Áætluð framlög til sveitarfélaga til að mæta kostnaði vegna samþættingar á þjónustu í þágu farsældar barna 1.078 m.kr.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur undirritað reglugerð um úthlutun á framlagi til að mæta kostnaði sveitarfélaga vegna samþættingar á þjónustu í þágu farsældar barna á árinu 2024. Jafnframt hefur ráðherra samþykkt tillögu um áætluð framlög til sveitarfélaga, sem byggir á reglugerðinni fyrir árið 2024, að fjárhæð 1.078 m.kr.
Fram kemur í 2. grein reglugerðarinnar með hvaða hætti framlög skulu reiknuð. Úthlutunin byggir á fjórum forsendum sem allar hafa jafnt vægi:
- Fjöldi barna í hverju sveitarfélagi.
- Fjöldi barna með stuðning í leik- og grunnskóla.
- Fjöldi barna á lágtekjuheimilum.
- Fjöldi barna af erlendum uppruna.
Framlögin verða enduráætluð í mars 2024 þegar uppfærð gögn berast frá Hagstofu Íslands um fjölda barna á lágtekjuheimilum vegna tekna ársins 2022 og uppfærslu á fjölda barna með stuðning í leik- og grunnskólum.