Hæfingarstöð fyrir fatlaða tekin í notkun
Þann 8. október sl. var Hæfingarstöð fyrir fatlaða formlega tekin í notkun á Ísafirði. Einnig fengu fyrrum íbúar í Bræðratungu afhenta lykla að íbúðum sínum að Sindragötu 4 á Ísafirði.
Bræðratungu hefur nú verið lokað og hún verið seld og er nú allri starfsemi lokið þar eftir 20 ára notkun.
Í húsnæðinu að Sindragötu 4 eru fjórar íbúðir. Íbúðirnar tvær sem eru á sitt hvorum endanum eru ætlaðar fyrir fjóra, tveir í hvorri íbúð. Miðjuíbúðirnar eru samtengdar og í annarri þeirra er starfrækt skammtímavistun og í hinni er vistheimili og aðstaða til skyndivistunar. Þetta fyrirkomulag þótti heppilegt þar sem ekki er hægt að sjá með hvaða hætti starfsemin þróast í framtíðinni. Þó er vitað að starfsemi skammtímavistunar á eftir að aukast verulega og því verður möguleiki á því seinna meir að nýta að hluta til aðstöðuna á vistheimilinu.
Með þessari byggingu á Sindragötunni breytist aðstaða skammtímavistunar fyrir börn sem hefur verið rekin í þröngu leiguhúsnæði undanfarin ár. Nú er hægt að bjóða börnunum upp á meira rými og svigrúm til leikja og afþreyingar. Ekki er annað að sjá og heyra en að íbúar og börnin í skammtímavistuninni taki þessari breytingu mjög vel þó svo að ekki sé komin mikil reynsla á þetta fyrirkomulag. Talið er að með þessu sé verið að tryggja þeim meira einkalíf en áður, einingin er minni, færri starfsmenn, minni erill og fólk hefur sitt einkarými og þarf ekki að deila húsnæði með mörgum öðrum. Starfsmennirnir eru fullir bjartsýni á að þetta fyrirkomulag eigi eftir að henta íbúunum vel. Tekið er mið af fyrri reynslu í þeim efnum.
Hæfingarstöðin er flutt í Gamla pósthúsið að Aðalstræti 18 á Ísafirði. Þar starfa 11 fatlaðir starfsmenn og ráðgert er að bjóða fleirum upp á aðstöðu til atvinnu.
Fyrirhugað er að gera nokkrar breytingar á innra starfi hæfingarstöðvarinnar og bjóða fleiri fötluðum atvinnu, þá fyrst og fremst þeim sem ekki hafa atvinnu í dag. Hugmyndin er líka sú að hæfingarstöðin verði einhverskonar miðstöð fyrir fatlaða á svæðinu, þar eiga þeir að geta hist, fengið félagsskap og stuðning til að takast á við afmörkuð verkefni á hinum almenna vinnumarkaði.