Hoppa yfir valmynd
16. mars 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 125/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 125/2022

Miðvikudaginn 16. mars 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 27. febrúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. febrúar 2020 um að samþykkja umsókn sonar hans um menntunarframlag frá 1. janúar 2020 til 17. desember 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn 3. febrúar 2020 sótti sonur kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um framlag vegna menntunar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. febrúar 2020, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á framlagi vegna menntunar sonar hans frá 1. janúar 2020 til 17. desember 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. febrúar 2022.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að samningur hafi verið framlengdur vegna greiðslu menntunar fyrir ungmenni 18 til 20 ára og það hafi verið gert án samþykkis kæranda.

III.  Niðurstaða

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. febrúar 2020, fylgdi kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. febrúar 2022, en þá var kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar löngu liðinn.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Samkvæmt gögnum málsins leið meira en ár frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 12. febrúar 2020 þar til kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni þann 27. febrúar 2022. Þegar af þeirri ástæðu verður kæru ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta