Ráðherra heimsótti Þjóðminjasafnið
Efri röð frá vinstri: Sigrún Brynja Einarsdóttir skrifstofustjóri menningar og fjölmiðla hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Ingvi Már Pálsson settur ráðuneytisstjóri, Ágústa Kristófersdóttir framkvæmdastjóri safneignar Þjóðminjasafnsins, Kristín Ýr Hrafnkelsdóttir þjónustustjóri Þjóðminjasafnsins, Neðri röð frá vinstri: Þorbjörg Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri fjármála- og þjónustu Þjóðminjasafnsins, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður og Rúnar Leifsson sérfræðingur á skrifistofu menningar og fjölmiðla.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heimsótti í gær Þjóðminjasafn Íslands. Tilefnið var 160 ára afmælisár Þjóðminjasafnsins en afmælinu verður fagnað með ýmsum hætti og fjölbreyttri dagskrá út árið.
Ráðherra fékk kynningu á starfsemi stofnunarinnar, sterkri stöðu hennar í dag og framtíðarsýn.
„Þjóðminjasafnið hefur mikið vægi í menningarlífi þjóðarinnar og gegnir lykilhlutverki sem eitt þriggja höfuðsafna Íslands. Þjóðminjasafnið eykur og miðlar þekkingu á menningararfinum með því að annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á menningararfi okkar,“ segir ráðherra í tilefni af afmælinu.
Þjóðminjasafnið var stofnað 24. febrúar árið 1863 og er í dag miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum á Íslandi. Við lýðveldisstofnun árið 1944 ákvað Alþingi að reisa Þjóðminjasafninu eigið hús við Suðurgötu í Reykjavík og flutti safnið þangað árið 1950. Húsnæðið var svo opnað eftir endurbætur árið 2004 í þeirri mynd sem það er í dag.
Meginhluti safnhússins hýsir nú grunnsýningu Þjóðminjasafnsins: Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár. Hlutverk Þjóðminjasafnsins er að auka og miðla þekkingu á menningararfi þjóðarinnar frá upphafi og stuðla að því að sem flestir geti haft gagn og gaman af sögu og minjum lands og þjóðar.