Menningar- og viðskiptaráðuneytið eins árs
Menningar- og viðskiptaráðuneytið fagnar eins árs afmæli í dag 1. febrúar 2023. Ráðuneytið var formlega sett á laggirnar í febrúar 2022, en það fer meðal annars með málaflokka ferðaþjónustu, fjölmiðla, menningar, íslenskrar tungu, táknmáls og viðskipta.
Verkefni nýja ráðuneytisins hafa verið afar fjölbreytt á fyrsta starfsári þess. Eftir erfið ár í heimsfaraldri tók ferðaþjónustan, viðskiptalífið og öll menningarstarfsemi við sér á ný og mátti greina gríðarlega grósku í þessum greinum á árinu eins og sjá má í fréttaannál ráðuneytisins fyrir árið 2022.
,,Á fyrsta ári nýja ráðuneytisins höfum við þegar lokið mörgum þeim verkefnum sem við lögðum upp með. Ferðaþjónustan er aftur orðin stærsta atvinnugrein landsins og menningarstarfsemi í landinu hefur verið á fullum skriði," segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Í upphafi árs voru 450 milljónir króna settar í viðspyrnuaðgerðir í þágu tónlistar- og sviðslistagreina og 550 milljónir króna í markaðsverkefnið „Ísland saman í sókn“ til að styðja við viðspyrnu ferðaþjónustunnar eftir heimsfaraldur og styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar.
Stórbætt starfsumhverfi menningargreina
Ný sviðslistamiðstöð tók til starfa á árinu sem allir helstu hagaðilar innan sviðslista á Íslandi komu að. Stefnumótun í ýmsum málaflokkum gekk vel á árinu 2022 og mun afrakstur hennar birtast sem skýrum hætti á árinu 2023. Ný heildarlög um tónlist ásamt tónlistarstefnu hafa verið lögð fram, en um er að ræða vatnaskil fyrir tónlistarlífið í landinu.
Með nýjum lögum verður nú Tónlistarmiðstöð sett á laggirnar sem mun hafa aukin slagkraft til þess að styðja við íslenskt tónlistarfólk á innlendum og erlendum vettvangi og nýr tónlistarsjóður verður tekinn upp til að einfalda og bæta allt styrkjaumhverfi í tónlistariðnaðinum. Hafist verður handa við að hrinda nýjum stefnum í málefnum hönnunar og arkitektúrs annars vegar og myndlist hins vegar í framkvæmd ásamt því að breytingar á lögum um starfslaun listamanna verða kynnt. Þá er í gangi vinna við stefnumótun og aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu sem og fjölmiðlastefnu.
Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um að hækka endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu á Íslandi úr 25% í 35% var þá samþykkt á Alþingi í júní. Í sumar hófust svo tökur á þáttunum True Detective, hér á landi, sem er stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar en umfang þess er á milli 9-10 milljarðar íslenskra króna. Þá heimsótti Lilja einnig mörg af stærstu kvikmyndafyrirtækjum heims í ferð sinni til Los Angeles til þess að kynna kosti Íslands sem tökustaðar.
Haldið út
Margt hefur áunnist í málefnum íslenskunnar og þróun í máltækni. Í maí fór ráðherra ásamt forseta Íslands og sendinefnd á fund stórfyrirtækja í tækni í Bandaríkjunum til að sýna þeim fram á mikilvægi þess að íslensk tunga eigi sinn sess í þróun á nýjustu máltæknilausnum. Ráðherranefnd um íslenska tungu var svo sett á laggirnar í viku íslenskrar tungu í nóvember sem ætlað er að samhæfa stefnumótun stjórnvalda í málefnum tungumálsins.
Tímamót urðu í menningarlífi Austurlands þegar nýtt menningarhús opnaði á Egilsstöðum, en Lilja Alfreðsdóttir, þá mennta- og menningarmálaráðherra, hrinti verkefninu af stað árið 2018 í samstarfi við sveitarfélagið Fljótsdalshérað. Með húsinu mun aðstaða til sviðslista batna til muna á svæðinu sem og aðstaða til listsýninga.
Íslensk viðskiptasendinefnd var send til Suður Kóreu á árinu en það kom í hlut Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra að leiða hana. Sérstök áhersla var lögð á menningu og skapandi greinar en Lilja fundaði einnig með suður kóreskum ráðamönnum og stofnunum.
Gangskör var gerð í öryggismálum í Reynisfjöru þegar uppsetningu nýs viðvörunarkerfis lauk. Auk nýrra viðvörunarskilta var komið fyrir 300 metra langri keðju meðfram bílastæðinu sem leiðir fólk eftir göngustíg og framhjá skiltunum. Þá var löggæslumyndavélum komið fyrir á mastri í fjörukambinum.
Evrópsku kvikmyndaverðlaunin voru svo haldin í Hörpu í desember. Þau voru fyrsti svokallaði A-lista viðburður sem haldinn hefur verið hér á landi. Fjölmargir erlendir gestir sóttu hátíðina, þar á meðal yfir 100 erlendir blaðamenn.