Fjármálaráðherrar Íslands og Noregs funda í Washington
Fjármálaráðherra Noregs, Siv Jensen, segist sýna því fullan skilning að Ísland þurfi í sumum tilvikum að óska eftir aðlögun vegna regluverks Evrópusambandsins áður en það er tekið upp í EES-samninginn, en þau Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Íslands, funduðu í Washington í dag.
Fundurinn átti sér stað í tengslum við setu fjármálaráðherranna á vorfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ráðherrarnir ræddu meðal annars vinnu við upptöku á reglum ESB á fjármálamarkaði í EES-samninginn, en Ísland hefur haft uppi ákveðin sjónarmið í tengslum við mat á hæfi virkra eigenda í fjármálafyrirtækjum. Stór fjárfesting í kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum á Íslandi er að mati íslenskra stjórnvalda auðveldari en í sambærilegum fyrirtækjum á EES-svæðinu, vegna smæðar þeirra íslensku.
Bjarni Benediktsson fundaði jafnframt vegna þessa máls með Valdis Dombrovskis, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB, en einnig ræddu þeir þann árangur sem náðst hefur á Íslandi við losun fjármagnshafta og stöðu efnahagsmála.
Bjarni Benediktsson og Valdis Dombrovskis, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB