Nýir rammasamningar á sviði mannúðarmála undirritaðir í Genf
Nýir rammasamningar um áframhaldandi stuðning íslenskra stjórnvalda við Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (CERF) og Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) til næstu fimm ára voru undirritaðir í síðustu viku. Einar Gunnarsson, fastafulltrúi Íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf, undirritaði samningana fyrir hönd Íslands ásamt Ramesh Rajasingham, yfirmanni OCHA í Genf. OCHA og Neyðarsjóðurinn eru meðal áherslustofnana Íslands á sviði mannúðarmála.
Samkvæmt samningunum munu kjarnaframlög íslenskra stjórnvalda til hvorrar stofnunar nema að minnsta kosti 120 milljónum króna árlega á tímabilinu 2024-2028.
„Hér erum við Íslendingar enn og aftur að sýna í verki ásetning okkar um að styðja með myndarlegum hætti við mikilvægar stofnanir á sviði mannúðarmála. Með samningunum heitir Ísland í senn fyrirsjáanlegum og áreiðanlegum fjárframlögum til næstu fimm ára, sem er í fullu samræmi við bestu starfshætti á þessu sviði, enda nýtast framlög okkar þá þar sem þörfin er brýnust hverju sinni.,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Neyðarsjóðnum var komið á fót til að efla viðbrögð Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðar- og neyðaraðstoðar á átakasvæðum og í kjölfar náttúruhamfara hvar sem er í heiminum. Sjóðurinn leggur áherslu á skjótar og skilvirkar aðgerðir til að draga úr manntjóni og neyð og grípur inn í þar sem neyðin er viðvarandi og í sumum tilfellum gleymd.
OCHA gegnir lykilhlutverki á heimsvísu við samhæfingu mannúðaraðstoðar og neyðarviðbragða á átakasvæðum og í kjölfar náttúruhamfara. Skrifstofan vinnur þarfagreiningu og samþættir áköll um mannúðaraðstoð fyrir stofnanir og sjóði Sameinuðu þjóðanna, félagasamtök og tengda viðbragðsaðila í mannúð. Þá eru samningaviðræður um mannúðaraðgengi, þar með talið á vettvangi, eitt af mikilvægustu verkefnum stofnunarinnar.