Hoppa yfir valmynd
9. mars 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Nýr þjóðskjalavörður tekur við

Dr. Hrefna Róbertsdóttir hefur verið skipuð í embætti þjóðskjalavarðar. Þjóðskjalasafn Íslands geymir stærsta safn frumheimilda um sögu og þróun byggðar og mannlífs í landinu og er þess vegna sá grunnur sem rannsóknir, stjórnsýsla og mannréttindi hér á landi byggja á. Þjóðskjalasafn Íslands gegnir hlutverki sem framkvæmdaraðili opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar auk þess að vera opinbert skjalasafn.

Hrefna lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskólanum í Lundi árið 2008. Hún var áður sviðsstjóri á Þjóðskjalasafni Íslands, fyrst á skjalasviði og síðar varðveislu- og miðlunarsviði. Áður starfaði Hrefna hjá Þjóðminjasafni Íslands sem sviðsstjóri rannsókna- og varðveislusviðs, sem forstöðumaður Árbæjarsafns og settur borgarminjavörður og kennari við sagnfræðideild Háskóla Íslands.

Hrefna hefur komið að ritstjórn og útgáfu fjölmargra ritverka og sinnt margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum. Hún hefur meðal annars setið í framkvæmdastjórn Þjóðskjalasafnsins frá árinu 2009 og verið fulltrúi safnsins í Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga og hjá samráðshópi opinberra skjalasafna. Hún er núverandi forseti Sögufélagsins og var áður formaður Sagnfræðingafélag Íslands. Þá er hún einnig félagi í norrænni samráðsnefnd sagnfræðinga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta