Hoppa yfir valmynd
5. júní 2012 Dómsmálaráðuneytið

Arkís arkitektar hlutu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði

Arkís arkitektar ehf. hlutu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík. Dómnefnd kynnti þær tillögur sem bárust við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Síðar í mánuðinum verður opnuð sýning á tillögunum á Háskólatorgi.

Verðlaunahafar með ráðherra, formanni dómnefndar og forstjóra Fangelsismálastofnunar.
Arnar Þór Jónsson og Björn Guðbrandsson frá Arkís með Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur formanni dómnefndar og Páli Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar.

Gestir skoða innsendar tillögur að nýju fangelsi á Hólmsheiði.Innanríkisráðuneytið bauð í ársbyrjun til opinnar hugmyndasamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík. Dómnefnd bárust alls 18 tillögur, átta frá innlendum aðilum og tíu tillögur erlendis frá. Í dómnefnd sátu Steinunn Valdís Óskarsdóttir formaður og sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, Páll Winkel fangelsismálastjóri skipaður af ráðherra, Pétur Örn Björnsson arkitekt skipaður af ráðherra og tilnefnd af hálfu Arkitektafélags Íslands Gylfi Guðjónsson og Hildur Gunnarsdóttir arkitektar.  

Fyrstu verðlaun í samkeppninni fékk tillagan frá arkitektastofunni Arkís, höfundar hennar eru Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar. Ráðgjafar voru Birgir Teitsson, Egill Guðmundsson og Friðrik Friðriksson arkitektar. Önnur verðlaun hlaut tillaga frá Arkitektur.is og þriðju verðlaun hlaut tillaga frá Teiknistofunni Tröð ehf.

VerdlaunatillaganÍ niðurstöðu dómnefndar um verðlaunatillöguna segir að tillagan sé mjög góð og svari einstaklega vel áherslum dómnefndar í samkeppnislýsingu. Einkum sé gæsluvarðhaldsþættinum gerð frábær skil, sem og aðalvarðstofu og miðlægum rýmum. „Þá eru aðstæður við aðalinngang og tengsl heimsóknaraðstöðu og viðtalsrýmis fyrir utanaðkomandi ráðgjafa vel leyst. Heildaryfirbragð byggingarinnar er mjög áhugavert og tillagan gefur fyrirheit um einfalda, notadrjúga og látlausa byggingu sem samræmist stefnu Fangelsismálastofnunar um örugga og vel skipulagða afplánun.“

Nýja fangelsið verður með 56 fangarýmum og á að leysa af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og fangelsi í Kópavogi en báðum þessum fangelsum verður lokað þegar hið nýja verður tekið í gagnið.  Þá er og gert ráð fyrir að gæsluvarðhaldsdeild á Litla-Hrauni verði lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun. Gert er ráð fyrir að hönnun byggingarinnar og útboðsgögn verði tilbúin vorið 2013 og í kjölfarið geti framkvæmdir hafist. Vorið 2015 er stefnt að því að ljúka framkvæmdum og taka bygginguna í notkun.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta