Hoppa yfir valmynd
29. október 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 29. október 2021

Heil og sæl!

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum og færum ykkur það helsta sem drifið hefur á daga utanríkisþjónustunnar síðustu tvær vikurnar. Eftir annasamt haust hefur fréttaflutningur ráðuneytisins síðustu daga verið ögn rólegri en gengur og gerist.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók þátt í ráðherrafundi um loftslagsmál á vegum forseta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í vikunni. Fundinum var ekki síst ætlað að auka á þrýsting um árangur á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem hefst í Glasgow 1. nóvember. 

Ráðherra sagði frá áherslum og aðgerðum Íslands varðandi loftslagsmál og staðfesti að Ísland styður metnaðarfullar loftslagsaðgerðir. Hann sagði jafnframt að þörfin fyrir aðgerðir hefði aldrei verið brýnni en nú í aðdraganda COP26 og í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem lýst er í nýlegri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). 

Þá hittust varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins á dögunum á tveggja daga fundi þeirra í Brussel. Öryggis- og varnarmál í Evrópu og á Atlantshafi og samstarf Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins voru efst á baugi. Í ljósi vaxandi öryggisáskorana létu ráðherrarnir í ljós ríkan vilja til að leita frekari leiða til samstarfs sem geti endurspeglast í endurskoðaðri grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins, sem lögð verður fyrir næsta leiðtogafund í júní á næsta ári, og nýjum vegvísi ESB í utanríkis- og öryggismálum. Hermann Örn Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu tók þátt í fundunum fyrir Íslands hönd.

Sendiskrifstofur okkar hafa haft í nógu að snúast undanfarnar tvær vikur. Við byrjum á vikunni sem nú er að líða.

Í Genf sendi Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) í vikunni frá sér bréf þar sem aðildarríki WTO eru hvött til að hefja viðræður um leiðir til að draga úr ríkisstyrkjum til notkunar jarðefnaeldsneytis. Bréfið sendi hann ásamt kollegum sínum frá Nýja Sjálandi, ESB, Kosta Ríka, Noregi, Sviss, Moldóvu, Fiji, Chile, Liechtenstein og Úrúgvæ. Þessi ríki standa saman að yfirlýsingu fyrir komandi ráðherrafund WTO sem ætlað er að koma málefnum þessara skaðlegu ríkisstyrkja á dagskrá stofnunarinnar. 

Í Strassborg undirritaði Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu, Evrópusamning um sjónvarpsútsendingar yfir landamæri fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Markmið samnings Evrópuráðsins um sjónvarpsútsendingar yfir landamæri (ECTT, European Convention on Transfrontier Television) er að auðvelda útsendingar og endurvarp sjónvarpsefnis yfir landamæri samningsríkjanna.

Í París kynntu fulltrúar GRÓ - þekkingarmiðstöðvar nýverið starfsemi sína á vettvango UNESCO í París. Kynningarviðburðir voru haldnir fyrir fastafulltrúa helstu samstarfsríkja og starfsfólk UNESCO. Í París sótti jafnframt Unnur Orradóttir, sendiherra og fastafulltrúi gagnvart UNESCO, starfssystur sína heim í sendiráðsbústað Svíþjóðar.

 

Í Kaupmannahöfn opnaði Helga Hauksdóttir sendiherra formlega sýningu Úlfs Karlssonar, Celebrating the Muse of the Parking Lot í Davis Gallery í gær. 

Þá bauð Helga sömuleiðis félagskonum í Félagi kvenna í atvinnulífinu í Danmörku til hátíðarviðburðar í sendiherrabústaðnum þar sem Hvatningarverðlaun FKA-DK voru veitt. Herdís Steingrímsdóttir, vinnumarkaðshagfræðingur og dósent við Copenhagen Business School hlaut verðlaunin að þessu sinni.

Í London hitti Sturla Sigurjónsson sendiherra Gísla Matthías Auðunsson, kokk á Slippnum í Vestmannaeyjum, sem lék listir sínar í eldhúsinu í eitt kvöld í London, og kynnti að auki bók sína, Slippurinn.

Í Kanada sótti Hlynur Guðjónsson málstofu um sjálfbæran arkitektúr á norðurslóðum en það var sendiráð Danmerkur í Kanada ásamt Royal Canadaian Geographical Society sem stóð fyrir viðburðinum. Þá var einnig greint frá trúnaðarbréfsafhendingu Hlyns á vef sendiráðs okkar í Ottawa fyrir skemmstu. 

Þá var Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra í Osló gestgjafi í útgáfuhófi sem haldið var í tilefni af útgáfu nýjustu bókar Bergsveins Birgissonar, Kolbeinsøy. Viðburðurinn í embættisbústað Íslands í gær var undirbúinn í nánu samstarfi við forlagið Vigmostad & Bjørke. 


Í Stokkhólmi átti Hannes Heimisson sendiherra fund í Riksdagen með fulltrúum í Norðurlandanefnd sænska þjóðþingsins og starfsmönnum þingsins. Tilefnið var stjórnmálaástand á Íslandi í kjölfar þingkosninga og áherslur Íslands í aðdraganda Norðurlandaráðsþings í Kaupmannahöfn.



Í Litháen hitti Auðunn Atlason Gabrielius Landsbergis utanríkisráðherra Litháens og ræddi þar ýmis tvíhliða mál, svæðasamstarf og evrópska samvinnu.



Í Japan minntist Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra 20 ára afmælis sendiskrifstofu Íslands í Japan.



Hjá Þóri Ibsen, sendiherra Íslands í Kína, hefur verið nóg að gera. Í vikunni hefur hann m.a. kynnt sér starfsemi Eimskipafélagsins í Kína, verið viðstaddur undirritun samnings um útflutning á íslensku lambakjöti til Kína, og sótt sjávarútvegssýningu í Qingdao þar sem íslenskar sjávarafurðir voru m.a. á boðstólum og starfsemi Marels kynnt. Ma Youxiang aðstoðarlandbúnaðarráðherra Kína sótti sýninguna og Þórir sýndi honum það helsta á íslenska básnum.

Þá hitti Þórir einnig Li Keqiang forsætisráðherra Kína á þjóðhátíðardegi Kínverja og ræddu þeir m.a. um 50 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Kína og sameiginlega hagsmuni landanna um uppbyggilega samvinnu á sviði jarðhita- og loftslagsmála.


Í Bandaríkjunum tók Bergdís Ellertsdóttir þátt í að rita sameiginlega grein í ritið Foreign Policy ásamt norrænum kollegum sínum um mikilvægi kynjajafnréttis og hvernig efling þess hefur haft bæði jákvæð efnahagsleg og félagsleg áhrif á norrænt samfélag.



Þessi mál voru sömuleiðis til umræðu á viðburðinum FP Digital summit. Það hefur raunar verið í nógu að snúast hjá okkar fólki í Washington en í vikunni fór einnig fram n.k. borgarafundur (e. Twitter Townhall) með félagasamtökunum WRIClimate þar sem hægt var að spyrja norrænu sendiherranna ýmissa spurninga um loftslagsmálefni.

Í Brussel kom svo Brussel-Vaktin út.

Þá fór Hermann Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu, til Finnlands og sótti m.a. fund með Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands og hitti einnig fyrir Maria Ohisalo, innanríkisráðherra landsins.


Það var einnig nóg um að vera í síðustu viku!

Í Brussel hittust undirnefndir I-IV í fyrsta sinn í eigin persónu eftir að heimsfaraldurinn skall á og þar var Ingólfur Friðriksson, nýr deildarstjóri Evrópumála, kynntur til leiks.

Í Kampala voru aðstæður í skólum í Namayingo héraði skoðaðar. Samstarfi við héraðið var formlega ýtt úr vör í sumar. Það hvílir á samstarfssamningi til þriggja ára en sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu skólastarfs í grunnskólum, bæði með skólabyggingum og umbótastarfi í kennslu.

Í Kaupmannahöfn heimsóttu sendiherrahjónin höfuðstöðvar Georg Jensen í Frederiksberg. Þar tók Ragnar Hjartarson á móti þeim en hann gegnir stöðu hönnunarstjóra (Creative Director) hjá þessu virta fyrirtæki sem var stofnað árið 1904 og er eitt þekktasta hönnunarfyrirtæki heims. 



Helga Hauksdóttir sendiherra bauð svo norrænu sendiherrunum í Kaupmannahöfn til hádegisverðar til að bjóða nýja sendiherra frá Noregi og Finnlandi velkomna til starfa. Að auki sátu hádegisverðinn Martin Marcussen prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og Bent Winther frá Berlingske Tidene þar sem farið var yfir stöðuna í danskri innan- og utanríkispólitík. 

Okkar fólk í Malaví sendi frá sér hjartnæma kveðju á bleika daginnn og minntist góðrar samstarfskonu, Lilju D. Kolbeinsdóttur.


Paula Lehtomäki framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar heimsótti Rússland á dögunum og fundaði m.a. með sendiherrum og staðgenglum sendiherra Norðurlandanna fimm í Moskvu. Fundurinn var haldinn í finnska sendiráðinu en Finnland fer þetta árið með formennsku í nefndinni. Rætt var um samstarfsverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar og Rússlands einkum á sviði umhverfismála, stjórnmálaviðhorfið o.fl.

Í New York tók Nikulás Hannigan aðalræðismaður í New York þátt í spjalli um Ísland en viðburðurinn var hluti af kynningarátakinu Taste of Iceland.

Í Ottawa var Hlynur Guðjónsson sendiherra í viðtali við The Hill Times.



Silje Beite Løken frá sendiráði Noregs í Reykjavík heimsótti sendiráð Íslands í Osló.


Hjá Auðuni Atlasyni voru málefni Álandseyja á dagskrá í síðustu viku og þá hitti hann einnig gamlan félaga og kollega, Donatas Butkus frá Litháen, þar sem málefni NB8-ríkjanna voru m.a. á dagskrá.


Í Kína hitti Þórir Ibsen, sendiherra, aðstoðarmenningar- og ferðamálaráðherra Kína, Zhang Xu.


Í Washington fundaði Bergdís Ellertsdóttir sendiherra með norrænum kollegum sínum ásamt Jose W. Fernandez aðstoðaráðherra efnahagslegs vaxtar, orku- og umhverfismála. 


Í Genf hvatti fastafulltrúi Íslands gagnvart WTO Kína til að virða alþjóðlegar skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðaviðskiptakerfinu í umræðu hjá WTO um viðskiptastefnu Kína. Benti hann m.a. á hindranir sem íslensk fyrirtæki hefðu orðið fyrir.

Í síðustu viku sæmdi svo Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands kjörræðismann Íslands í Indónesíu, Maxi Gunawan, riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir þjónustu hans við hagsmuni Íslendinga og framlag til að styrkja og efla tengsl Íslands og Indónesíu. 

Næsta vika verður svo viðburðarík en þá hefst loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna og þá er sömuleiðis þing Norðurlandaráðs á dagskrá.

Við segjum þetta gott í bili!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta