Fortakslaust bann við ofbeldi gegn börnum
Samþykkt var á Alþingi í dag frumvarp til laga um breytingu á barnalögum og barnaverndarlögum til að vernda börn gegn hvers konar ofbeldi. Ásta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, segir þessa breytingu mjög mikilvæga ekki síst í ljósi umtalaðs dóms Hæstaréttar sem sýknaði mann af ákæru fyrir að beita tvo drengi líkamlegum refsingum, meðal annars á þeim forsendum að í barnaverndarlögum væri ekki fortakslaust bann við slíku athæfi. „Nú eru lögin algjörlega skýr í þessum efnum og þar með réttarstaða barna séu þau beitt ofbeldi."
Í framhaldi af dómi Hæstaréttar fól ráðherra starfshópi sem vinnur að því að meta reynsluna af barnaverndarlögum að gera tillögur um hvernig heppilegast væri að breyta ákvæðum þeirra og taka þannig af öll tvímæli um að refsivert sé að beita börn líkamlegum refsingum. Á þessum tíma lá fyrir Alþingi frumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur og fleiri þingmanna um breytingu á barnaverndarlögum sem hafði sama markmið. Ákveðnar breytingar voru gerðar á því frumvarpi í samræmi við tillögur starfshópsins og hefur það nú verið samþykkt á Alþingi.
Breytingin á barnaverndarlögunum leggur fortakslaust bann við því að foreldrar eða aðrir sem bera ábyrgð á umönnun og uppeldi barns beiti það ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi, þar með töldum andlegum og líkamlegum refsingum. Í barnalögum er jafnframt kveðið á um að foreldrum beri að vernda barn sitt gegn ofbeldi. Réttur barna er þar með algjörlega skýr hvað þetta varðar og skyldur foreldra og forráðamanna sömuleiðis. Gengið er út frá því að háttsemi sem felst í því að beita barn andlegum og líkamlegum refsingum, vanvirðandi háttsemi, hótunum og ógnunum sé skaðleg fyrir barn og varði því refsingu.
Önnur mikilvæg breyting á barnaverndarlögunum var samþykkt að beiðni félags- og tryggingamálaráðherra og hafði félagsmálanefnd Alþingis frumkvæði að þeirri breytingu. Hún felur í sér ákvæði um að fulltrúi barnaverndarnefndar skuli eiga kost á að vera viðstaddur þegar skýrsla er tekin af barni sem sakborningi, brotaþola eða vitni, hvort sem skýrslutakan fer fram hjá lögreglu eða fyrir dómi. Í framkvæmd hefur þessi háttur verið hafður á við skýrslutökur en ástæða þótti til að styrkja grundvöll þess í lögum.