Fjárfesting í menntun forgangsatriði
Fjarfundir, fjarkennsla, sóttkví og sóttvarnarhólf. Heimshorna á milli hefur fólk þurft að venjast því að þetta sé hluti af daglegri rútínu. Allur heimurinn stendur frammi fyrir sameiginlegri áskorun, en það hversu alvarlegar afleiðingar kórónaveirufaraldurinn hefur á lífsgæði er verulega misskipt milli heimshluta og innan samfélaga.
Á meðan ekkert land er undanskilið áföllum af völdum veirunnar þá eru þeir hópar sem voru í viðkvæmri stöðu fyrir óneitanlega í meiri hættu, sér í lagi jaðarsett börn og konur í efnaminni ríkjum og á átaka- og hamfarasvæðum. Þær ógnir sem steðja að sjást meðal annars í röskun á reglubundnum bólusetningum barna, vaxandi fátækt, lokunum skóla og aukningu á tilkynningum vegna ofbeldis og vanrækslu. Ef ekki er brugðist við er hætta á að sá árangur sem náðst hefur með alþjóðlegri þróunarsamvinnu síðustu áratugi sé í húfi.
Í síðustu viku hófst átakið Þróunarsamvinna ber ávöxt með sýningu myndarinnar Stóra myndin: Covid og heimsbyggðin á RÚV. Þar er kastljósinu sérstaklega beint að félagslegum og efnahagslegum áhrifum faraldursins, hættunni á auknum ójöfnuði og því bakslagi sem hefur nú skapast. Skoðum sem dæmi réttindi barna til menntunar. Um aldamótin nutu um 100 milljónir barna ekki grunnmenntunar. Árið 2019 hafði sú tala lækkað um nánast helming. Þrátt fyrir að það séu enn alltof mörg börn utan skóla þá er þetta mikill árangur. Með samvinnu og aukinni fjárfestingu í menntamálum var hægt að tryggja betra aðgengi að námi og auka gæði menntunar fyrir milljónir barna. Síðan kom Covid.
Þegar skólar þurftu að loka til að hefta útbreiðslu veirunnar síðastliðið vor hafði það áhrif á 90 prósent skólabarna í heiminum með einum eða öðrum hætti. Það er um 1,5 milljarður barna í um 190 löndum. Að minnsta kosti þriðjungur þessara barna gat ekki stundað fjarnám þegar skólarnir þeirra lokuðu því að þau höfðu ekki tólin, tækin eða tenginguna sem þurfti til. Fjarkennsla eða heimanám var einfaldlega ekki í boði.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur varað við því að kórónaveiran geti valdið óafturkræfum skaða í menntamálum með alvarlegum keðjuverkandi afleiðingum fyrir samfélög um allan heim. Menntun er öflugasta vopnið gegn fátækt. Menntun stuðlar að lækkun barnadauða og er mikilvæg til að ná jafnrétti kynjanna. Fyrir mörg börn er skólinn griðarstaður sem getur hjálpað þeim að komast yfir sálræn áföll, komið í veg fyrir að stúlkur séu gefnar barnungar í hjónaband eða að börn séu neydd til að vinna. Auk þess eru skólamáltíðarnar oft næringarríkasta máltíðin sem börn fá þann daginn. Það þarf því ekki að velkjast í vafa um hversu neikvæð áhrif langvarandi lokun skóla getur haft á börn, ungmenni og samfélög í heild.
Því lengur sem röskun er á skólastarfi og engin önnur tækifæri bjóðast til menntunar, því meiri hætta er á að börn flosni alveg upp úr námi. Annað ár faraldursins er hafið og þó svo að hlutfall barna sem búa við lokanir skóla í heiminum hafi lækkað þá óttast UNICEF að tala barna utan skóla muni aukast um 24 milljónir vegna farsóttarinnar.
Án aukinnar fjárfestingar í menntamálum náum við ekki heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um menntun fyrir alla. Nú er ekki rétti tíminn til að skera niður framlög til þróunarsamvinnu. Nú þarf að gefa í og nálgast þennan breytta veruleika með skapandi lausnum sem skilja engan eftir. Leggja þarf áherslu á að brúa stafræna bilið og efla leiðir til fjarkennslu fyrir þau hundruð milljóna barna sem hafa ekki þau tól og tæki sem þarf til að læra heima hjá sér. Ríki þurfa að forgangsraða opnun skóla þegar mögulegt er að létta á sóttvarnaraðgerðum og að bólusetja kennara eins og annað framlínustarfsfólk. Öll börn eiga rétt á góðri grunnmenntun og með alþjóðlegri samvinnu og þátttöku almennings og einkageirans er hægt að takast á við þessa áskorun. Þetta er risastórt verkefni en einnig fjárfesting sem mun skila sér margfalt til baka.
Höfundur er kynningarstjóri UNICEF á Íslandi.
Greinin er skrifuð í tilefni af fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum allra helstu íslenskra félagasamtaka í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu, í samstarfi við utanríkisráðuneyti.