Fyrirkomulag þjónustu við fólk með heyrnar- og talmein til skoðunar
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir fyrirkomulag þjónustu við fólk með heyrnarskerðingu og talmein, skoða hvort og hvernig megi bæta hana og gera tillögu að skipulagi þjónustunnar til framtíðar.
Hópnum er ætlað að skoða verkefni og hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands með hliðsjón af verkefnum annarra aðila sem einnig veita heyrnarskertum einstaklingum og fólki með talmein þjónustu. Meðal þess sem hópnum er ætlað að skoða sérstaklega er fyrirkomulag greiningar og meðferðar á heyrnar- og talmeinum, hvernig endurhæfingu, þjálfun, heyrnarmælingum, fræðslu og ráðgjöf er háttað og einnig á hópurinn að skoða stöðu heyrnarfræðinga. Enn fremur skal hann skoða fyrirkomulag á sölu heyrnartækja og annarra hjálpartækja vegna heyrnarskerðingar, greiðsluþátttöku ríkisins vegna slíkra tækja og þjónustu vegna þeirra.
Stefnt er að því að starfshópurinn ljúki störfum um miðjan október og skili þá niðurstöðum sínum til heilbrigðisráðherra.
Formaður starfshópsins er Ingibjörg Sveinsdóttir. Aðrir nefndarmenn eru;
• Guðlín Steinsdóttir, án tilnefningar
• Júlíana Hansdóttir Aspelund, tilnefnd af Sjúkratryggingum Íslands
• Leifur Bárðarson, tilnefndur af Embætti Landlæknis
• Ingibjörg Hinriksdóttir, tilnefnd af Heyrnar- og talmeinastöð Íslands
• Þóra Másdóttir, tilnefnd af Heyrnar- og talmeinastöð Íslands
• Nathaniel Munice, tilnefndur af Félagi heyrnarlausra
• Arnar Þór Guðjónsson, tilnefndur af Landspítala.