Lausum störfum fjölgar
Lausum störfum á skrá Vinnumálastofnunar hefur fjölgað talsvert á undanförnum vikum. Í lok febrúar voru 423 laus störf á skrá hjá Vinnumálastofnun en í lok mars voru þau orðin 620. Á sama tíma hefur hægst á aukningu atvinnuleysis milli mánaða.
Atvinnuleysi í mars mældist 8,9% sem jafngildir því að 14.546 manns hafi verið án atvinnu. Hafa ber í huga hluti þeirra, 19,5% eða 3. 275 manns, er með hlutabætur sem þýðir að þeir eru í hluta- eða tilfallandi störfum.
Atvinnuleysi jókst um 9,6% að meðaltali frá því í febrúar eða um 1.270 manns. Atvinnuleysi er mest á Suðurnesjum 14,3% en minnst á Vestfjörðum 2,3%. Atvinnuleysi eykst um 12% á höfuðborgarsvæðinu en um 5,7% á landsbyggðinni. Atvinnuleysi eykst jafnt meðal karla og kvenna eða um 9,6%. Atvinnuleysið er 10,3% meðal karla og 7,2% meðal kvenna.
Í skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðuna á vinnumarkaði í mars er gert ráð fyrir að það dragi úr atvinnuleysi í mannvirkjagreinum og ferðaþjónustu nú á vormánuðum. Hins vegar er gert ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í mörgum atvinnugreinum, einkum í verslun og þjónustugreinum. Vinnumálastofnun tekur fram að erfitt sé að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu. Hún telur þó ekki óvarlegt að áætla að atvinnuleysið í apríl verði svipað og í mars eða á bilinu 8,8–9,3%.
Rúmlega 600 störf eru laus til umsóknar víðs vegar um landið. Yfirlit um þau má nálgast á vef Vinnumálastofnunar. Á þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar geta atvinnuleitendur fengið ýmsa aðstoð við atvinnuleit endurgjaldslaust. Aðstoðin felst meðal annars í upplýsingagjöf um atvinnuástand, atvinnuleysi og atvinnuhorfur ásamt því að ráðgjafar veita upplýsingar og ráðgjöf um náms- og starfsval og hvernig atvinnuleit sé best háttað.
Vinnumálastofnun starfrækir einnig EURES- Evrópska vinnumiðlun fyrir þá sem hyggjast leita að starfi eða auglýsa starf á Evrópska efnahagssvæðinu.
Skýrsla Vinnumálastofnunar um stöðuna á vinnumarkaði í mars