Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 16. - 22. apríl

Samantekt Lyfjastofnunar á tilkynningum um aukaverkanir á fyrsta ársfjórðungi 2005

Lyfjastofnun hefur tekið saman tilkynningar um aukaverkanir lyfja á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en skráning aukaverkana er eitt af hlutverkum stofnunarinnar samkvæmt lyfjalögum og ákvæðum reglugerðar nr. 462/2000. Samkvæmt reglugerðinni er markaðsleyfishöfum lyfja skylt að tilkynnaLyfjastofnun um allar alvarlegar aukaverkanir sem verða vegna þeirra lyfja sem hann hefur markaðsleyfi fyrir. Á heimasíðu Lyfjastofnunar er bent á þótt ekki sé í reglugerðinni kveðið á um skyldu lækna eða annars heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna um aukaverkanir lyfja telji stofnunin það siðferðilega skyldu heilbrigðisstarfsmanna að gera Lyfjastofnun viðvart um þær alvarlegar aukaverkanir sem það verður vart í starfi sínu. Á þann hátt leggi heilbrigðisstarfsfólk sitt af mörkum til að auka þekkingu á lyfjum sem hægt er að koma á framfæri við heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga. Nánar er fjallað um þetta á heimasíðu Lyfjastofnunar og þar er einnig birt skýrslan með samantekt tilkynninga um aukaverkanir á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.
Nánar...

Vinnuþing um áfallahjálp á landsvísu

Haldið verður vinnuþing um áfallahjálp á landsvísu í Safnaðarheimili Grensásskirkju fimmtudaginn 28. apríl næstkomandi, kl. 12:30–17:00, og föstudaginn 29. apríl, kl. 09:00–16:30. Rauði kross Íslands, landlæknisembættið, Landspítali – háskólasjúkrahús, almannavarnadeild ríkislögreglustjórans og Biskupsstofa standa fyrir vinnuþinginu. Upplýsingar um fyrirkomulag skráningar og dagksrá þingsins eru á heimasíðu landlæknis.
Nánar...

Reiðþjálfun barna

Heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra lætur nú kanna hvort til greina kæmi að greiða eða taka þátt í greiðslu við reiðþjálfun fatlaðra barna í meðferðarskyni. Ásta Möller spurðist fyrir um málið á Alþingi, en sjúkraþjálfarar sem nota þess aðferð í meðferðarskyni hafa sent ráðherra erindi um málið.
pdf-taknSvar ráðherra...


Spurt um fækkun starfa vegna fjárhags- og mannauðskerfa

Störfum í heilbrigðisþjónustunni fækkar ekki á landsbyggðinni þótt upp verði tekin svokölluð fjárhags- og mannauðskerfi í bókhaldi og fjárhagsstjórnun. Þetta kom fram í svari Jón Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, á Alþingi þegar hann svaraði fyrirspurn um málið frá Kristjáni Möller.
pdf-taknSvar ráðherra....


Landlæknir kynnir drög að bæklingi um fósturskimun og fósturgreiningu á meðgöngu

Landlæknisembættið hefur tekið saman drög að bæklingi með heitinu „Fósturskimun og fósturgreining á meðgöngu“. Bæklingurinn var kynntur á vorráðstefnu Miðstöðvar mæðraverndar sem haldin var í dag, 22. apríl, undir yfirskriftinni ,,Skimun á meðgöngu". Markmiðið með bæklingnum er að upplýsa verðandi foreldra um rannsóknir sem bjóðast til skimunar og greiningar á fósturgöllum og meðfæddum sjúkdómum með það fyrir augum að auðvelda þeim að taka upplýsta ákvörðun um val á slíkum rannsóknum. Bæklingurinn er saminn af ritnefnd sérfræðinga á vegum Landlæknisembættisins undir ritstjórn Jóns Jóhannesar Jónssonar, yfirlæknis erfða- og sameindalæknisfræði LSH. Hann er nú birtur á heimasíðu landlæknisembættisins sem drög til umsagnar til 20. maí og geta þeir sem vilja komið athugasemdum á framfæri, jafnt almennir lesendur sem sérfræðingar.
Nánar...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
22. apríl 2005.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta