Hoppa yfir valmynd
16. september 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 179/2020

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 179/2020

Miðvikudaginn 16. september 2020

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. apríl 2020, kærði A ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 20. febrúar 2020 um að synja um frekari endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaði frá B nema kærandi sæki um S1 vottorð til stofnunarinnar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 20. febrúar 2020, var kæranda tilkynnt um að einstaklingar sem eru með undanþágu frá Þjóðskrá varðandi skráningu á lögheimili erlendis haldi ekki sjúkratryggingaréttindum í búsetulandi nema sótt sé um S1 vottorð til Sjúkratrygginga Íslands. Kæranda var gefinn fjögurra vikna frestur til að sækja um S1 vottorð en eftir þann tíma yrði ekki um frekari endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaði frá búsetulandi að ræða.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. apríl 2020. Með bréfi, dags. 15. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 28. apríl 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. apríl 2020. Engar efnislegar athugasemdir bárust. Með bréfi til kæranda, dags. 10. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir gögnum um samskipti hennar við Þjóðskrá, meðal annars umsókn hennar, læknisvottorð og svar Þjóðskrár. Umbeðin gögn bárust nefndinni 7. ágúst 2020 og voru þau send Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dags. 10. ágúst 2020. Athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir endurskoðun á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja um frekari endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaði frá B nema hún sæki um S1 vottorð til stofnunarinnar.

Í kæru greinir kærandi frá því að Sjúkratryggingar Íslands neiti að sjúkratryggja hana og eiginmann hennar þar sem þau séu ekki með undanþágu frá Þjóðskrá til að færa lögheimili sitt. Sjúkratryggingar Íslands vilji meina að þau geti ekki haft þessa undanþágu þar sem það séu einungis námsmenn. Í lögunum standi að námsmenn og sjúklingar eigi rétt á þessari undanþágu. Sjúkratryggingar Íslands vilji að kærandi fái S1 pappír sem þýði að hún þurfi þá að færa lögheimili sitt. Fram komi í pósti frá stofnuninni að sérstakt vottorð hafi verið sent til sjúkratrygginga í búsetulandi, B, til að tilkynna um búsetu kæranda á B og að skrá hana í almannatryggingakerfið þar eins og reglur geri ráð fyrir. Í framhaldi sé hún sjúkratryggð á B, sbr. reglugerð nr. 442/2012. Sjúkratryggingar Íslands ráðleggi kæranda að hafa samband við sjúkratryggingar á B sem allra fyrst og tilkynna sig til landsins til að komast inn í almannatryggingakerfið þar. Þetta kalli kærandi valdníðslu og telji að ætlunin sé að færa lögheimili hennar til B að henni forspurðri og Sjúkratryggingar Íslands hunsi þá undanþágu sem kærandi sé með hjá Þjóðskrá.

Kærandi hafi hingað til fengið endurgreitt líkt og um heilbrigðisþjónustu innanlands væri að ræða. Kærandi og eiginmaður hennar fari til Íslands í byrjun júní og séu fram undir miðjan september. Þau reyni að fara heim um jólin en það hafi stundum ekki gengið upp vegna sjúkdóms kæranda en þá treysti hún sér ekki í flug, eins og um síðustu jól. Þá segir kærandi að það séu margar ástæður fyrir því að hún ætli ekki að flytja lögheimili sitt til B.

Í rökstuðningi sem fylgdi kæru er vísað til ákvæða í lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar og lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, meðal annars 11. gr. laga nr. 80/2018 þar sem segir að einstaklingum sé heimilt að halda lögheimili sínu á Íslandi, þrátt fyrir dvöl erlendis vegna veikinda.

Kærandi segist vera nýbúin að sækja um áframhaldandi aðsetursskráningu til Þjóðskrár sem hafi verið samþykkt. Hún hafi í raun ekki þurft að sækja um undanþáguna þar sem eftir því sem árunum fjölgi þá séu þau meira á Íslandi. En fari þau ekki heim um jólin þá séu þau lengur en sex mánuði í einu á B.

Þá tilgreinir kærandi ástæður þess að hún vilji ekki færa lögheimili sitt til B. Fyrsta ástæðan sé sú að hún myndi þurfa að notast við almenna heilbrigðiskerfið en hún vilji fá að notast við þá lækna sem hafi sinnt henni í þrjú ár á B. Önnur ástæðan sé sú að henni hafi í tvígang verið vísað frá heilsugæslu bæjarins. Kærandi hafi dottið illa og fallið fram fyrir sig beint á brjóstkassann. Á bráðavaktinni hafi henni verið vísað frá vegna þess að hún hafi ekki talað spænsku, þrátt fyrir að hún hafi getað gert sig vel skiljanlega um hvað hefði gerst og hvar hún finndi til. Henni hafi verið sagt að fara á annað einkarekið sjúkrahús og við myndatöku þar hafi komið í ljós alvarleg meiðsl en henni hafi verið neitað um skoðun á heilsugæslunni engu að síður. Þriðja ástæðan fyrir því að hún vilji ekki færa lögheimilið til B sé skattamál þar sem erfðafjárskattur á B sé þrepaskiptur og geti farið upp í 40%. Þá sé fjórða ástæðan sú að kærandi eigi eignir á Íslandi, til dæmis bíl, íbúð, sumarhús og hjólhýsi.

Ætlunin hafi verið að vera eingöngu í eitt ár á B en vegna þess að líðan kæranda sé betri þar hafi þau alltaf ákveðið að vera eitt ár í viðbót. Þjóðskrá veiti kæranda undanþágu frá því að flytja lögheimili sitt til B vegna veikinda hennar og sé læknisvottorð frá lækni hennar nóg fyrir Þjóðskrá. Sæki hún um S1 pappír sem Sjúkratryggingar Íslands vilji að hún geri þá þurfi hún að færa lögheimili sitt til B og notast við almenna heilbrigðiskerfið.

Kærandi segir að hún fái ekki sjúkratryggingu á Íslandi en Sjúkratryggingar Íslands ráði hverja þær sjúkratryggi og virðist sem það sé geðþóttaákvörðun starfsmanns stofnunarinnar að neita að sjúkratryggja hana.

Kærandi lýsir sjúkdómum sínum og segir að það sé vegna veikindanna sem hún hafi vetursetu á B. Loks lýsir kærandi samskiptum sínum við starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands og kvartar undan framferði þeirra.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að stofnunin hafi endurgreitt kæranda erlendan sjúkrakostnað alveg frá árinu 2018 á grundvelli heimildar í  2., 9. og 12. gr. reglugerðar nr. 484/2016 um heilbrigðisþjónustu sem sótt sé innan aðildarríkis EES-samningsins en hægt er að veita hér á landi og um hlutverk innlends tengiliðar vegna heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Um mitt ár 2019 hafi kærandi upplýst símleiðis að hún væri og hefði verið búsett á B frá árinu 2016 og að hún væri með undanþágu frá Þjóðskrá til að halda lögheimili sínu á Íslandi.   Sjúkratryggingar Íslands hafi endurgreitt kæranda allan þann kostnað sem þegar hafi fallið til en tilkynnt með bréfi, dags. 20. febrúar 2020, að ekki yrði endurgreiddur frekari kostnaður frá B á grundvelli reglugerðar nr. 484/2016 og að henni bæri að skrá sig í búsetulandi með S1 vottorði sem Sjúkratryggingar Íslands gefi út.

Í 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar segi að sá einstaklingur sé sjúkratryggður sem sé búsettur á Íslandi og hafi verið það að minnsta kosti síðustu sex mánuðina áður en bóta sé óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur. Í 3. mgr. segi að sjúkratrygging falli niður þegar sjúkratryggður flytji búsetu sína frá Íslandi, sbr. þó 11., 12. og 15. gr., nema annað leiði af milliríkjasamningum. Þá geti milliríkjasamningar sem Ísland er aðili að haft í för með sér undanþágur og takmarkanir á beitingu ákvæða laga þessara. Að lokum sé í 4. mgr. tiltekið að sjúkratryggingastofnunin ákvarði hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður hér á landi samkvæmt lögunum.

Árið 2012 hafi reglugerð (EB) nr. 883/2004 (grunnreglugerð) og reglugerð (EB) nr. 987/2009 (framkvæmdarreglugerð) verið innleiddar í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012.

Samkvæmt j-lið 1. gr. grunnreglugerðar (EB) nr. 883/2004 sé búseta skilgreind sem sá staður þar sem einstaklingur búi að jafnaði. Í 11. gr. framkvæmdarreglugerðar (EB) nr. 987/2009 séu tilgreindir þeir þættir sem taka þurfi til greina þegar búseta einstaklings sé ákvörðuð, til dæmis hversu lengi og samfellt einstaklingur hafi verið í landinu og aðstæður einstaklings, til dæmis fjölskylduaðstæður, vinna, nám, húsnæði og skattagreiðslur. Kærandi hafi sjálf staðfest að hún sé búsett á B með eiginmanni sínum og komi í frí til Íslands yfir sumartímann. Hún hafi frá árinu 2016 verið með undanþágu frá Þjóðskrá um að færa lögheimili sitt til B, þrátt fyrir búsetu þar í landi. Lækniskostnaður frá B sýni samfellda dvöl og staðfesti það sem fram hafi komið frá kæranda sjálfri. Evrópudómstóllinn hafi fjallað um hugtakið búseta í dómum sínum. Í dómi Evrópudómstólsins í máli C-90/97, ECR 1999, bls. I-01075 hafi dómurinn tiltekið að búseta væri sá staður þar sem hagsmunir einstaklings væru en einnig þyrfti að skoða fleiri atriði í þeim efnum. Í dómi Evrópudómstólsins í máli C-255/13, ECLI:EU:C:2014:1291 hafi dómstóllinn fjallað nánar um muninn á búsetu og dvöl. Í dómi Evrópudómstólsins í máli C-598/10, ECLI:EU:C:2013:303 hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri heimilt að vera með skráða búsetu í tveimur aðildarríkjum á sama tíma. Hafi dómurinn vísað til 11. gr. framkvæmdareglugerðarinnar (EB) nr. 2009/987/EB.

Samkvæmt 17. gr. grunnreglugerðar (EB) nr. 883/2004 eigi tryggður einstaklingur sem búsettur sé í öðru aðildarríki en lögbæru aðildarríki rétt á aðstoð eins og hann væri tryggður þar. Í 24. gr. framkvæmdarreglugerðar (EB) nr. 987/2009 segi að við beitingu 17. gr. grunnreglugerðarinnar skuli einstaklingi vera skylt að skrá sig hjá stofnun á búsetustað. Þessi réttur sé staðfestur með svokölluðu S1 vottorði sem útgefið sé af lögbæra aðildarríkinu.

Til frekari rökstuðnings vísi Sjúkratryggingar Íslands til úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 9. mars 2011 í máli nr. 253/2010 þar sem úrskurðarnefnd taldi lögheimili einstaklings ekki miðast við skráningu í þjóðskrá heldur væri það þar sem raunveruleg búseta einstaklings væri. Úrskurðarnefndin hafi vísað til skilgreiningar á búsetu í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili. Ákvæðið sé efnislega samhljóða 2. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur.

Þá segir að samkvæmt 23. gr. a. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 484/2016, sé sjúkratryggðum heimilt að sækja sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri aðildarríkja EES-samningsins og fá endurgreiddan útlagðan kostnað við heilbrigðisþjónustuna eins og um þjónustu innanlands væri að ræða, enda sé þjónustan samsvarandi þeirri þjónustu sem sjúkratryggingar taki þátt í að greiða hér á landi. Þessi heimild byggi á innleiðingu tilskipunar 2011/24/EB frá 9. mars 2011. Í c-lið 3. gr. tilskipunarinnar sé tryggingaraðildarríki skilgreint sem það aðildarríki sem er til þess bært að veita tryggðum einstaklingi fyrir fram leyfi fyrir viðeigandi læknismeðferð utan búsetuaðildarríkis samkvæmt reglugerðum (EB) nr. 883/2004 og (EB) nr. 987/2009. Skilyrðið sé í grunninn að sækja sér þjónustu yfir landamæri, þ.e. að þjónusta sé veitt utan búsetulands. Þetta megi einnig sjá í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB til Evrópuráðsins og Evrópuþingsins frá 3. febrúar 2014 sem hafi fjallað um tilskipun 2011/24/EB. Þar sé sérstaklega tekið fram að sé einstaklingur búsettur utan tryggingalands þá gildi tilskipunin ekki um þjónustu sem veitt sé í búsetulandi einstaklings.

Tekið er fram að kærandi hafi sjálf staðfest að hún sé búsett á B og sé með undanþágu frá lögheimilisflutningi frá Þjóðskrá sem staðfesti búsetu erlendis. Að framansögðu virtu sé það afstaða Sjúkratrygginga Íslands að ekki sé lagaheimild til staðar fyrir frekari endurgreiðslu á heilbrigðisþjónustu sem veitt sé á B á grundvelli reglugerðar nr. 484/2016 þar sem hún sé búsett þar í landi.

Sjúkratryggingar Íslands telji undanþágu frá lögheimilisskráningu frá Þjóðskrá ekki skipta máli, enda beri stofnuninni að fara eftir þeim milliríkjasamningum sem séu í gildi hverju sinni. Sjúkratryggingar Íslands geri ekki kröfu um að kærandi færi lögheimili sitt frá Íslandi heldur eingöngu að hún skrái sig til sjúkratryggingastofnunar í búsetulandi með S1 vottorði í samræmi við 24. gr. framkvæmdarreglugerðar (EB) nr. 987/2009. 

Með vísan til framangreinds sé óskað eftir því að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, um synjun á frekari endurgreiðslu vegna læknismeðferðar á B og að henni sé skylt að skrá sig hjá stofnun í búsetulandi, sé staðfest.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja kæranda um frekari endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaði frá B nema hún sæki um S1 vottorð til stofnunarinnar.

Í 23. gr. a. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. reglugerð nr. 484/2016 og EB tilskipun 2011/24/ESB, er fjallað um endurgreiðslu kostnaðar vegna læknismeðferðar erlendis sem unnt er að veita hér á landi. Þar segir í 1. mgr. að velji sjúkratryggður að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins þá endurgreiði sjúkratryggingar kostnað af þjónustunni eins og um heilbrigðisþjónustu innanlands væri að ræða, enda sé þjónustan samsvarandi þeirri þjónustu sem sjúkratryggingar taki þátt í að greiða hér á landi.

Fyrir liggur að frá árinu 2018 hafa Sjúkratryggingar Íslands endurgreitt erlendan sjúkrakostnað kæranda á grundvelli reglugerðar nr. 484/2016 þar sem lögheimili hennar er skráð á Íslandi. Sjúkratryggingar Íslands tilkynntu hins vegar kæranda í febrúar 2020, eftir að hafa fengið upplýsingar um að hún væri búsett á B, að ekki yrði endurgreiddur frekari kostnaður frá B á grundvelli framangreindrar reglugerðar og að henni bæri að skrá sig á B með S1 vottorð.

Í 25. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 og í 1. mgr. 24. gr. framkvæmdarreglugerðar EB nr. 987/2009, sem innleiddar voru í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012, er kveðið á um rétt elli- og örorkulífeyrisþega, sem taka upp búsetu í öðru aðildarríki EES, til að skrá sig hjá sjúkratryggingastofnun á búsetustað og halda þar með sjúkratryggingu sinni, auk þess að verða sjúkratryggðir í nýja búsetulandinu með sama hætti og þeir sem búsettir eru þar.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort kærandi telst búsett á Íslandi og eigi þar með rétt á endurgreiðslu kostnaðar vegna læknismeðferðar erlendis á grundvelli reglugerðar nr. 484/2016 eða hvort hún teljist búsett á B og verði sjúkratryggð þar með því að sækja um S1 vottorð.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar eru þeir sjúkratryggðir samkvæmt lögunum sem eru búsettir á Íslandi og hafa verið það að minnsta kosti síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Í 2. málsl. ákvæðisins segir svo:

„Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur.“

Í 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018 er lögheimili skilgreint sem sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Í 11. gr. sömu laga er kveðið á um undantekningu frá framangreindu ákvæði vegna veikinda en þar segir:

„Einstaklingum er heimilt að halda lögheimili sínu á Íslandi þrátt fyrir dvöl erlendis vegna veikinda. Framvísa þarf vottorði, útgefnu af lækni með starfsleyfi á Íslandi, hjá Þjóðskrá Íslands um nauðsyn dvalar erlendis vegna veikindanna og tilkynna um aðsetur erlendis.

Heimild skv. 1. mgr. er háð því að einstaklingurinn hafi haft lögheimili samfellt á Íslandi í að minnsta kosti tvö ár áður en veikindi hófust, auk annarra skilyrða sem ráðherra er heimilt að kveða á um í reglugerð.

