Hoppa yfir valmynd
9. mars 2009 Innviðaráðuneytið

Staða vegamálastjóra auglýst

Samgönguráðuneytið hefur auglýst lausa til umsóknar stöðu vegamálastjóra. Umsóknarfrestur er til 23. mars næstkomandi.

Hreinn Haraldsson hefur gegnt embætti vegamálastjóra frá 1. maí á síðasta ári en hann var settur tímabundið vegna hugsanlegrar endurskipulagningar stofnunarinnar. Setning hans rennur út í lok apríl og því er staðan nú auglýst. Starfshópur sem Kristján L. Möller samgönguráðherra skipaði í byrjun árs vinnur nú að því að meta hugsanlega sameiningu samgöngustofnana og má vænta tillagna hans þegar líður á árið.

Auglýsing um embætti vegamálastjóra fer hér á eftir:

Samgönguráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti vegamálastjóra. Skipað verður í embættið til fimm ára frá 1. maí 2009 að telja, sbr. 23. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 70/1996. Laun eru samkvæmt úrskurði kjararáðs.

Vegamálastjóri veitir Vegagerðinni forstöðu. Helstu verkefni Vegagerðarinnar eru talin upp í 5. gr. vegalaga nr. 80/2007. Þau skiptast í framkvæmdir í vegamálum, umsjón með rannsóknum og þróun á sviði vegamála auk stjórnsýslu og eftirlits.

Menntunar- og hæfiskröfur

  • Háskólamenntun í verkfræði eða sambærileg menntun.
  • Víðtæk reynsla af stjórnunarstörfum og áætlanagerð.
  • Frumkvæði og leiðtogahæfni.
  • Reynsla og hæfileiki til að miðla upplýsingum ásamt hæfni í samskiptum.

Konur jafnt sem karlar eru hvattar til að sækja um stöðuna.

Nánari upplýsingar veitir Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu. Umsóknir skulu berast til samgönguráðuneytisins, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík eða á [email protected] eigi síðar en 23. mars 2009.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta