Staða vegamálastjóra auglýst
Hreinn Haraldsson hefur gegnt embætti vegamálastjóra frá 1. maí á síðasta ári en hann var settur tímabundið vegna hugsanlegrar endurskipulagningar stofnunarinnar. Setning hans rennur út í lok apríl og því er staðan nú auglýst. Starfshópur sem Kristján L. Möller samgönguráðherra skipaði í byrjun árs vinnur nú að því að meta hugsanlega sameiningu samgöngustofnana og má vænta tillagna hans þegar líður á árið.
Auglýsing um embætti vegamálastjóra fer hér á eftir:
Samgönguráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti vegamálastjóra. Skipað verður í embættið til fimm ára frá 1. maí 2009 að telja, sbr. 23. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 70/1996. Laun eru samkvæmt úrskurði kjararáðs.
Vegamálastjóri veitir Vegagerðinni forstöðu. Helstu verkefni Vegagerðarinnar eru talin upp í 5. gr. vegalaga nr. 80/2007. Þau skiptast í framkvæmdir í vegamálum, umsjón með rannsóknum og þróun á sviði vegamála auk stjórnsýslu og eftirlits.
Menntunar- og hæfiskröfur
-
Háskólamenntun í verkfræði eða sambærileg menntun.
-
Víðtæk reynsla af stjórnunarstörfum og áætlanagerð.
-
Frumkvæði og leiðtogahæfni.
-
Reynsla og hæfileiki til að miðla upplýsingum ásamt hæfni í samskiptum.
Konur jafnt sem karlar eru hvattar til að sækja um stöðuna.
Nánari upplýsingar veitir Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu. Umsóknir skulu berast til samgönguráðuneytisins, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík eða á pó[email protected] eigi síðar en 23. mars 2009.