Heimild skv. 1. mgr. fellur niður að einu ári liðnu nema óskað sé eftir áframhaldandi aðsetursskráningu erlendis enda sé nýju læknisvottorði framvísað hjá Þjóðskrá Íslands. Þjóðskrá Íslands er heimilt að fella niður aðsetursskráningu einstaklings og skrá lögheimili hans erlendis berist stofnuninni ekki fullnægjandi umsókn samkvæmt þessari grein.“

Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008 ákvarða Sjúkratryggingar Íslands hvort einstaklingur telst sjúkratryggður hér á landi samkvæmt lögunum. Sjúkratryggingar Íslands stöðvuðu endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaði frá B samkvæmt heimild í reglugerð nr. 484/2016 á þeim grundvelli að kærandi væri ekki búsett á Íslandi heldur á B. Var kæranda bent á að skrá sig á B með S1 vottorði og geta þannig verið sjúkratryggð á grundvelli reglugerðar nr. 442/2012.

Sjúkratryggingar Íslands byggja á því að undanþága frá lögheimilisskráningu frá Þjóðskrá hafi ekki þýðingu í málinu þar sem stofnuninni beri að fara eftir þeim milliríkjasamningum sem séu í gildi hverju sinni. Einnig byggja Sjúkratryggingar Íslands á því að í j-lið 1. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012, sé búseta skilgreind sem sá staður þar sem einstaklingur búi að jafnaði. Þeir þættir sem taka þurfi til greina þegar búseta einstaklings sé ákvörðuð séu tilgreindir í 11. gr. EB reglugerðar nr. 987/2009, til dæmis hversu lengi og samfellt einstaklingur hafi verið í landinu og aðstæður einstaklings, til dæmis fjölskylduaðstæður, vinna, nám, húsnæði og skattagreiðslur.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi undanfarin ár verið búsett mestan hluta árs á B og hafi frá árinu 2016 fengið undanþágu frá Þjóðskrá til að hafa lögheimili sitt áfram skráð á Íslandi.

Samkvæmt 11. gr. lögheimilis- og aðseturslaga nr. 80/2018 getur sá sem dvelst erlendis vegna veikinda áfram átt lögheimili á Íslandi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í gögnum málsins liggur fyrir bréf Þjóðskrár til kæranda og eiginmanns hennar, dags. 27. janúar 2020, þar sem samþykkt er að þau haldi lögheimili á Íslandi með skráð aðsetur á B, sbr. framangreinda 11. gr. laga nr. 80/2018. Þannig hefur Þjóðskrá tekið tillit til læknisvottorðs, sem kærandi lagði fram, og talið að skilyrði undanþágunnar væru uppfyllt í tilviki kæranda.

Þrátt fyrir að Sjúkratryggingar Íslands ákvarði samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar hvort einstaklingur sé sjúkratryggður hér á landi samkvæmt lögunum þá er stofnunin bundin af lögum um lögheimili og aðsetur við mat á búsetu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar. Þjóðskrá Íslands hefur verið falið það verkefni að hafa eftirlit með framkvæmd lögheimilis- og aðseturslaga samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 80/2018 og er því valdbær til að ákvarða að lögheimili kæranda skuli vera á Íslandi á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. laganna. Ekkert hefur komið fram í málinu að mati úrskurðarnefndar sem bendir til annars en að um lögmæta ákvörðun hafi verið að ræða hjá Þjóðskrá.

Með hliðsjón af framangreindu fellst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á þá túlkun Sjúkratrygginga Íslands að undanþága frá lögheimilisskráningu frá Þjóðskrá hafi ekki þýðingu þar sem stofnuninni beri að fara eftir gildandi milliríkjasamningum. Úrskurðarnefndin telur að ákvæði milliríkjasamninga um skilgreiningu á búsetu gangi ekki framar skýru og ótvíræðu sérákvæði 11. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að lögheimili kæranda sé réttilega á Íslandi og hún sé því sjúkratryggð á Íslandi, sbr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að Sjúkratryggingum Íslands hafi verið heimilt að synja kæranda um endurgreiðslu sjúkrakostnaðar frá B samkvæmt reglugerð nr. 484/2016 á þeim grundvelli að kærandi væri búsett á B. 

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 20. febrúar 2020 um að synja um frekari endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaði frá B felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 20. febrúar 2020 um að synja A um frekari endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaði frá B er felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta