Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2007 Utanríkisráðuneytið

Undirritun samnings um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 014

Á fundi sínum í Reykjavík í dag undirrituðu Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra og Jóannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja, samning milli Íslands annars vegar og Danmerkur og Færeyja hins vegar um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja. Áður hafði Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, undirritað samninginn. Þar með er lokið með formlegum hætti afmörkun efnahagslögsögu Íslands gagnvart lögsögu nágrannalandanna, en áður hafði verið gengið frá afmörkun efnahagslögsögunnar gagnvart lögsögu Jan Mayen, Grænlands og Bretlands.

Við útfærslu efnahagslögsögunnar í 200 sjómílur árið 1975 ákváðu íslensk stjórnvöld m.a. að nota klettinn Hvalbak sem viðmiðunarpunkt við ákvörðun miðlínu milli Íslands og Færeyja. Dönsk stjórnvöld gerðu fyrirvara við þessa ákvörðun fyrir hönd Færeyja og ákvörðuðu miðlínuna miðað við grunnlínur landanna án tillits til Hvalbaks. Þar með varð til umdeild hafsvæði milli Íslands og Færeyja, um 3.700 km² að stærð.

Samkomulag náðist um afmörkun hins umdeilda hafsvæðis í Þórshöfn 25. september 2002 á fundi Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra, og Anfinns Kallsberg, þáverandi lögmanns Færeyja, í kjölfar samningaviðræðna embættismanna landanna. Í samkomulaginu fólst að nyrðri hluti umdeilda svæðisins, sem liggur norðan 63° 30´ og nemur um tveimur þriðju hlutum af svæðinu í heild, skiptist þannig milli aðila að Ísland fengi 60% í sinn hlut en Færeyjar 40%. Syðsti hluti umdeilda svæðisins, sem liggur sunnan 63° 30´ og nemur um þriðjungi af svæðinu í heild, skiptist hins vegar jafnt á milli aðila. Vegna sérstakra aðstæðna á syðsta hluta svæðisins var um það samið að aðilar heimiluðu fiskiskipum hvors annars veiðar á sínum hluta svæðisins og varð því í raun um sameiginlegt veiðisvæði landanna tveggja að ræða. Á þessum hluta svæðisins er að finna rækjuhóla sem hvorki er að finna í næsta nágrenni til vesturs né austurs og hefði það gert fiskiskipum beggja aðila erfitt fyrir að stunda rækjuveiðarnar ef aðgangur þeirra að svæðinu hefði verið takmarkaður.

Ákveðið var að gengið yrði frá formlegum afmörkunarsamningi, sem myndi ná til allrar lögsögulínunnar milli Íslands og Færeyja þegar tæknilegri endurskoðun á grunnlínupunktum hvors lands um sig væri lokið. Hinni tæknilegu endurskoðun lauk nýverið og í kjölfarið náðist samkomulag um texta hins formlega afmörkunarsamnings sem undirritaður var í dag.

Meðfylgjandi mynd sýnir endanlega markalínu milli Íslands og Færeyja og hvernig hið umdeilda svæði skiptist milli landanna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta