Hoppa yfir valmynd
8. maí 2015 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 30/2015 úrskurður 24. apríl 2015

Mál nr. 30/2015                     Eiginnafn:      Tíalilja


Hinn 24. apríl 2015 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 30/2015 en erindið barst nefndinni 27. mars:

Til að hægt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá þarf öllum skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn að vera fullnægt. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Nafnið skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977, um íslenska stafsetningu.

Eiginnafnið Tíalilja fullnægir skilyrðum (1) og (3) hér að ofan. Í málinu reynir hins vegar á skilyrði (2) um að nafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Mannanafnanefnd hefur fjallað um nokkur nöfn sem samsett eru úr tveimur sjálfstæðum eiginnöfnum og má nefna sem dæmi Arnapála, Annalinda, Arnarsteinn og Heiðaringi og hefur þeim öllum verið hafnað vegna þess að þau valda beygingarvandkvæðum í íslensku. Þegar um samsett einnefni er að ræða beygist einungis síðari liður nafnsins og af því geta orðið til ótækar beygingarmyndir eins og *Arnarsteini (þágufall af *Arnarsteinn) og *Arnapálu (aukaföll af *Arnapála). Í nafninu Tíalilja valda aukafallsmyndir, þ.e. Tíalilju, hins vegar ekki vandkvæðum, enda þótt Tía og Lilja séu bæði til sem sjálfstæð eiginnöfn.

Eiginnafnið Tía er sjaldgæft í íslensku. Jafnframt er óljóst hvort fyrri hluti nafnsins Tíalilja er eiginnafnið Tía eða forliður af óþekktum uppruna. Þennan málfræðilega vafa ber að túlka úrskurðarbeiðanda í hag, enda verður talið að réttur til nafngiftar njóti verndar samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lyðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Þegar almenn lög eru ekki nægjanlega skýr um hvernig beri að takmarka réttinn til nafngiftar, eins og í þessu tilviki, verður því að beita lagafyrirmælum með þeim hætti að tryggt sé að þau samrýmist áðurnefndri grundvallarreglu stjórnarskrárinnar um rétt sérhvers manns til að njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Það er með stoð í áðurröktum fyrirmælum um íslenskt mál og íslenskum lögum, að fallist er á að eiginnafnið Tíalilja sé í samræmi við íslenskt málkerfi.

Með vísan til alls framanritaðs verður fallist á að eiginnafnið Tíalilja (kvk.) taki íslenskri eignarfallsendingu, Tíalilju, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Tíalilja (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta