setningu í áliti kærunefndar jafnréttismála frá 7. apríl 1995, sbr. bls. 3 hér að framan. Kærunefnd telur öll gögn málsins þ.m.t. hin tilgreindu orð yfirlögregluþjónsins benda til þess að þegar tvö störf lögreglumanna losnuðu hjá embætti Sýslumannsins í Keflavík árið 1992 hafi verið ákveðið að senda tvo lausráðna starfsmenn í Lögregluskóla ríkisins og auglýsa störfin þá fyrst er þeir hefðu lokið þaðan námi tveimur árum síðar. Engar formlegar athuganir hafi farið fram á því hvort völ væri hæfra umsækjenda þegar störfin losnuðu. Ljóst sé því að auglýsingin hafi verið til að uppfylla lagaskyldu. Það er álit kærunefndar að þegar vinnuveitandi hefur þegar ákveðið hvern skuli ráða áður en auglýst er, sé um málamyndaauglýsingu að ræða.
Þessi afstaða nefndarinnar styðst einnig við bréf sýslumanns til kærunefndar dags. 19. september 1994, málsskj. merkt 3.0 en þar segir:
„Þann 1. júní 1992 hætti lögreglumaður störfum og engum skólagengnum mönnum var til að dreifa og var því R. ráðinn til reynslu, … Þann 1. ágúst 1992 hætti lögreglumaður störfum og engum skólagengnum mönnum til að dreifa og var því A. ráðinn til reynslu … Bæði R. og A. höfðu starfað við afleysingar um nokkurn tíma. Lögum samkvæmt fóru þeir í lögregluskólann og stöðum haldið lausum svo sem lög gera ráð fyrir. Þegar þeir höfðu lokið skólagöngu sinni voru störf þeirra auglýst og þeir síðan ráðnir. Ekki verður séð að hægt hefði verið að fara öðruvísi að eins og lögum um lögreglumenn er háttað.“
Þrátt fyrir þessa afstöðu kærunefndar er hún reiðubúin að mæla með því að við útgáfu safns álitsgerða nefndarinnar verði vakin athygli á því - með vísan til þessa máls - að því hafi verið mótmælt, að yfirlögregluþjóninn hafi með orðum sínum verið að samþykkja þessa túlkun. En þegar útsendri álitsgerð verður að sjálfsögðu ekki breytt.
Niðurstaða
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur kærunefnd jafnréttismála ekki liggja fyrir þær ástæður sem tilgreindar eru í 1. mgr., sbr. niðurlagsákvæði 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem mæli með því að mál nr. 10/1994: A gegn Sýslumannsembættinu í Keflavík: verði endurupptekið. Nefndin telur að dómur Evrópudómstólsins í málinu nr. C-450/93 breyti engu þar um. Þá er það álit nefndarinnar að ekkert hafi komið fram sem hnekki þeirri ályktun að umrædd auglýsing hafi verið til málamynda.
Beiðni Sýslumannsins í Keflavík um endurupptöku máls nr. 10/1994: A gegn Sýslumanninum í Keflavík er hafnað.
Sigurður Tómas Magnússon vék sæti í máli þessu og tók varamaður hans, Andri Árnason, hrl. sæti í nefndinni.
Ragnhildur Benediktsdóttir
Andri Árnason
Margrét Heinreksdóttir