Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 9. - 15. apríl.

Evrópskt sjúkratryggingakort leysir af hólmi sjúkratryggingavottorðið E-111

Tryggingastofnun hættir útgáfu á sjúkratryggingavottorðinu E-111 í lok þessa mánaðar. Í stað þess kemur evrópska sjúkratryggingakortið sem gildir í flestum löndum Evrópu og veitir rétt á allri heilbrigðisþjónustu sem telst nauðsynleg til að unnt sé að ljúka tímabundinni dvöl á öruggan hátt. Kortið gildir eingöngu hjá heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum, apótekum og öðrum þjónustuaðilum með samninga við opinbera sjúkratryggingakerfið. Almannatryggingar taka ekki þátt í kostnaði vegna þjónustu sem veitt er á einkareknum sjúkrastofnunum og kortið gildir því ekki þar. Frá þessu er sagt á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins. Frá 1. maí næstkomandi verður hægt að sækja um evrópska sjúkratryggingakortið á heimasíðu TR. Áætlað er að á fyrsta árinu verði gefin út um þrjátíu þúsund kort. Evrópska sjúkratryggingakortið veitir handhafa rétt til heilbrigðisþjónustu við tímabundna dvöl í öðrum löndun innan Evrópska efnahagssvæðisins á sama verði og heimamenn. Kortið hefur almennt tveggja ára gildistíma.
http://www.tr.is

Spurt um fulltrúa sjúklinga

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, greindi frá því í fyrirspurnartíma á Alþingi að hátt á þriðja hundrað manns hefðu leitað til umboðsmanns sjúkra á Landspítala – háskólasjúkrahúsi á meðan þar var starfandi sérstakur fulltrúi sjúklinga. Þeir sem leituð til hans voru ekki eingöngu úr hópi sjúklinga og aðstandenda, heldur einnig úr hópi starfsfólks sjúkrahússins. Forsvarsmenn sjúklingafélaga leituðu einnig til fulltrúa sjúklinga.
pdf-takn Svar ráðherra...

Aukin heilbrigðisþjónusta við fanga

Heilbrigðisþjónusta við fanga verður bætt umtalsvert á árinu. Þetta koma fram í svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á Alþingi. Hefur ráðherra nýlega heimilað Heilbrigðisstofnun Suðurlands að auka verulega þjónustu geðlæknis við fanga á Litla-Hrauni með því að veita stofnuninni heimild til að auglýsa eftir sérfræðingi í geðsjúkdómum í hálfa stöðu til viðbótar við þá fjórðungsstöðu sem fyrir var. Geðlæknisþjónusta þrefaldast því frá því sem nú er.
pdf-taknSvar ráðherra...

Vangaveltur um framtíð bygginga í Fossvogi

Um 28 þúsund fermetrar húsnæðis eru í byggingum Landspítala – háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Spurt var um það á Alþingi hvort ákveðið væri hvernig byggingarnar yrðu nýttar þegar nýr háskólaspítali rís við Hringbraut. Ráðherra undirstrikaði í svari sínu að þótt undirbúningur væri hafin að byggingu við Hringbraut væri ákvörðun um framkvæmdir ekki tekin. Hann sagði að meðal hugmynda sem hefðu verið ræddar væri spurning um hvort nýta mætti húsnæðið í Fossvogi fyrir öldrunarþjónustu, en það myndi koma í góðar þarfir. Sagði ráðherra m.a. að B-álma hússins hefði verið hönnuð sem öldrunarlækningadeild. Í húsnæðinu mætti koma fyrir á þriðja hundrað legurýmum, auk margvíslegrar þjónustu fyrir hina öldnu einstaklinga.
pdf-taknSvar ráðherra...

Viðbragðsáætlun við faraldri

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, upplýsti í fyrirspurnartíma á Alþingi að viðbragðsáætlun heilbrigðisyfirvalda við faraldri hafi verið í smíðum í ár. Hann var m.a. spurður um viðbragðsáætlanir, birgðir inflúensulyfja og fleiri atriði sem tengjast hættu á faraldri. Í máli ráðherra kom fram að viðbúnaður á Landspítala - háskólasjúkrahúsi hafi verið aukinn og að einnig væri áfram unnið að auknum viðbúnaði annars staðar í heilbrigðisþjónustunni. Af hálfu heilbrigðisyfirvalda hefur aðgerðunum verið stýrt í mjög náinni samvinnu við sóttvarnalækni. Er hann reiðubúinn með frekari aðgerðir verði þess talin þörf, allt eftir gerð og eðli ógnarinnar. Birgðir veiruhamlandi lyfja voru til dæmis auknar á síðasta ári, sagði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
pdf-taknSvar ráðherra...

Málþing um starfsendurhæfingu

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði ráðstefnu um endurhæfingu sem staðið hefur í Reykjavík í vikunni. Yfirskrift ráðstefnunnar var ,,Breaking the barriers – new thoughts in organizing vocational rehabilitation and other interventions." Það var félagsmálaráðuneytið sem hélt málþingið í samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni. Árni Magnússon félagsmálaráðherra setti málþingið en dagskráin var tvískipt, fyrri daginn var lögð áhersla á starfsendurhæfingu eins og hún er nú og gerðu fulltrúar frá Norðurlöndunum grein fyrir stöðu mála hver í sínu landi. Síðari daginn ræddu fulltrúar á málþinginu starfsendurhæfingu frá ýmsum hliðum.
pdf-taknÁvarp ráðherra...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
15. spríl 2005.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta