Evrópsk vinnuverndarvika
Ágætu fundarmenn.
Mér er það mikið ánægjuefni að setja Evrópska vinnuverndarviku í ár en að þessu sinni er hún tileinkuð störfum í byggingariðnaði. Svo árangur megi nást á sviði vinnuverndar er mikilvægt að atvinnurekendur og starfsmenn hafi náið samráð um skipulag vinnuverndar innan fyrirtækjanna. Í því skyni hafa þeir lög og reglur sér til leiðbeiningar og vil ég hvetja bæði atvinnurekendur sem og starfsmenn að virða þær reglur sem í gildi eru á þessu sviði. Er það einkum mikilvægt í þeirri starfsgrein sem hér er til umfjöllunar þar sem tölulegar upplýsingar sýna að um nokkuð áhættusama starfsgrein er að ræða.
Í skýrslum Vinnueftirlits ríkisins kemur fram að fjöldi vinnuslysa í byggingariðnaði eða við viðgerð mannvirkja sker sig úr öðrum starfsgreinum. Árið 2000 slösuðust samtals 218 í þessari starfsgrein. Um nokkra fækkun var að ræða árið 2003 en þá slösuðust 162 einstaklingar. Þær atvinnugreinar sem næst koma eru matvælaiðnaður, málmsmíði og starfsemi sem flokkuð er undir opinbera þjónustu en þar undir koma slys í skólum, heilbrigðisþjónustu o.fl. Í þessum starfsgreinum er fjöldi slasaðra um eða rétt yfir 100 manns á ári.
Sem betur fer hefur tekist að fækka vinnuslysum sem leitt hafa til dauða starfsmanna hér á landi. Árið 2003 lést einn maður við byggingavinnu en eitt mannslíf er einfaldlega of mikið. Þá er okkur einnig dýrmætt að draga úr vinnuslysum almennt enda geta afleiðingar slíkra slysa verið dýru verði keyptar, ekki eingöngu fyrir einstaklinginn sem verður fyrir slysinu og fjölskyldu hans heldur einnig fyrirtækin og samfélagið í heild.
Þar sem um er að ræða evrópska vinnuverndarviku er ekki úr vegi að geta upplýsinga um áætlaðan heildarkostnað sem hlýst af vinnuslysum innan Evrópusambandsins. Heildarkostnaður vegna vinnuslysa er talin vera á milli 2,6 til 2,8% af vergri þjóðarframleiðslu aðildarríkjanna eða sem talið er nema milli 185 til 270 milljörðum evra. Innan Evrópusambandsins deyja árlega 5.200 einstaklingar í vinnuslysum en fjöldi árlegra vinnuslysa er talin vera 4,8 milljónir.
Vinnueftirlit ríkisins hefur nú um nokkurra ára skeið tekið þátt í sameiginlegu átaki vinnuverndarstofnana í Evrópu undir yfirskriftinni evrópsk vinnuverndarvika. Það er Evrópska vinnuverndarstofnunin í Bilbaó sem hefur haft umsjón með að sameina krafta þessara stofnana og haft forgöngu um val á viðfangsefnum. Í upplýsingasamfélögum Vesturlanda ríkir hörð samkeppni um að fanga athygli og koma á framfæri við almenning upplýsingum um hvers kyns málefni. Það er því mikilvægt að geta tekið þátt í jafn víðtækri samvinnu og hér um ræðir. Það er ljóst að árangur er ekki gefinn, en evrópska vinnuverndarvikan hefur skilað árangri.
Fyrir tveimur árum var evrópska vinnuverndarvikan helguð viðfangsefni sem lítill gaumur hafði verið gefinn fram að því. Hér var um að ræða nýjan þátt í vinnuverndarstarfinu sem hafði fyrst og fremst beinst að húsnæði vinnustaða, verkfærum og efnum sem starfsmenn eru að vinna með. Í þetta skiptið var áherslan lögð á umræður um andlega heilsueflingu og með hvaða hætti hægt væri að vinna gegn vinnustreitu. Þetta hefur skilað árangri.
Fyrir réttum 10 dögum undirrituðu Evrópusamtök aðila vinnumarkaðarins rammasamning á Evrópuvísu um vinnustreitu. Í inngangsorðum samningsins kemur fram að samningsaðilar eru sammála um að vinnustreita sé málefni sem varði bæði atvinnurekendur og launafólk. Aðilar eru sammála um að taka þurfi á þessu vandamáli sameiginlega. Árangursríkar aðgerðir gegn vinnustreitu geti leitt til meiri framleiðni, betri heilsu og aukins öryggis á vinnustaðnum. Ávinningurinn sé bæði efnahagslegur og félagslegur fyrir fyrirtækið, starfsmennina og samfélagið í heild sinni. Það er ekki tóm til að gera þessu samkomulagi ítarleg skil við þetta tækifæri en þess má geta að það hefur að geyma lýsingu á streituvöldum, ábendingar um einkenni streitu á vinnustað, ákvæði um ábyrgð atvinnurekenda og launafólks og leiðbeiningarreglur um aðgerðir til að koma í veg fyrir, eyða eða draga úr streituvöldum. Loks er að finna í samningnum ákvæði um framkvæmd og eftirfylgni.
Mér finnst ánægjulegt að geta greint frá evrópska rammasamningnum um streitu á vinnustöðum þegar við erum enn á ný að hefja evrópska vinnuverndarviku. Hann sýnir svo að ekki verður um villst að átak af þessu tagi skilar árangri. Ég vil ljúka máli mínu með því að láta í ljósi þá einlægu ósk mína að það átak sem við erum að hefja í dag efli samtök atvinnurekenda og launafólks í þeirri viðleitni að draga úr vinnuslysum í byggingariðnaði og geri alla hlutaðeigandi aðila meðvitaða um ábyrgð sína í þessum efnum. Stjórnvöld munu ekki skorast undan því að axla sína ábyrgð.
Að svo mæltu segi ég evrópska vinnuverndarviku setta á Íslandi.