Reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda
Innanríkisráðherra hefur gefið út reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda. Reglurnar eru settar á grundvelli samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 13. maí sl. um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms.
Samkomulagið gildir frá 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013. Samkvæmt því greiðir ríkissjóður á ársgrundvelli 480 milljónir króna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem annast úthlutanir framlaga til sveitarfélaga. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríki sem nema 230 milljónum króna á ársgrundvelli.
Drög að reglunum voru birt á vef ráðuneytisins 18. júlí síðastliðinn og gefinn var frestur til 29. júlí til að koma athugasemdum á framfæri við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Góðar athugasemdir bárust sem leitast var við að taka tillit til við lokagerð reglnanna.
Samkvæmt bráðabirgðaákvæði reglnanna nr. 1 ber sveitarfélögum að skila umsóknum vegna skólaársins 2011 – 2012 til Jöfnunarsjóðs eigi síðar en 30. september næstkomandi. Skulu þær byggðar á upplýsingum frá tónlistarskólum um endanlega nemendaskrá skólaársins.
Sveitarfélögum mun berast bréf með verklagsreglum þar að lútandi eftir helgi.
- Reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda.
- Samkomulag um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms.