Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Lýðheilsustöð og Háskólinn á Akureyri vinna saman

Samstarf Lýðheilsustöðvar og Háskólans á Akureyri um rannsóknir og fræðslu á sviði lýðheilsu var staðfest með samstarfssamningum sem undirritaðir voru á Akureyri í morgun. Með samningunum er ætlunin að styrkja tengsl Lýðheilsustöðvar við háskólasamfélagið í þágu bættrar lýðheilsu á Íslandi og efla þátttöku Háskólans á Akureyri í rannsóknum og fræðslu á þessu sviði. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, Anna Elísabet Ólafsdóttir forstjóri Lýðheilsustöðvar og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, ávörpuðu fundarmenn nyrðra af þessu tilefni. Á fundinum kynnti Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, rannsóknarverkefnið Heilsa og lífskjör skólanema. Hér er um að ræða íslenskan hluta alþjóðlegu rannsóknarinnar Health Behaviour in School-Aged Children (HBSC) sem unnin er að tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Þetta er eitt viðamesta rannsóknarverkefni samtímans á sviði heilsu og heilsutengdrar hegðunar ungs fólks og með þátttöku í því fá íslenskir fræðimenn mikilvæga innsýn í stöðu íslenskra unglinga í alþjóðlegum samanburði fjörutíu landa. Rannsóknin verður fjármögnuð af Lýðheilsustöð og Háskólanum á Akureyri, en Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri mun sjá um að leggja rannsóknina fyrir tólf þúsund skólanema á Íslandi vorið 2006.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta