Mál nr. 1/2000
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA
Mál nr. 1/2000
Eignarhald: Miðstöðvarklefi.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 5. janúar 2000, beindi A, X nr. 24, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, C og D, öll til heimilis að Y nr. 23, hér eftir nefnd gagnaðilar.
Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 20. janúar 2000. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Greinargerð gagnaðila, dags. 31. janúar 2000, var lögð fram á fundi nefndarinnar 8. febrúar sl. Á fundi nefndarinnar 14. mars sl. voru lagðar fram athugasemdir álitsbeiðanda og E, dags. 6. febrúar 2000, og málið tekið til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjölbýlishúsið Y nr. 23. Húsið skiptist í fimm eignarhluta. Álitsbeiðandi og E eru eigendur eignarhluta 101, E er eigandi eignarhluta 201 og gagnaðilar eru eigendur eignarhluta 202, 301 og 302. Í bréfi gagnaðila, dags. 12. desember 1999, til álitsbeiðanda og E, afrit sent fasteignasölu vegna sölu íbúðar 101, kemur fram að verið sé að gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið. Þar sé miðstöðvarklefi á 1. hæð skilgreindur sem tæknirými í sameign allra.
Ágreiningur er um eignarhald á miðstöðvarklefanum.
Krafa álitsbeiðanda er:
Að viðurkennt verði að miðstöðvarklefi fylgi íbúð 101.
Í álitsbeiðni kemur fram að R eigandi hússins hafi látist 1986. Erfingjar hans, álitsbeiðandi og E, hafi látið byggingarfulltrúann í Reykjavík reikna út skiptingu hússins. Á þeim tíma hafi verið ljóst að ekki þyrfti heilt herbergi undir tæknibúnað sem tengdist hitun hússins. Á fylgiblaði með þinglýstum eignaskiptasamningi komi fram að sameign á 1., 2. og 3. hæð sé stigahúsið 9,8 m² á hverri hæð og íbúð 101 á 1. hæð sé 105,2 m² eða 31,2% af húsinu. Flatarmál íbúðarinnar 105,2 m² og 9,8 m² stigagangur séu samtals 115 m² eða jafnt og botnflötur alls hússins. Á þessu megi sjá að sameign á 1. hæð sé einungis stigahúsið en ekki herbergið sem hitainntak, rennslismælir og vatnslokar séu í. Þá séu 105 m² samanlögð stærð tveggja íbúða á efri hæðum. Álitsbeiðandi og E hafi ekki selt miðstöðvarklefann með íbúðunum þremur og um það geti fasteignasalinn vitnað sem seldi íbúðirnar. Gagnaðilar hafi ekki keypt íbúðirnar af þeim.
Í greinargerð gagnaðila kemur fram að þinglýstur eignaskiptasamningur frá árinu 1988 sé ekki fullnægjandi. Í samningnum komi ekkert fram um eignarhald á umræddum miðstöðvarklefa. Við kaup á íbúðum 202 og 302 hafi ekki fylgt afrit af því skjali sem álitsbeiðandi vísi til sem fylgiblað með þinglýstum eignaskiptasamningi. Þá varpi skjalið ekki ljósi á hvort miðstöðvarklefinn sé sameign eða séreign. Nú sé búið að ganga frá sölu á íbúð 101 og hafi miðstöðvarklefinn fylgt með þrátt fyrir að eignarhald hans sé óljóst. Mikilvægt sé að aðgangur að klefanum sé greiður, m.a. vegna lagna. Með nýrri eignaskiptayfirlýsingu muni eignarhlutfall breytast og skipti því máli hvernig eignarhald á miðstöðvarklefanum sé skilgreint.
III. Forsendur
Í gögnum málsins kemur fram að íbúðin hafi verið seld og kaupandi vilji færa hitagrind og vatnsloka út fyrir útvegg á sinn kostnað og nýta klefann. Þessi lausn hafi verið fundin í samráði við Orkuveituna, sem mæli eindregið með henni. Mælarnir, grindin og lokarnir yrðu þá í einangruðum kassa.
Í málinu liggur fyrir þinglýstur eignaskiptasamningur, dags. 6. maí 1988. Þar segir "Miðstöðvarklefi er í íbúð í kjallara. Eiganda hennar er kunnugt um, að aðrir eigendur hússins eiga aðgangsrétt þar að vegna inntakslagna, ef þörf krefur."
Orðalag eignaskiptasamningsins bendir ótvírætt til þess að miðstöðvarklefinn sé í séreign 101, að öðrum kosti hefði verið óþarft að kveða á um aðgangsrétt annarra eigenda hússins að inntakslögnum. Styðst þessi niðurstaða og við önnur gögn málsins.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að miðstöðvarklefi sé í séreign íbúðar 101.
Reykjavík, 14. mars 2000.
Valtýr Sigurðsson
Guðmundur G. Þórarinsson
Karl Axelsson